Fara í efni

BOGI NILS Á EKKI AÐ RÁÐA

 

Forstjóri Icelandair vill “álagsstýra” ferðamannastöðum á Íslandi. Hann segir að ferðaþjónustan sé þjóðarbúinu verðmæt og að þess verði að gæta að hún verði sjálfbær. Ferðaþjónustan snúist ekki um fjöldann sem hingað komi heldur hverju ferðamennirnir skili. Í þessu verði að vera skýr stefna: “Við verðum að passa að upplifun fólks verði góð og það er fljótt að spyrjast út ef svo er ekki.”
Þetta hefur Morgunblaðið eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, annan júní síðastliðinn í frásögn af fundi sem hann hafði ávarpað.

Og forstjórinn hafði áréttað sjónarmið með dæmi: Það mætti hafa dýrara að skoða Gullfoss þegar ásókn er mest en ódýrara í desember þegar færri væru á ferðinni.

Semsagt: Það er ekkert að því að flugfélögin flytji til landsins óendanlegan fjölda ferðamanna. Engar skorður þar. En seljum aðgang að náttúruperlunum. Þar skuli buddan takmarka álagið. Annars trufli það “upplifun” fólks, það spyrjist fljótt út og fyrir bragðið fljúgi færri til Íslands.

Forstjóri Icelandair talar ekki í tómarúmi. Hann er í reynd að tala gegn komugjöldum til Íslands, nefskatti sem lagður yrði á flug til landsins en það er gjaldtaka sem kallað hefur verið eftir um árabil og nýtur, að ég held, almenns stuðnings. Líklegt má heita að það sé við forsvarsmenn flugfélaganna að sakast að þessi tegund gjaldheimtu hefur ekki gengið eftir.

Skattar og gjöld geta haft áhrif á neyslu fólks, spurningin er þá hvar slíkt eigi að koma niður.

Bogi Nils Bogason gleymir einu eða ef til vill gleymir hann því ekki. Ferðamenn við Gullfoss eru ekki aðeins aðkomumenn til landsins heldur einnig Íslendingar sem búa í þessu landi, sumir tekjuháir aðrir tekjulitlir. Með gjaldtöku yrði hinum tekjulitlu bægt frá svo það trufli ekki “upplifun” hinna tekjuhærri.

Reyndar held ég að posavélar trufli “upplifun” allra, óháð tekjum og þjóðerni. Öll eigum við að geta skoðað undur náttúrunnar án þess að greiða gjald fyrir.

Eðlilegt er hins vegar að við greiðum fyrir þá þjónustu sem veitt er, leiðsögumönnum, gisti- og veitingaþjónustu eða fyrir söluvöru hvers kyns.

Gullfoss á hins vegar ekki að vera söluvara. Það er mergurinn málsins.

Ríkisstjórnin hefur aldrei tekið á gjaldtökumálunum og hefur leyft einkaaðilum að festa gjaldtöku í sessi og sjálf gengist fyrir því að rukka okkur fyrir að koma í þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þess vegna er hætt við að orð Boga Nils vegi þungt í Stjórnarráðinu. Nema almenningur láti kröftuglega í sér heyra.

Ef fólk hins vegar sýnir andvaraleysi má búast við rukkurum við Gullfoss fyrr en síðar.