Fara í efni

BJARTSÝNN BARÁTTUMAÐUR

Snorri Sigurjónsson
Snorri Sigurjónsson
Stundum er ég svolítið á eftir í blaðalestrinum og rek um síðir augun í skrif sem ég vildi hafa séð um leið og þau birtust. Snorri Sigurjónsson, lögreglufulltrúi, skrifar grein í Morgunblaðið 7. maí síðastliðinn undir fyrirsögninni Vonbrigði. Hana las ég í morgunsárið og vildi hafa séð fyrr.
Grein Snorra er stutt en þeim mun áhrifaríkari. Hann lýsir vonbrigðum sínum yfir úrslitum kosninganna. En þrátt fyrir vonbrigði Snorra geislar greinin af baráttukrafti enda megum við ekki gleyma, segir hann, að „svo skemmtilega vill til að gott fólk er að finna í öllum flokkum og röðum kjósenda." Snorri hefur áhyggjur af stóriðjustefnu nýrra stjórnarflokka en vert er að hafa hugfast segir hann, að „skilningur á verðmætum náttúrunnar er orðinn slíkur" að óafturkræf náttúruspjöll verði aldrei þoluð.
Þarna er ég Snorra sammála. Hann gefur þeirri hugsun nefnilega undir fótinn að pólitík sé spurning um ríkjandi samfélagshugsun. Það séu takmörk fyrir því hvað tíðarandinn leyfi! Þess vegna sé atkvæðum aldrei kastað á glæ, ekki heldur atkvæðum 21.522 kjósenda sem engan fulltrúa fengu kjörinn í síðustu kosningum. Öllu máli skipti að tendra baráttuandann og halda honum logandi: "Fólkið sem meinti eitthvað með þessu brölti, bæði kjósendur og frambjóðendur, er ekki dautt, heldur og mun væntanlega berjast áfram."
Takk Snorri, greinin þín fór vel niður með sterku kaffinu. Ég er allur upptendraður og til í slaginn!


Grein Snorra: Morgunblaðið 07.05.13.

Vonbrigði
Nú liggur fyrir að 51% þeirra sem kusu til Alþings hefur verðlaunað þá tvo flokka sem hvað mest þvældust fyrir lýðræðisumbótum á nýliðnu þingi í kjölfar hrunsins. Þessir sömu flokkar voru trúir sínum í hagsmunagæslunni og stóðu leynt og ljóst gegn nýjum auðlindaákvæðum í stjórnarskrárdrögum.

Á móti var stjórnarflokkunum refsað harðlega fyrir að hafa ekki haft ráðrúm til að fara út í öll horn til að þrífa upp ósómann. Þetta var harðari refsing en þeir áttu skilið því margt var mjög vel gert við erfiðar aðstæður. Þanþol kjósenda sem vildu nýja von var hins vegar á þrotum.

Við þessi umskipti hræðist ég mest að sá árangur og sú viðhorfsbreyting sem hefur orðið í umhverfismálum verði að engu höfð, nú verði gengið til verka líkt og fyrir hrun og að hernaður gegn landinu nái nýjum hæðum. Stóriðjublindan er ekki læknuð.

Þegar haft er í huga að kosningarnar snérust mikið um skuldavanda og afkomu heimila er sárt til þess að hugsa að því fólki sem hefur staðið í eldlínunni fyrir Hagsmunasamtök heimilana og stofnaði sérstakan flokk til að koma þeim málum til betri vegar hafi ekki tekist að koma fulltrúum á þing. Útfærslur þeirra í þessum málaflokki og stefnuskrá að öðru leyti var vandlega unnið. Ég átta mig hins vegar ekki alveg á því hvað vakti fyrir öðrum nýjum framboðum sem komu í kjölfarið með svipaðar áherslur. Hvað um það, víða er gott fólk og atkvæði greidd þeim sem ekki náðu þingsætum eru ekki dauð. Þetta voru skoðanir 21.522 kjósenda. Fólkið sem meinti eitthvað með þessu brölti, bæði kjósendur og frambjóðendur, er ekki dautt heldur og mun væntanlega berjast áfram.

Samt von

Það vill nú svo skemmtilega til að gott fólk er að finna í öllum flokkum og í röðum kjósenda. Í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum er meira að segja til fólk sem aðhyllist náttúruvernd og skynsamlega nýtingu auðlinda með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þá liggur fyrir, samkvæmt nýlegum könnunum, að mikill meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn frekari uppbyggingu stóriðju. Hættan liggur hins vegar í því að einstök byggðarlög sjái sér hag í slíkum framkvæmdum og að atkvæðaveiðar hefjist. Ef þessir flokkar voga sér að standa fyrir framkæmdum sem hafa í för með sér stórfelld óafturkræf náttúruspjöll verður allt brjálað. Ég tel að slík áform verði með einhverjum hætti brotin á bak aftur. Skilningur á verðmætum náttúrunnar er orðinn slíkur. 
Snorri Sigurjónsson