Fara í efni

BLOKKIN Í POTSDAM OG HÓTELIÐ VIÐ SKÓGAFOSS

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12.04.15.
Óheftur kapítalismi getur farið illa með náttúruna. Það geta alræðiskerfi, sem  ekki leyfa gagnrýni, líka gert. Þetta kennir sagan.

Ótöluleg eru dæmin um hrikaleg náttúruspjöll þar sem græðgi mannskepnunnar hefur verið hleypt til beitar á viðkvæmri móður jörð.

Örsnauðum þjóðum sem búa við örbirgð hefur verið vorkunn þegar þær leita leiða til að komast til bjargálna. Ég minnist ferðar til Eþíópíu á fréttamannsárum mínum að fjalla um hungursneyð þar í landi. Ég kom í stjórnarbyggingu þar sem voru listaverk á veggjum. Þau sýndu eimyrjuspúandi risareykháfa. Þeir vöktu óhug með mér en greinilega von í brjóstum landsmanna.

Eftir því sem velsæld þjóða verður meiri og vandinn við að lifa morgundaginn af verður ekki eins yfirþyrmandi, eykst meðvitund um nauðsyn þess að hugsa til langs tíma. Þá er farið að tala um sjálfbærni og mikilvægi þess að náttúran njóti vafans.

Ég heimsótti nýlega Potsdam, rétt utan við Berlín. Þar sat á sínum tíma Prússakóngur og keisari og voru þar miklar hallir og kirkjur. Þar á meðal dómkirkja ein mikil. Alræðisvaldinu í Austur-Þýskalandi var sem kunnugt er lítið gefið um kirkjur og hallir enda táknræn minnismerki um kúgun og misskiptingu.
Fyrir vikið voru þessar byggingar margar eyðilagðar eða sýnd óvirðing í verki. Alveg upp í dómkirkjunni hafði þannig verið reist íbúðablokk ein, herfilega ljót, sem kom sér reyndar vel því þá var öruggt að allir gerðu sér grein fyrir hversu ómerkileg  þessi kirkja, þetta gamla valdatákn, væri.

Vissulega á ekki að gleyma ljótum sögulegum staðreyndum en þar með er ekki sagt að maður vilji láta eyðileggja sögulegar og á sinn hátt fallegar byggingar. Í Potsdam hafði hins vegar enginn verið til að halda slíkum sjónarmiðum á lofti og reisa mótmæli. Leyniþjónustan hafði séð fyrir því.

Allt þetta hefur farið í gegnum huga mér eftir að ég las grein eftir  Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fyrrum stjórnmálamann, um Skógafoss og fyrirhugaða hótelbyggingu þar. Hjörleifur hvetur okkur til að hugsa langt fram í tímann og bendir á að með útsjónarsemi megi reisa fyrirhugað hótel í grennd við Skógafoss þannig að hótelgestir megi sem best njóta fossins án þess þó að eyðileggja áhrifin sem frá honum stafa.

Ekki er ég þaulkunnugur þessu máli. En hitt veit ég, hve varasamt það er að hlusta ekki á þá sem taka upp hanskann fyrir móður jörð, okkur öllum til farsældar þegar til langs tíma er litið. Þess vegna segi ég, enga Potsdam blokk á Skógasandi. Hlustum á Hjörleif.