Fara í efni

Björn og leyniþjónustan

Lengi framan af hentu menn gaman að áhuga Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, á hermennsku. Það lá við að mönnum þætti þessi áhugi Björns barnalegur, svona í ætt við áhuga á tindátum og hermannaleik. Í fjölmiðlum birtust skopmyndir af Birni í hermannagalla með kaskeiti og medalíur. Nú eru menn hins vegar hættir að hlæja að Birni. Nú vita menn að þetta er enginn leikur og engin látalæti heldur dauðans alvara: Hugmyndum Björns Bjarnasonar er hrint í framkvæmd. Það sáum við í sumar á flugvellinum í Kabúl: Vopnaða íslenska hersveit. Að vísu segir ríkisstjórnin að þetta sé alls ekki hersveit, þótt hún sé vopnuð hríðskotabyssum og beri öll ytri einkenni herliðs og hafi réttarstöðu NATÓ hermanna! Ríkisstjórnin telur greinilega að við þurfum aðeins lengri tíma til að venja okkur við að Ísland er orðið herveldi!

En ekki er nóg með að draumur Björns Bjarnasonar um íslenskan her sé orðinn að veruleika.

Nú hefur nefnilega komið á daginn að Björn Bjarnason á sér fleiri drauma. Frá því var skýrt í fréttum í dag að Björn dreymi nú um að koma á fót leyniþjónustu og öryggislögreglu til að elta uppi hryðjuverkamenn og andófsmenn á Íslandi.

Mín ráðlegging er að nú spari menn háðsyrðin og grínið. Manninum er alvara. Og við skulum ekki gleyma því að við ríkisstjórnarborðið í Stjórnarráðinu er dómgreindin ekki upp á marga fiska, meira að segja líklegt að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hrífist af draumförum Björns eins og fyrri daginn.

En hvað með þjóðina? Viljum við öryggislögreglu og leyniþjónustumenn snuðrandi um hagi okkar. Því við skulum ekki gleyma því að í ótryggum heimi er engum treystandi. Allir eru mögulegir hryðjuverkamenn nema að þeir geti sannað sakleysi sitt! Í ótryggum heimi þeirra Bush, Blairs og Björns er sönnunarbyrðinni snúið við. Nú þarftu að sanna að þú hafir ekki óhreint mjöl í pokahorninu.

Getur verið að við séum að byrja að feta okkur út úr réttarríkinu og inn í lögregluríki? Við skulum leiða hugann að því í alvöru. Við skulum líka hugleiða í alvöru hvort það geti verið að öryggislögregla og leyniþjónusta skapi fleiri alvarlegri vandamál en hún leysir? Björn, hvernig væri að þú hugleiddir þetta líka með okkur hinum? Hvernig væri að láta sig dreyma um eitthvað annað en her og öryggislögreglu, eins til dæmis fífilbrekku og gróna grund? Eru ekki slíkir draumar líklegri til að búa til betri heim?