Fara í efni

BORG OG RÍKI KOMIN ÚT Í MÝRI

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í Morgunblaðinu 10.11.14...
Í fréttum er okkur sagt að stjórnendur Reykjavíkurborgar vinni þessa dagana hörðum höndum að því að staðfesta samkomulag sem ég sem innanríkisráðherra gerði við þáverandi borgarstjóra um framtíð Reykjavíkurflugvallar fyrir hálfu öðru ári.

Þetta eru undarlegar fréttir.Í fyrsta lagi er búið að margbrjóta þetta undirritaða samkomulag. Ef staðið hefði verið við samkomulagið - bæði af hálfu borgar og ríkis -  væri risin ný flugstöð á Reykjavíkurflugvelli og aðstaða fyrir flugið verið stórbætt. Isavia hefði utanumhald um tillögusmíð og framkvæmdir en ekki tiltekið fyrirtæki í flugrekstri. Fjármunir fyrir landsölu rynnu til þessa verkefnis.

Í öðru lagi brutu bæði borgin og ríkið samkomulagið með því að skipa nefnd sem með ærnum tilkostnaði á að finna aðrar leiðir en samkomulagið kveður á um! Formaður nefndarinnar hefur lýst því yfir að verið sé skoða valkosti fyrir nýtt flugvallarstæði á borð við Hólmsheiði, Hvassahraun, Löngusker eða breytingar á Reykjavíkurflugvelli sem manni skilst að gætu falið í sér malbikun yfir Sundskálavörina og kannski lengra vestur með Ægisíðunni (hrollvekjandi tilhugsun!).

Ekki bara borgin heldur líka ríkið hafa svikið samkomulagið frá því í apríl 2013. Þetta samkomulag var ekki hugsað sem konfektkassi til að pikka uppúr mola eftir smekk borgarstjóra eða innanríkisráðherra. Það var allt eða ekkert.

Augljóst er að unnið er að því af hálfu bæði ríkis og borgar að fara með flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Þaðan er flugvöllurinn sem betur fer ekki farinn. En hitt er jafnljóst að bæði ríki og borg eru komin út í mýri með vinnubrögðum sem eru bæði ófagleg og óheiðarleg með afbrigðum. Staðfesting nú í ráðhúsi Reykjavíkurborgar á samkomulaginu frá 2013 ber þessu grátbroslegt vitni.