Fara í efni

BJARNI MÁ EKKI RÁÐSTAFA LANDSBANKANUM - ÞJÓÐIN KJÓSI UM FRAMTÍÐ HANS

Bjarni og Landsbankinn 2016
Bjarni og Landsbankinn 2016

Bjarni Benediktsson,
fjármálaráherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, mætti í Kastljós Sjónvarps í kvöld.

1) Rætt var um auðgunarmálið sem kennt er við Borgun og tengist Landsbankanum sem er í eigu ríkisins eins og kunnugt er. Bjarni sagði að málið hefði fengið vonda umræðu og væri því slæmt mál - klúður. Einhverjir kynnu að vilja snúa röksemdinni við og segja að málið væri vítavert og hneyksli enda hafi umræðan verið í samræmi við það. Með öðrum orðum, málið væri slæmt en ekki umræðan.

2) Rætt var um framtíð Landsbankans og þá hugmynd að halda honum í samfélagseign og þá sem „samfélagsbanka" sem stefndi að góðum og hagstæðum lánskjörum fyrir viðskiptavini sína í stað þess að sækjast eftir hámarksgróða fyrir eigendur sína. Formaður Sjálfstæðisflokkisns kvaðst ekki skilja hvað við væri átt. Ég held hins vegar að við hin skiljum þetta flest fullkomlega.

3) Rætt var um sparisjóði og Íbúðalánasjóð. Sparisjóðirnir væru orðnir fáir og segði það sína sögu og ennfremur mátti skilja á formanni Sjálfstæðisflokksins að „samfélagsbankinn" Íbúðalánasjóður væri víti til varnaðar. Inn í hann hefði þurft að dæla fimmtíu milljörðum frá hruni. En ég spyr á móti, hvað hafa einkabankarnir kostað ríkissjóð og samfélagið, beint og óbeint? Það var ekki rætt. Svo er það hitt að á meðan bankarnir voru ríkisbankar voru þeir að fullu sjálfbærir.  Það var ekki fyrr en með einkavæðingunni um aldamótin að ríkið varð fyrir skakkakkaföllum af þeirra völdum. Ekki var heldur hitt rætt að áföll Íbúðalánasjóðs voru beintengd hruni einkabankanna. Íbúðalánasjóði blæddi vegna óábyrgrar framgöngu einkabankanna sem endaði með hruni þeirra! Hvað sparisjóðina áhrærir var löngu búið að eyðileggja, alla  vega stórlaska, hinn samfélagslega þráð þeirra vel fyrir hrun.

4) Fram kom að fjármálaráðherrann vill ekki aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka en sú umræða er á ís á Alþingi.

5) Nær allir markaðsfræðingar - sem ekki eiga persónulegra hagsmuna að gæta - telja að sala banka nú væri óráðleg fyrir utan það glapræði að afsala okkur eign sem gefur milljarða í ríkissjóð.

Þjóðin verður að leita ráða til að sporna gegn því að Landsbankinn verði frá henni tekinn. Eðlilegt væri að kosið yrði um framtíð bankans.