Fara í efni

BARÁTTUANDINN ÓLGAR

Dagurinn í dag var stór dagur í jafnréttisbaráttu kvenna. Tugþúsundirnar, sem tóku þátt í fjöldagöngunni í Reykjavík og fjölsóttir baráttufundir um allt land undirstrikuðu samstöðu kvenna og þann ásetning þeirra að ná árangri í baráttu sinni fyrir jafnrétti. Loftmyndin af mannhafinu í Reykjavík var mögnuð. Hún er táknræn og verður án efa stimpluð inn í Íslandssöguna.  Stemningin mun lifa og glæða baráttuandann um ókomna tíð. Um það hef ég engar efasemdir. Fjöldi einstaklinga og samtaka kom að skipulagningunni en eitt er víst að þrátt fyrir alla heimsins skipulagningu hefði aldrei tekist að fá eins margt fólk til að mæta og raun bar vitni ef ekki hefði verið til staðar innri þörf og löngun til að taka þátt. Innan BSRB, þar sem ég þekki nokkuð til, fann ég fyrir þessum áhuga eftir því sem nær dró, en fulltrúi samtakanna í undirbúningshópi var Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Jafnréttisnefndar BSRB.

Það var gaman að fylgjast með því hvernig þessi stemning geislaði inn í fjölmiðlana. Þar var margt ágætt sagt. Halla Gunnarsdóttir, ung baráttukona, minnti okkur á eðli réttindabaráttunnur. Það er ekkert gefið, sagði hún. Það þarf að berjast fyrir umbótum en gleymum því heldur ekki, að það þarf baráttu til að verja það sem áunnist hefur.

Eitthvað á þessa leið mæltist henni. Þetta er nokkuð sem verkalýðshreyfingin minnir stöðugt á. Í fréttum kvöldsins kom Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ einnig fram. Hann var að bregðast við svívirðilegri framkomu gagnvart pólskum farandverkamönnum við Kárahnjúka; framkomu sem við hefðum fyrir nokkrum árum ekki trúað, að við ættum eftir að upplifa á Íslandi. Upp í hugann komu orð Höllu.

Amal Tamini gerði hlut launafólks af erlendu bergi brotið að umtalsefni í barátturæðu á Ingólfstorgi. Hún benti á mikilvæg úrlausnarefni en jafnframt lagði hún áherslu á framlag aðkomufólks til íslensks samfélags. Mér þótti tónninn í ræðu hennar góður. Úr öðrum ræðum heyrði ég því miður aðeins brot.

Í Kastljósþætti í kvöld fannst mér það vera þörf ábending og góð hjá Rannveigu Guðmundsdóttur, alþingismanni (eða alþingiskonu, eins og Drífa Snædal, ritari VG myndi orða það) að minna okkur á bágborin kjör láglaunafólks, kvenna og karla. Hjá láglaunafólki væri ekki mismunun á milli kynja – í það minnsta lítil - , hennar gætti meira þegar ofar kæmi í launastigann. En kjörin væru hins vegar afleit. 

Þetta er til umhugsunar. Það er nefnilega ekki nóg með að launamisrétti ríki á milli karla og kvenna þegar á heildina er litið, kjaramunurinn á milli þeirra lægstu og hæstu, óháð kyni, fer hraðvaxandi. Svolítið er það hlálegt að hlusta á valdahafana, sem á undanförnum árum hafa smíðað launakerfi misréttisins og launaleyndarinnar, koma fram og tjá sig fjálglega um mikilvægi þess að vinna markvisst að úrbótum og réttlæti!

En hvað um það, baráttuandinn ólgar. Það lofar góðu. Ekkert hefst án baráttu – hvort sem er í vörn eða sókn. Það er hárrétt hjá Höllu Gunnarsdóttur.