Breytingar í fjarskiptaheiminum hafa ekkert með eignarhald að gera
Birtist í Mbl
Samgönguráðherra, Halldór Blöndal, hefur lagt fram á Alþingi lagafrumvarp um að gera Póst og síma að hlutafélagi. Um þetta frumvarp eru mjög skiptar skoðanir. Að öllu óbreyttu mun frumvarpið engu að síður ná fram að ganga. En áður en ákvörðun verður tekin er mikilvægt að allar upplýsingar hafi komið fram. Enn sem komið er hefur málflutningur verið fremur óljós og þokukenndur, jafnvel villandi.
Andstæðingar frumvarpsins hafa bent á að fyrirheit um að Póstur og sími hf. verði ekki selt séu ólíkleg til að standa lengi. Þar er bent á reynslu annarra þjóða þar sem sams konar loforð voru gefin, nú síðast í Noregi en þar í landi er nú verið að undirbúa sölu á hlutabréfum þótt aðeins séu liðnir fáeinir mánuðir frá því að sagt var að ekki stæði til að selja. Þetta þarf hins vegar engum að koma á óvart því breytingin er gerð gagngert til að virkja kosti markaðarins.
Miklir peningahagsmunir
Hlutabréf í einkavæddum símafyrirtækjum hafa verið verðmæt á hlutabréfamörkuðum enda starfsemin arðvænleg. Þegar sjást þess merki að eignarhlutirnir streyma til fjársterkustu aðilanna, fyrst og fremst í Bandaríkjunum. Íslenskri þingmannanefnd sem heimsótti Noreg og Danmörku í fyrrahaust til að kynnast viðhorfum stjórnenda í þessum löndum var greint frá því að arðurinn af danska símanum hefði árið áður verið um ellefu milljarðar króna en þar af hefðu á milli þrír og fjórir milljaðrar farið til Bandaríkjanna því þrjátíu til fjörutíu prósent hlutabréfanna væru komin í eigu Bandaríkjamanna.
Efasemdarmenn um að gera íslensku Póst- og símamálastofnunina að hlutafélagi hafa bent á að hún skili á annan milljarð króna í ríkissjóð árlega en þar er um að ræða fjármagn sem ríkissjóður yrði að leita eftir ofan í vasa skattborgaranna ef fyrirtækið yrði selt, því aðeins brot af þessari upphæð myndi skila sér í gegnum hefðbundna skattheimtu enda segir sig sjálft að fjárfestar sem keyptu fyrirtækið ætlast til að fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Öll völd á eina hendi
Án efa hugsa fjársterkir hagsmunaaðilar í viðskiptum gott til glóðarinnar og þrýsta á um að Póstur og sími verði einkavæddur þannig að þeir geti komist yfir þessa eign. Á Alþingi eiga þeir vísa stuðningsmenn því margir þingmenn eru þeirrar pólitísku skoðunar að starfsemi á borð við póst- og símaþjónustu eigi að vera einkarekin. Þeir telja að þessi starfsemi eigi að lúta markaðslögmálum og eftirlitið með milljörðunum tuttugu til þrjátíu sem Póstur og sími hefur verið metinn á eigi að vera á hendi hluthafanna. Þessir þingmenn verða að vísu svolítið kindarlegir í framan þegar þeir eru beðnir um að skýra kosti þess að hafa aðeins eitt hlutabréf, í varðveislu eins ráðherra eins og frumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Þeim reynist erfitt að færa sannfærandi rök fyrir því að dregið skuli úr eftirliti almannnavaldsins með þessari dýrmætu peningakvörn án þess að til sögunnar komi eftirlit markaðarins.
Einnig er það umhugsunarefni að til stendur að setja stofnuninni skorður varðandi gjaldskrár, og ekki skal ég lasta það, en í því sambandi má nefna að einkavæðingarsinnar á Norðurlöndum hafa talið helsta kostinn við að komast undan ríkinu einmitt þann að þannig fáist frelsi í verðlagningu.
Eftirlitsbáknin þenjast út
Sú hefur hins vegar orðið raunin víðast hvar þar sem póst og símaþjónusta hefur verið einkavædd að í kjölfarið hafa verið settar á laggirnar eftirlitsstofnanir til að gæta þess að notandinn verði ekki blóðmjólkaður af nýjum eigendum. Þessar eftirlitsstofnanir hafa þanist út með tilheyrandi skrifræði alls staðar þar sem einkaleyfisstofnanir í almannaþjónustu hafa verið einkavæddar. Kostnaðurinn af eftirlitinu fellur að sjálfsögðu á skattborgarann.
En hvers vegna einkavæða? Ýmsir þeir sem vilja verja og vernda hinn íslenska Póst og síma vegna komandi alþjóðlegrar samkeppni standa í þeirri trú að auðveldara sé að koma vörnum við, halda stofnuninni saman sem einni öflugri einingu til að keppa í grimmum fjölþjóðlegum viðskiptaheimi hafi hún verið gerð að hlutafélagi. Þeir halda jafnvel að ríkisstofnun sé óheimilt að taka þátt í samkeppni á markaði og benda á framgöngu Samkeppnisstofnunar gagnvart ýmsum opinberum stofnunum sem hafa á hendi þjónustu sem einkarekstur er farinn að sækjast eftir. Verslunarráðið hefur þrýst mjög á Samkeppnisstofnun í þessum efnum og iðulega skírskotað til EES skuldbindinga. Með öðrum orðum hlutafélagavæðingin er þannig hugsuð sem vörn gegn innlendum aðilum sem kæmu til með að nota breytingar í hinum fjölþjóðlega viðskiptaheimi sér til framdráttar: fá Póst og síma bútaðan niður svo þessi starfsemi verði auðveldari viðfangs í samkeppni hér innanlands.
Spurning til Samkeppnisstofnunar
Þegar farið er í saumana á þessum málum kemur hins vegar í ljós að breytingar í fjarskiptaheiminum og alþjóðlegar skuldbindingar í þeim efnum hafa ekkert með eignarhald að gera, einvörðungu starfshætti og skipulag á markaði og þá fyrst og fremst afnám einkaréttar og einokunar. Einn af grundvallarþáttum EES samkomulagsins lýtur vissulega að því að virða frjálsa samkeppni á tilteknum sviðum. Í því skyni skal dregið úr hvers kyns niðurgreiðslum og millifærslum. Á þessari forsendu hefur Verslunarráð Íslands byggt sinn málflutning gagnvart opinberri starfsemi sem skarast við markaðsfyrirtæki. Póstur og sími hefur brugðist við slíkum kærum með því að gera viðkomandi starfsemi, svo sem notendabúnaðinn, að óháðum sjálfstæðum rekstrareiningum. Þetta hefur hins vegar ekkert með eignarhaldið að gera, gildir einu hvort það er opinbert eða ekki.
Því er ekki að leyna að stundum virðist Samkeppnisstofnun kaþólskari en páfinn þegar kemur að markaðseftirliti með þjónustu á vegum hins opinbera og finnst mér löngu orðið tímabært að opinberlega sé rætt um þær forsendur sem Samkeppnisstofnun starfar eftir. En sú umræða bíður betri tíma. Nú hins vegar ríður á að fá staðfest hvort Póstur og sími komi ekki til með að verða háð nákvæmlega sams konar markaðseftirliti hvort sem það er hlutafélag eða fyrirtæki í eigu ríkisins. Sé þetta á misskilningi byggt er hér með óskað eftir því að Samkeppnisstofnun svari því skýrt og afdráttarlaust hvort eitthvað sé að finna í alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga sem knýr okkur til að gera Póst og síma að hlutafélagi.
Það væri einnig fróðlegt að fá að vita frá stofnuninni hvernig hún muni bera sig að gagnvart erlendum risafyrirtækjum sem kæmu inn á íslenskan markað en stunda jafnframt miklar millifærslur á fjármunum á milli heimshluta og án efa einnig á milli óskyldrar starfsemi innan fyrirtækisins. Verður farið í bókhaldið hjá Bell-símanum með sama stækkunargler í hendi og notað var á íslenska símann?