Fara í efni

BREIÐFIRÐINGAR SYNGJA OKKUR INN Í JÓLIN


Jólatónleikar Breiðfirðingakórsins bregðast ekki! Það hef ég nú reynt undanfarin ár. Að þessu sinni efndi kórinn til jólatónleikanna í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Kirkjan er all nýstárleg - sérstök en einföld og laus við bruðl. Hljómur góður í kirkjunni. Það þótti mínu eyra alla vega.
Á tónleikunum söng kórinn afbragðsvel og smitaði gleði og ánægju, sem greinilega býr með honum, til okkar sem á hlýddu. Stjórnandinn, Judith Þorbergsson, kunni greinilega sitt fag og sömuleiðis undirleikarinn, Helgi Már Hannesson. Á trompet lék Hannah Rós Sigurðardóttir, ungur músíkant sem blés undrahreinum og fallegum tón úr hljóðfæri sínu. Þóra Einarsdóttir sópransöngkona söng eins og engill og verð ég að segja að hljómfegurri kvenmannsrödd heyri ég ekki. Í einu orði sagt frábær listakona! 
Auðvitað voru jólalög nær einvörðungu á dagskrá, bæði innlend og erlend. Dagskráin hófst á íslenskri þjóðvísu eftir Jóhannes úr Kötlum og lauk á Heims um ból með ljóði Sveinbjarnar Egilssonar.
Breiðfirðingakórnum kann ég bestu þakkir! Við komumst öll í jólskap!!!