Fara í efni

BLOGGHEIMASKRIF OG FYRIRLESTUR HÖLLU

Halla Gunnarsdottir
Halla Gunnarsdottir

Ekki veit ég hve margt þeir eiga sameiginlegt Þorvaldur Gylfason, Jónas Kristjánsson og Egill Helgason. Eitt er það þó sem tvímælalaust sameinar þá í skrifum þeirra þessa dagana og það er að vilja gera sem minnst úr þeim verkum sem voru unnin í innanríkisráðuneytinu á síðasta kjörtímabili og miðuðu að því að efla mannréttindi.
Þorvaldur Gylfason  vitnar í hinn ötula baráttumann fyrir siðlegu og mannvinsamlegu samfélagi, Jónas Kristjánsson fyrrum rittjóra DV, um ráðherrastörf mín. Hann segir Jónas staðhæfa að ég hafi í ráðherratíð minni ekkert gert til að upplýsa um hleranir: http://www.dv.is/blogg/thorvaldur-gylfason/2014/11/19/hleradir-simar/. Þessu hef ég áður svarað en látið þess ógetið að Þoraldur kom til mín skömmu eftir að ég tók við embætti dómsmálaráðherra, uppfullur af staðhæfingum um hleranir fyrr á tímum og vildi að ég talaði við tiltekna öldunga sem myndu upplýsa mig nánar. Ég heimsótti þá suma en ekki voru frásagnir þeirra í samræmi við staðhæfingar Þorvaldar. Útundan mér heyrði ég síðan reglulega bölsótartal Þorvaldar í minn garð um þetta efni og fékk ég aldrei almennilega skilið hvað bjó að baki, ekki síst í því ljósi að ég lagði fram lagafrumvörp til að skerpa og takmarka heimildir til persónunjósna og hlerana. Þorvaldur var ekki einn um þessa afstöðu en flestir gagnrýnendur þögnuðu þegar þeir settu sig inn í málin og reyndu að skilja hvers eðlis þær breytingar voru sem ég beitti mér fyrir. Það er svo önnur saga að upplýst hefur verið um hleranir og persónunjósnir frá fyrri tíð og hef ég í störfum mínum gert allt sem hefur verið í mínu valdi til að opna á upplýsingar og gagnsæi svo koma megi í veg fyrir valdníðslu af þessu tagi. Þegar á reyndi lagðist þáverandi stjórnarandstaða og reyndar ýmsir úr stjórnarliðinu gegn umbótum og vildu miklu meiri heimildir til handa lögreglu til persónunjósna.
Sjá til dæmis: https://www.ogmundur.is/is/greinar/frumvarp-um-rannsoknarheimildir-logreglu-er-tilbuid
Egill Helgason er með svipaða nálgun og Þorvaldur að því leyti að hann fullyrðir án þess að gefa sér tíma til að kanna sannleiksgildi staðhæfinga sinna ( http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2014/11/21/ekki-svart-og-ekki-hvitt/ ). Egill virðist ekki þekkja - eða þá gefa lítið fyrir - það starf sem unnið var í innanríkisráðuneytinu í minni tíð og sneri bæði að úrbótum í hælismálum og að því að setja ný heildarlög um útlendinga - og þar með endurskoða núverandi dvalarleyfaflokka sem ákvarða hverjir mega setjast að á Íslandi og hverjir ekki. Egill staðhæfir að eftirmaður minn í embætti hafi viljað gera betur í þessu efni en ég. Um það vitni skipan starfshóps! Við því er það að segja að umræddur starfshópur er einmitt með til meðferðar lagafrumvarp sem var unnið í minni tíð í innanríkisráðuneytinu og tillögur sem starfshópur sem ég skipaði skilaði af sér. Þar var lagður grunnur að því starfi sem eftirmaður minn hélt áfram með og er það vel. Starfshópurinn er góður og heldur vonandi áfram starfi sínu þótt mannabreytingar séu í pípunum í innanríkisráðuneytinu.
Annars legg ég til að Egill og aðrir áhugasamir sæki fyrirlestur Höllu Gunnarsdóttur, ráðgjafa míns í (dóms)innanríkisráðuneytinu, sem stýrði vinnu varðandi þennan málaflokk fyrir mína hönd. Halla leiddi starf nefndar sem stóð fyrir viðamiklu samráði um málefni útlendinga og lagði til gagngerar breytingar á regluverkinu, einmitt þær breytingar sem nú eru til umfjöllunar. Ég tel að fyrirlestur Höllu - og grein hennar um sömu mál í nýjasta tölublaði Skírnis - sé mikilvægt innlegg í þá umræðu sem þarf að fara fram um þennan málaflokk. Og það væri gott ef menn eins og Egill legðu á sig að setja sig aðeins inn í málin áður en þeir stinga niður penna. Það þarf ekki nema nokkrar mínútur til þess.

Sjá um fyrirlestur Höllu: https://rikk.hi.is/ad-eg-vaeri-frekar-breskt-pund-en-afrisk-stulka-ofrelsid-til-ad-setjast-ad-a-islandi/.