Fara í efni

BLIKKANDI VARNAÐARLJÓS Í FJÁRMÁLAKERFI

Fréttir sem nú berast innan úr bankakerfinu hljóta að vekja ríkisstjórnina – og okkur öll -  til umhugsunar. Í morgun var sagt frá því í fréttum að yfirdráttarlán heimilanna hafi aukist um 1.500 milljónir króna í febrúar og væri þetta annar mánuðurinn í röð sem yfirdráttarlán heimilanna hækki með ógnvænlegum hraða. Fram kom að fyrstu tvo mánuði ársins hækkuðu yfirdráttarlánin um 4,1 milljarða og standa þau núna í röskum 58 milljörðum króna. Fjölmiðlar byggja þessar upplýsingar á  Vegvísi Landsbankans. Alls námu skuldir heimilanna hjá bönkum og sparisjóðum í lok febrúar 340 milljörðum króna, upphæð sem í sjálfu sér segir lítið án frekari skýringa. Hins vegar sést að yfirdráttarlánin eru hátt hlutfall þessara skuldbindinga.

Það sem einkum er umhugsunarvert er þetta: Á tímabilinu ágúst til desember á síðastliðnu ári drógust yfirdráttarlánin saman. Á því tímabili sáu margir sér hag í því að endurfjármagna yfirdráttarlán með hagstæðari íbúðarlánum til lengri tíma. Áður en þessi endurfjármögnun hófst námu yfirdráttarlánin 60,5 milljörðum króna. Nú stefnir í að þessu marki sé náð að nýju. Það þýðir að  fólk sem nú er búið að veðsetja sig í botn (með veði í húsnæði á yfirsprengdu verði) til þess að ná utan um sín fjármál er aftur komið í þrot. Við slíkar aðstæður má ekkert út af bera. Í því sambandi er rétt að horfa sérstaklega til verðs á fasteignum. Ef það hrynur eða rýrnar að verðgildi er voðinn vís því þar með rís veðið ekki lengur undir þeim skuldbindingum sem eigendur eignanna hafa undirgengist. Síðan er hitt að jafnvel þótt fólk ætli ekki að flytja úr húsnæði sínu og þannig reyni ekki á fasteignaverðið, þá er hitt að ekki mega tekjur fólks dragast saman, að ekki sé minnst á atvinnuleysi, svo allt fari úr böndum. Ef fjölgar í þeim hópi sem ekki getur staðið við skuldbindingar sínar er alltaf sú hætta að keðjuverkun verði, að eitt leiði af öðru…

Það er mikilvægt að þjóðfélagið horfi allt og í sameiningu á þessi máli af raunsæi og ábyrgð. Verkalýðshreyfingin, með BSRB í broddi fylkingar gekkst fyrir umræðu um skuldastöðu þjóðarbúsins, fyrirtækja og heimila, á síðastliðnu sumri og var þá hvatt til varkárni í þessum efnum. Ástæða er til að ítreka þau varnaðarorð.

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem þessi mál eru reifuð og því meðal annars beint til Fjármálaeftirlitsins "að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, svo sem hvað varðar áhrif af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs. Markmiðið verði að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapi ekki hættu fyrir efnahagslífið og farið verði yfir eiginfjárlágmörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi".

Ég hvet lesendur til þess að kynna sér efni þessarar þingsályktunartillögu en þar er að finna, auk tillagna VG um úrræði, margar nytsamar upplýsingar um stöðu efnahagsmála. (sjá nánar HÉR)

Vegvísir Landsbanakans sem vitanð var til er HÉR

Frétt RÚV sem vísað er til er HÉR