Fara í efni

Birtist á Morgunpósti VG: 1. MAÍ ER OKKAR DAGUR

Fyrsti maí er dagur samstöðu. Á þessum degi kemur saman til funda launafólk úr mismunandi samtökum og ólíkum pólitískum fylkingum. Alls staðar er þó verið að hamra sama málstaðinn; þann málstað sem verkalýðshreyfingin, ekki aðeins hér á landi, heldur um heim allan, heldur á loft, um jöfnuð og réttlæti. Ræður sem fluttar eru í Tokíó, Seattle, Genóa, á Húsavík, í Hafnarfirði, Kaupmannahöfn og á Ingólfstorgi í Reykjavík, hafa allar sama tóninn. Hvarvetna er fólk að stappa stálinu hvert í annað og minna á að samstaðan er afl sem ekkert fær sigrað, svo tekin sé upp góð hvatning í auglýsingu Sjúkraliðafélags Íslands fyrir 1. maí að þessu sinni.

Það merkilega við þennan dag er samstaðan. Í dag komum við saman í útvarpsþætti á Ríkisútvarpinu, Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Ingibjörg Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ og ég sem formaður BSRB. Öll höfum við starfað ágætlega saman sem einstaklingar. En þótt þau samtök sem við erum í forsvari fyrir hafi haft gott samstarf um margt, er því ekki að leyna að ekki höfum við verið sammála um alla hluti. Einu get ég þó lofað fólki, að þegar við leiðum okkar hesta saman í umræðu á þessum degi, munum við ekki einblína á það sem sundrar okkar samtökum heldur hitt sem sameinar okkur. Þetta er galdurinn við 1. maí. Því eins og áður segir þá er þessi dagur, 1. maí, dagur samstöðunnar.

Og það er nóg að sameinast um þessa dagana. Misskipting fer vaxandi í þjóðfélaginu, reynt er leynt og ljóst að grafa undan félagslegum kjarasamningum og vegið er samfélagsþjónustunni. Á undanförnum árum hefur þjóðin orðið vitni að þjófnaði fyrir opnum tjöldum. Einkavæðingin eins og hún hefur verið framkvæmd er ekki neitt annað en þjófnaður á eignum þjóðarinnar. Verðmætum eigum okkar hefur verið stolið og framvísað í hendur vildarvina ríkisstjórnar landsins. Í baráttu gegn þessu þurfa verkalýðshreyfing og félagsleg pólitísk öfl í landinu að sameinast.

Ákvörðun stjórnar BSRB í vikunni að taka upp baráttu fyrir því að vatn verði skilgreint sem mannréttindi og að fest skuli í stjórnarskrá landsins að neysluvatn skuli ætíð vera í samfélagslegri eign ber að mínu viti vott um framsýni. Þarna er að finna vegvísi inn í framtíðarbaráttu verkalýðshreyfingarinnar. Vitanlega er það verkefni verkalýðssamtaka að berjast fyrir því sem fer inn í launaumslagið, kaupgjaldinu. En gleymum því aldrei að ekki skiptir minna máli hve mikið fer út úr þessu umslagi, hver útgjöldin eru. Ef tekst að einkavæða almannaþjónustuna í ríkari mæli en þegar hefur verið gert, er það ávísun á aukin útgjöld og í kjölfarið kjararýrnum launafólks.

Enn um vatnið. Mér segir svo hugur um að á 1. maí degi að ári verði vatn á mörgum kröfuspjöldum, að kröfu um samfélagslega eign á vatni megi þá sjá á öðru hvoru spjaldi. Braskarana langar nefnilega í vatn. Einkavætt vatn. Ég held þeir gætu drukkið alla Gvendarbrunnana ef því væri að skipta, það er að segja, ef þeir teldu að það gæfi sæmilega í aðra hönd. Auðvitað ætlum við ekki að láta þetta gerast. Og það mun ekki gerast, ef verkalýðshreyfingin og félgsleg pólitísk öfl standa saman, staðráðin í að verja velferðarsamfélagið, þar á meðal vatnið.

Fyrsti maí er dagur heitstrengingana. Ég fyrir mitt leyti ætla af fremsta megni að standa vaktina fyrir bestu hugsjónir verkalýðshreyfingarinnar. Slíka heitstrengingu þarf vitaskuld að gera alla daga en einhvern veginn hefur hún meiri vigt 1. maí. Hvers vegna? Vegna þess að fyrsti maí er dagur samstöðunnar. Þess vegna er hann merkilegur dagur. Þess vegna er þetta okkar dagur.