Fara í efni

BJÖRGUNARSAMNINGUR BSRB


Rétt fyrir miðnættið landaði BSRB kjarasamningi fyrir þau aðildarfélög bandalagsins sem áttu lausa samninga við ríkið 1. maí síðastliðinn. Með því að ganga frá samningnum áður en maí mánuður er úti tryggja BSRB og viðkomandi aðildarfélög bandalagsins félagsmönnum launahækkun frá 1. maí. 
Sú hætta var fyrir hendi - það er að segja ef menn hefðu ekki tekið að af skarið og samið nú - að kjarasamningar hefðu farið í hægagang og jafnvel dregist fram á haustið.  Fimm mánaða töf hefði þýtt að hver og einn hefði orðið af eitt hundrað þúsund krónum auk þess sem launahækkanir á grunntaxta skila sér í hækkun afleiddra stærða svo sem yfirvinnu og álags í vaktavinnu. Því hefði verið um að ræða mun hærri fjárhæð sem fólk hefði orðið af.  
BSRB ákvað að fara inn í svipaðan farveg og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði. Samtökin ákváðu að leita ekki uppi hæsta viðmið sem finna mátti í nýlegum samningum heldur fara inn í hinn almenna farveg  og vildu samtökin þar með leggja áherslu á mikilvægi þess að rjúfa alla spírala hækkana og taka höndum saman með þeim sem vilja takast á við verðbólguvágestinn sem nú étur upp lífskjörin og keyrir upp vaxtaokrið. Kjarasamningurinn er björgunarsamningur í þeim skilningi að hann gagnast best hinum lægst launuðu og millitekjuhópunum og er einnig til þess fallinn að stuðla að stöðugleika sem þjóðfélagið þarf nú sárlega á að halda.
Samninginn er að finna á vefsíðu BSRB: http://www.bsrb.is/Default.asp?ID=0&type=one&news_id=1362&menuid=