Fara í efni

BREIÐ SAMSTAÐA SKILAÐI ÁRANGRI


Í vikunni samþykkti Alþingi ríkisábyrgð á Icesave-lánum Landsbankans. Fjölmiðlar keppast við að setja fram söguskýringar á atburðarás sumarsins. Ekki þykir mér þar allt rétt hermt.
Alþingi fékk Icesave-samninginn til umfjöllunar eftir að hann hafði verið undirritaður, nokkuð sem var réttilega gagnrýnt. Í ofanálag hafði komið á daginn að ekki var meirihluti fyrir því innan stjórnarmeirihlutans á þingi að tryggja ríkisábyrgðina.  Leyndin sem í upphafi hvíldi yfir samningnum var einnig gagnrýnd.

Svíar fá klapp á kollinn


Ég var í hópi þeirra sem ekki var fylgjandi ríkisábyrgðinni að óbreyttu, því ég var ósáttur við samninginn og allt samningsferlið sem fram fór undir hótunum Breta og Hollendinga sem óspart beittu fyrir sig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Undir það síðasta féll það í hlut Svía að verkstýra aðför ESB að Íslandi í krafti formennsku í ráðherranefnd Evrópusambandsins þetta misserið. Að sögn þótti ráðamönnum í Brussel þetta "norræna vinaríki" hafa staðið sig vel í þessu hlutverki og fyrir vikið fengið klapp á kollinn frá gömlu nýlenduherrunum í Haag og London.

Stjórnarandstaðan vildi ekki öll fella

Nú var úr vöndu að ráða. Ég taldi að besta ráðið sem við gætum brugðið á væri að hvorki samþykkja né fella samninginn heldur samþykkja þingsályktun með yfirlýsingu Íslands um vilja til að standa við skyldur okkar og skuldbindingar og um ásetning okkar að ná í stolnar eigur og nýta þær upp í tapaðar inneignir. Þá þyrfti að fá úr því skorið hverjar væru yfirleitt skuldbindingar Íslands.
Fyrir þessari leið reyndist ekki vilji innan stjórnarmeirihlutans. Fljótlega varð ég þess áskynja að innan stjórnarandstöðunnar - einkum í Sjálfstæðisflokki - voru ýmsir sem ekki vildu að samningurinn yrði felldur. Fyrir því sjónarmiði töluðu og ákaft ýmsir hagsmunaaðilar á fjármálamarkaði, sem nánast öllu vildu kosta til svo fjármálamarkaðir opnuðust sem fyrst. Í þessum hópi voru framkvæmdastjóri SA og forseti ASÍ ásamt stofnanavæddum hagfræðingum sem einum rómi lofuðu og prísuðu Icesave og hvöttu þingið ákaft að tvínóna ekki að við að samþykkja herlegheitin. Þessir aðilar gáfu lítið fyrir allt tal um fyrirvara.

Fyrirvarar viturlegasta úrræðið

Réttilega var hlustað á rök þeirra sem sögðu að ef samningurinn yrði felldur yrði það túlkað sem ásetningur Íslendinga að sinna í engu skuldbindingum sem þeir tækjust á herðar. Þegar þetta tvennt kom saman, efasemdir um hve skynsamlegt það væri að fella samninginn og svo rökstuddur grunur um að margir Sjálfstæðismenn myndu tryggja að samningurinn yrði ekki felldur þegar til kastanna kæmi, þá varð augljóst að það eina viturlega í stöðunni væri að setja fyrirvara við ríkisábyrgðinni, svo stranga að þeir tryggðu almannahag. Þetta gekk eftir, nokkuð sem samninganefndin hefði aldrei getað náð fram í því andstreymi sem hún bjó við, vegna þess að við höfðum látið undir höfuð leggjast að tala máli Íslands gagnvart ríkisstjórnum og ekki síður almenningi úti í heimi.

63-0

Augljóst var að við þessar aðstæðir yrðu fyrirvarar aðeins settir með breiðri samstöðu á þingi. Þessi leið var kölluð 63-0 leiðin og fól það í sér að virkja þingið allt. Í reynd varð 63-0 á endanum ofan á. Ekki svo að skilja að samningurinn hafi verið endanlega samþykktur með 63 atkvæðum gegn engu. En allir þingflokkar tóku með beinum og óbeinum hætti þátt í smíði fyrirvaranna og um þá myndaðist breið samstaða þótt sumir vildu ganga ívíð lengra.

Pétur Blöndal og Helgi Áss

Fyrirvararnir eru af tvennum toga. Í fyrsta lagi efnahagslegir fyrirvarar sem hagfræðingahópur í þinginu vann að. Á engan er hallað að nefna Pétur H. Blöndal á nafn öðrum fremur í þessu verki en hann hefur beitt sér frá upphafi fyrir því að settir yrðu fyrirvarar sem tengdu afborganir hagvexti. Lilja Mósesdóttir, Þór Saari, Tryggvi Þór Herbertsson og fleiri komu að þessari vinnu. Í öðru lagi eru það lögfræðilegir fyrirvarar. Grunnplaggið að þeim kom frá baráttumönnum í Indefense hópnum og þá sérstaklega Helga Áss Grétarssyni sem skilaði frábærri faglegri vinnu en síðan fékk hópur undir formennsku Eiríks Tómassonar það verk að samræma sjónarmið og áttu Helgi Áss og Benedikt  Bogason þar einnig sæti, ásamt starfsmönnum ráðuneyta. Ragnar Hall og fleiri lögfræðingar komu einnig að þessum málum.

Fjárlaganefnd bræddi saman textann

Á borði Fjárlaganefndar Alþingis  var síðan unnið að því að sætta sjónarmið og bræða endanlegan texta saman. Þetta tók langan tíma eins og vill henda þegar menn eru að tala sig inn á sameiginlega niðurstöðu.
Fyrirvarar Alþingis hafa stórbætt stöðu Íslands og er samningurinn á engan hátt sambærilegur við það sem áður var. Þessi árangur hefði aldrei náðst ef ekki væri vegna þess að breið samstaða myndaðist á Alþingi. Þingmenn hófu sig upp úr hjólförum hefðbundinna flokkastjórnmála og komust að niðurstöðu saman. Svona þarf að vinna þegar þjóðarhagur er í húfi.