Fara í efni

BEÐIÐ UM YFIRVEGAÐAN LEIÐARA

FB logo
FB logo

Birtist í Fréttablaðinu 31.01.08.
Þorsteinn Pálson, skrifar ritstjórnarpistil 15. Janúar sl. undir yfirskrifitinni „Þörf á yfirvegun". Efni pistilsins er kvótakerfið og úrskurður Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna . Því miður rísa þessi skrif ekki undir hvatningu höfundar síns. Í upphafi segir ÞP: „Meirihluti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hefur lýst þeirri skoðun að takmörkuð eignarréttindi  á veiðiheimildum með frjálsu framsali séu andstæð mannréttindum. Sú niðurstaða stangast á við stjórnarskrá Íslands."
Þorsteinn gagnrýnir síðan álit Mannréttindanefndarinnar og segir að hafi menn óttast valdaframsal til Evrópusambandsins við inngöngu í þann félagsskap þá sé það hjóm eitt miðað við það að undirgangast kröfur Mannréttindanefndar SÞ hvað sjávarauðlindina áhrærir.
Hvað er hæft í þessu? Ekki fæ ég komið auga á neitt. Í álitsgerð Mannréttindanefndarinnar er vísað í upphafsgrein íslenskra laga um stjórn fiskveiða þar sem kveðið er á um sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni, hvernig ætlunin hafi verið ráðstafa henni tímabundið með lögum sem sett voru árið 1990. Þau „kunni í upphafi að hafa verið sanngjörn og hlutlæg leikregla sem bráðabirgðalausn" en öðru máli gegni þegar lögunum hafi verið beitt til að umbreyta almennri sameign í einkaeign: „Aðildarríkið hefur ekki sýnt fram á að þessi sérstaka skipan og útfærsluform kvótakerfisins samræmist kröfunni um sanngirni." Nefndin ályktar síðan að forréttindi „í mynd varanlegs eignarréttar, sem veitt voru upphaflegum handhöfum kvótans...(séu) ekki byggð á sanngjörnum forsendum."
Með öðrum orðum deilan snýst um varanlegan eignarrétt á sjávarauðlindinni og heimildum til að hún gangi kaupum og sölum á grundvelli einkaeignarréttar. Þorsteinn Pálsson segir að Mannréttindanefndin byggi "röksemdafærslu sína á því að fiskimiðin séu samkvæmt íslenskum lögum sameign þjóðarinnar. Öðru máli kynni því að gegna ef svo væri ekki. Ráða má af þessu að leysa megi málið með því einu að fella svokallað sameignarákvæði út." Fróðlegt væri að fá nú nýjan og yfirvegaðri ritstjórnarpistil eftir sama höfund þar sem hann skýrði það fyrir okkur hvers vegna álitsgerð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna standist ekki stjórnarskrá Íslands því enn hefur stuðningsmönnum núverandi kvótakerfis ekki tekist að þurrka út fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða þar sem segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar."