Fara í efni

BÓNDINN OG GRANNAR HANS: SVONA EIGA MENN AÐ VERA!

Fréttablaðið átti eina skemmtilegustu frétt síðustu daga, ef ekki þá skemmtilegustu. Hún fjallar um ungan bónda, Kristófer Orra Hlynsson, sem nýlega hóf búskap norður í Fljótum í Skagafirði á býli sem áður hafði verið í eyði. Í fréttinni segir frá dugnaði og bjartsýni hins unga manns, nýfundinni ástinni („hún hefur sem betur fer gaman af búskapnuum…”), en líka frá viðtökunum í sveitinni:

“Hlýr hugur nágranna náði þó ákveðnu hámarki síðastliðinn föstudag þegar nánast öll sveitin kom hinum unga bónda á óvart með veglegri gjöf. „Mig grunaði að eitthvað væri í gangi því einn var búinn að spyrja mig hvort ég yrði heima þetta kvöld. Skýringin var sú að einhverjir nágrannar vildu kíkja á mig,“ segir hann og bætir við að hann hefði ekki órað fyrir því sem átti eftir að gerast.
„Þeir komu hérna á rútu með kerru aftan í, flestir fjárbændur í sveitinni, og færðu mér fullan vagn af gimbrum að gjöf. Þetta var ótrúlega fallegt af þeim,“ segir Kristófer augljóslega fullur þakklætis. Hann segir að hópurinn hafi síðan farið með hinar nýju gimbrar og bætt þeim við hjörðina sem Kristófer átti fyrir. „Síðan fengum við okkur nokkra bauka, spjölluðum og ræddum hrútaskrána í þaula.“

Fréttin er hér:

https://www.frettabladid.is/frettir/flutti-tvitugur-eydibyli-og-gerdist-bondi/