Fara í efni

BÍTLARNIR Í IÐNÓ?

Bítlarnir
Bítlarnir


Núverandi rekstraraðila Iðnó hefur verið sagt að taka pokann sinn því nú bjóðist nýir og spennandi kostir.

Forsvarsfólk Reykjavíkurborgar hefur hins vegar ekki látið svo lítið að svara okkur sem höfum verið hæstánægð með núverandi rekstraraðila til margra ára og viljum fá að vita hvers vegna hún skal nú hrakin á brott.

Að sögn mun tilboð nýrra rekstraraðila hafa þótt svo frábærlega gott að ekki hafi verið hægt að hafna því.

Ég náði mér í þetta tilboð, alla vega þann hluta þess sem liggur á lausu. Flottar myndir og fyrirheit um gríðarlega fagmennsku, innlenda og erlenda fagaðila við val á því fólki sem hleypt verður yfir þröskuld á gamla Iðnó, sem hingað til hefur verið opið okkur öllum, efnuðum og snauðum, með þóknanlegar og ekki þóknanlegar skoðanir og án þess að þurfa að skríða í gegnum nálarauga fagmennskunnar sem reyndar á eftir að útskýra í hverju er fólgin.

Í tilboðs/auglýsingabæklingnum segir meðal annars að í Iðnó verði uppistand, hátíðir og leikir. Til áréttingar eru birtar myndir af því sem ætla má að verði gleðigjafarnir. Og þeir eru ekki af verri endanum, sjálfir Bítlarnir, John, Paul, George og Ringó!

Sá sem ekki veit betur myndi án efa álykta að Bítlarnir komi til með að troða upp í hinu nýja Iðnó. En helmingur Bítlanna er kominn yfir móðuna miklu og hinir varla á leiðinni á svið í Iðnó.

En fyrir hverju féll Reykjavíkurborg, Bítlunum? Mætti vinsamlegast biðja um svör við því hvers vegna gamalgróinn rekstraraðili, sem hefur getið sér afar gott orð, er látinn víkja.