Fara í efni

BARNALÖGIN OG MILLJÓNIRNAR 60

SMUGAN - -  LÍTIL
SMUGAN - - LÍTIL

Birtist á Smugunni 30.12.12.
Á fundi sínum á föstudag samþykkti ríkisstjórnin viðbótarfjárveitingu vegna gildistöku barnalaga, en þau taka gildi nú 1. janúar.  Ríkisstjórnin samþykkti allt að 30 milljóna króna viðbótarfjárveitingu á næsta ári og verður heildarfjárveiting til að hrinda í framkvæmd breytingum á barnalögum því 60 milljónir króna.

Jafnframt var samþykkt að verkefninu skuli tryggð 60 milljóna króna árleg fjárveiting frá og með fjárlögum ársins 2014 sem er í samræmi við mat Innanríkisráðuneytisins og Fjármála- og efnahagsráðuneytisins á kostnaðarauka vegna lagabreytingarinnar.
Með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar var því slysi afstýrt að lögin tækju gildi án nægilegs fjárframlags, en það hafði stjórnarandstaðan á Alþingi lagt upp með.

Björt framtíð kynnir sig

Í tengslum við þetta mál hefur þjóðin fengið að kynnast hinu nýja stjórnmálaafli Bjartri framtíð en helstu forsprakkar hinnar nýju hreyfingar á þingi Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall höfðu sig talsvert í frammi við afgreiðslu málsins og hefa sent mér og fleirum pillurnar. Sjálfur hef ég haft á orði að ekki þyki mér vinnubrögð þeirra lofa mjög góðu og að ég hafi um það efasemdir að hinn nýi flokkur rísi undir nafni. Þannig létu þeir félagar öll skynsamleg varnarorð sem vind um eyru þjóta og stóðu að því, ásamt stjórnarandstöðunni á þingi, að koma í veg fyrir að gildistöku barnalaganna yrði frestað. Gilti þar einu þótt ljóst væri að frekari undirbúnings væri þörf og að fjárþörf væri ekki mætt að fullu með fjárlögum.
Róbert Marshall mætti í fréttir Ríkisútvarpsins á Þorláksmessu til að hneykslast á mati Innanríkisráðuneytisins á fjárþörf vegna framkvæmdar barnalaga. Hann botnaði hvorki upp né niður í því að kostnaðarmatið sem við framlagningu frumvarps til barnalaga frá síðasta þingi hljóðaði upp á lægri fjárhæð en mat það sem nú liggur fyrir. Hvers vegna skyldi svo vera?

Meira en orðin tóm

Fyrir það fyrsta var ávallt skýrt í upphaflegu kostnaðarmati að erfitt væri að leggja nákvæmt mat á kostnaðaráhrif frumvarpsins þar sem vandasamt reyndist að spá fyrir um málafjölda og dreifingu mála yfir landið. En eftir því sem málið fékk ítarlegri skoðun í undirbúningsferlinu þótti sýnt að ef vel ætti að vera og lögin annað og meira en orðin tóm, þyrfti fimm til sex stöðugildi - eða samsvarandi aðkeypta þjónustu - til að sinna verkefnum sem tengjast framkvæmd laganna. Þá þarf einnig að hafa í huga að Alþingi gerði á frumvarpinu breytingar frá því það fyrst kom fram, sem hafa í för með sér aukinn kostnað, og var Róbert Marshall meðal þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með þeim breytingum. Þar vegur þyngst sú ákvörðun að heimila dómurum að dæma hjá hvoru foreldri barn skuli hafa lögheimili. Þetta leiðir af sér að hin skyldubundna sáttameðferð, hverrar ótvíræðir kostir ættu öllum að vera ljósir, þarf einnig að ná til deilna um lögheimili.
Af öllum þessum ástæðum er kostnaðurinn áætlaður um 60 milljónir króna á ársvísu, en ekki 35-40 milljónir eins og upphaflega gert var ráð fyrir.

Forsendur kunnar við afgreiðslu fjárlaga

Þetta mat lá til grundvallar tillögu sem sett var fram við aðra umræðu fjárlaga en þar var gert ráð fyrir að gildistöku barnalaganna yrði frestað um sex mánuði.
Við afgreiðslu fjárlaga greiddi Róbert Marshall atkvæði með því að veita 30 milljónum króna til þessa málaflokks á árinu 2013 að því gefnu að lögin tækju gildi 1. júlí en ekki 1. janúar. Í fjárlagatillögunni kom skýrt fram að kostnaðurinn væri metinn 60 milljónir króna á ársgrundvelli. Róbert  er því kominn í hrópandi mótsögn við sjálfan sig þegar hann þykist ekkert kannast við kostnaðarmat upp á 60 milljónir króna.

Ágreiningur var til staðar

Hitt er síðan annað og það er að Róbert nýtir sama tækifæri til að kynda undir þeirri undarlegu kenningu að ég hafi viljað fresta gildistöku barnalaganna þar sem ég sé mótfallinn ákveðnum þáttum þeirra. Rétt er að ég var ósáttur við breytingar Alþingis á tveimur atriðum á því frumvarpi sem ég upphaflega lagði fram. Fyrir það fyrsta taldi ég að ekki ætti að vera heimild fyrir hendi til að beita lögregluvaldi til að sækja barn inn á heimili sitt í þeim tilgangi að koma á umgengni. Slíkt gæti aldrei talist barni fyrir bestu, nema þá að því væri hætta búin inni á heimilinu en um það færi þá samkvæmt barnaverndarlögum. Jafnframt taldi ég að reynsla ætti að fást á þá leið sáttameðferðar sem lögð er til í frumvarpinu áður en tekin væri endanleg afstaða til þess hvort heimila ætti dómurum að dæma sameiginlega forsjá, enda tel ég best fyrir börn að málum sé veitt inn í farveg sáttar, en ekki inn til dómstóla, þar sem rík hætta er á að foreldrar reyni að finna hvort öðru allt til foráttu.
Ég lagði hins vegar alltaf á það áherslu að Alþingi ætti síðasta orðið í þessum efnum og það þekkja þingmenn mætavel. Og síðasta orð Alþingis hvað það varðar er orðið sem gildir, það eru lögin.

Samsærirskenningar afþakkaðar

Lögin fela í sér veigamiklar réttarbætur fyrir börn og þess vegna lagði ég mikla áherslu á að koma þeim í gegn. Ég vildi hins vegar hlýða á varnaðarorð þeirra sem verður gert að sinna framkvæmdinni og leggja mitt af mörkum til að nægur tími væri ætlaður til undirbúnings. Róbert Marshall var á annarri skoðun. Gott og vel, en samsæriskenningarnar mætti hann gjarnan eiga fyrir sjálfan sig.