Fara í efni

BARÁTTA OG SIGRAR Í 70 ÁR

SFR - Framhlið III
SFR - Framhlið III
Titillinn á þessum pistli er heitið á nýútkominni sögu SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, eftir Þorleif Óskarsson, sagnfræðing.

SFR kynnti bókina síðastliðinn miðvikudag við hátíðlega athöfn þar sem boðið var fyrrum stjórnarmönnum og starfsmönnum SFR svo og forystu heildarsamtakanna, BSRB, ásamt núverandi forystu og trúnaðarmönnum SFR.

Ég hafði verið beðinn um að flytja hugvekju um gildi sagnfræðinnar og hvers virði sögulegur fróðleikur væri og þá ekki síst fyrir verkalýðshreyfinguna. Formaður SFR, Árni Stefán Jónsson, hafði á orði að til mín hefði verið leitað, ekki aðeins sem fyrrverandi formanns BSRB til margra ára heldur einnig sem sagnfræðings. https://sfr.is/um-sfr/frettir/frett/2017/04/28/Saga-barattu-og-sigra-i-70-ar-Saga-SFR-er-komin-ut/ 

Erindi mitt var almenns eðlis en um nýútkomna bók fór ég mjög lofsamlegum orðum enda teldi ég bókina  „mikilvægt framlag til sögu verkalýðshreyfingarinnar á liðinni öld", sem varpi „mjög skýru og greinargóðu ljósi á baráttusögu opinberra starfsmanna en jafnframt verkalýðsbaráttuna almennt." Sagði ég engan vafa leika á því að sagnfræðilega kæmi „þessi bók til með að gegna mikilvægu hlutverki  sem grundvallarrit."

Hugvekja mín á útgáfuhátíð SFR hinn 26. apríl:

„Þekking á sögu okkar skiptir máli, að mínu mati af þremur ástæðum:  Í fyrsta lagi veitir þekkingin okkur ánægju, hún hefur með öðrum orðum gildi sem slík, sem gleðigjafi. Í öðru lagi er hún gagnleg, gefur okkur fast land undir fætur og auðveldar okkur að finna vegvísa inn í framtíðina, „að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja, án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt", eins og Einar Benediktsson kvað svo listilega vel í Aldamótaljóði sínu. Og í þriðja lagi getur þekking á fortíðinni blásið okkur baráttuanda í brjóst, kennt okkur hvers við erum megnug, hjálpað okkur að koma auga á hreyfiafl sögunnar; að skilja að sagan gerist ekki af sjálfu sér; að alltaf eru gerendur og að það eru þeir sem ryðja nýjum tímum braut.   

Í aðdraganda páskanna fór ég norður í land sem varla er í frásögur færandi, til Húsavíkur og Akureyrar. Á báða staði var ég kominn til fundahalda um málefni sem brenna á samfélaginu - eða öllu heldur um mál, sem ég tel að eigi að brenna á samfélaginu og vonandi þykir það fleirum í kjölfar fundanna. En látum það liggja á milli hluta. Enda er það sem ég vil nefna hér á þessari útgáfuhátið SFR, utan umræðuefnis þessara funda og kemur efnisinnihaldi þeirra ekki við, þó vissulega óbeint eins og ég mun nefna þegar þar að kemur.

Til Akureyrar kom ég ásamt fyrirlesurum á  laugardagseftirmiðdegi en Akureyrarfundurinn var hins vegar haldinn á  hádegi daginn eftir. Gestgjafar okkar úr Búnaðarsambandi Eyjafjarðar buðust til  að fara með okkur um héruð svo hver stund yrði vel nýtt til ánægju og fróðleiks og varð úr að Sigurgeir B. Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambandsins, fór með okkur í ökuferð um Eyjafjaraðarsveit sunnan Akureyrar. Betri leiðsögumann er vart hægt að hugsa sér.

Gegnum aldirnar voru þrír hreppar þar sem nú er Eyjarfjarðarsveit en þeir voru sameinaðir árið 1991, merkilegt framtak og gerendurnir á undan sinni samtíð hvað þetta varðar því á þeim tíma var ekki kominn sá þrýstingur á sameiningu, sem síðar varð.

Allir höfðum við aðkomumennirnir farið um þessar sveitir, einn meira að segja ríðandi, hinir höfðu ekið þarna um á sumarferðum sínum um landið eins og gengur og gerist hjá ferðaglöðum Íslendingum.  Sumarblóminn var hins vegar enn fjarri og tún enn gul enda náttúran ekki vöknuð til lífsins. Engu að síður hreif fagurt landslagið ferðalangana og einnig hin byggðu ból.

En lífið í landið kom að þessu sinni með öðrum hætti en með sumargróskunni, blómum í haga og slegnum túnum.  

Á þessum bæ var um skeið niðursetningur í barnæsku sinni, Tryggvi Emilsson, síðar rithöfundur og verkalýðskempa, höfundur Fátæks fólks, Baráttunnar um brauðið og Fyrir sunnan. Og ekki var líf þess unga sveins alltaf dans á rósum, sagði leiðsögumaður okkar þegar við ókum framhjá Draflastöðum. Og hér handan í hlíðinni gagnstætt okkur eru Ánastaðir, en þar sem víðar blómstraði bókmenning fyrr á tíð. Á Ánastöðum eru nú tóftir einar ásamt minningum sem smám saman eru að hverfa., bætti hann við. Þeir bæir sem við ókum framhjá, eða voru í sjónmáli, urðu þannig að sögustöðum sem gripu hugann.  Hér er Grund, kvað nú við frá leiðsögumanni vorum. Það er nokkurn veginn sama hvaða tími í sögunni fer í gegn um hugann þá kemur Grund við sögu. Þar bjuggu Sturlungar og skörungurinn Grundar Helga...
Síðan rakti hann merkilega sögu Magnúsar Sigurðssonar sem reisti á Grund hvorki meira né minna en 460 fermetra íbúðarhús  á 4 hæðum, árið 1890. Sá frómi maður hefði einnig byggt stærstu sveitakirkju landsins, fest kaup á vörubíl, hafið skógrækt, rekið verslun og unglingaskóla.  Vildi hann reisa slíkan skóla  fyrir alla hreppana innan Akureyrar, aftur á eigin kostnað en með styrk frá Alþingi. En skilyrðið var að hrepparnir sæju um reksturinn því skólagjöld máttu ekki vera svo börn frá fátækum heimilum hefðu jafna stöðu á við þau sem væru af efnafólki. Ekki hafi náðst samstaða um þetta, en líklegt megi telja, að á Grund væri nú  miðstöð þessa sveitarfélags ef af þessum áformum hefði orðið. Staðsetningin sem síðar varð á Hrafnagili hafi svo aftur að miklu leyti komið til vegna heita vatnsins sem þar er.
Við fengum að heyra af sögu höfuðbólsins Saurbæjar, sem var prestssetur til 1931 þegar séra Gunnar Benediktsson hrökklaðist þaðan eftir sín róttæku skrif sem fóru mis vel í elítu guðsóttans, eins og það var orðað.

Saga hvers bæjar á fætur öðrum var rakin uns sveitin var öll orðin lífi gædd. Vitnað var í kveðskap, sagt frá erfiðum samgöngum þar sem um torleiði var að fara og síðan samgöngubótum og hvernig þær hefðu breytt mannlífinu ekki síður en rafmagnið og hitinn, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun. „En þegar Konrad Maurer kom hingað á sinni yfirferð," hélt sögumaður áfram, og rann nú miðbik 19. aldar þegar dr. Konrad Maurer, þýski fræðimaðurinn kom hingað til lands í frægan könnunarleiðangur árið 1858, saman við samtímann í órjúfanlega heild, þá hafði hann á orði, þessi ágæti þýski gestur með glögga gestsaugað að meiri veigur væri í norðanmönnum en sunnan. Nú örlaði fyrir sigurglotti í andlitsdráttum okkar góða leiðsögumanns, framkvæmdastjóra Búnaðarsambands Eyjarfjarðar, sem sýndi okkur og sannaði þennan eftirmiðdag að enn eru sem betur fer á Íslandi til menn sem kunna skil á sögu okkar og menningu eins og best verður á kosið.

Ekki var nóg með að við hefðum átt skemmtilega dagsstund og umhverfi okkar öðlast líf með hressilegri inngjöf af sögulegum fróðleik heldur var nú margt orðið skiljanlegra sem áður var torskilið eða alls ekkert skilið.

Eitt af því sem uppúr stendur er saga Magnúsar á Grund sem viritst allt sitt líf geisa eftir framfarabrautinni eins og fyrr er getið og vildi kóróna verkið með því að reisa skóla fyrir sveitina alla en með því ófrávíkjanlega skilyrði að aldrei yrði nemendum mismunað eftir efnhag. Hann skildi að verkefnið sneri ekki að því einu að reisa skóla heldur á hvern hátt skólinn þjónaði samfélagi sínu, á hvern hátt hann gegndi hlutverki sínu sem burðarás - innviður eins og nú er í tísku að kalla burðarstoðirnar í þeirri miklu byggingu sem eitt samfélag er.  

Ekkert stendur verkalýðsbaráttunni nær en að tala um gerendur enda segir hugtakið eitt, verkalýðsbarátta, sitt um þann skilning að framfarir gerist ekki án baráttu, án átaks, án gerenda.

Ég kom í haust á byggðasafn í Wales, skammt frá höfuðborginni Cardiff. Þar mátti sjá hvernig híbýli fólks höfðu tekið breytingum í tímans rás, allt frá köldum moldarkofum, án allra þæginda og yfir í vistarverur nær því sem við nú þekkjum. Þetta var á köldum haustdegi sem ég fór þarna um og áhrif þessarar heimsóknar á mig hugsanlega meiri fyrir vikið, því í röku köldu haustverðinu var auðveldara en ella að ímynda sér hlutskipti þeirra sem ekkert áttu nema vinnuafl sitt og afdrep í köldum hráslagalegum moldarkofa. Í dagslok heimsótti ég síðan höll þarna skammt frá en salir hennar höfðu verið opnaðir almenningi til sýnis svo dást mætti að gullinu og demöntunum, plussi og hvers kyns munaði sem gaf innsýn í líf yfirstéttar, hátt yfir aðra hafin í lískjörum öllum. Og spurningin sem brann á vörum var, hvers vegna aldrei hafi orðið bylting hér. Svarið við þeirri spurningu er margslungið. Þó þykist ég vita að barátta verkalýðshreyfingarinnar og framsækinna pólitískra afla hafi um sumt áorkað því sem bylting ella hefði gert, því í þróunarsögu híbýlanna var bent á þá augljósu samsvörun sem var í framförum og bættum lífskjörum alþýðu og áhrfiamætti þessara afla.

Og hver veit nema byltingin austur í Rússlandi hafi þrátt fyrir alla sína miklu annmarka orðið til að hræða varðstöðumenn demantafólksins til undanhalds og eftirgjafar. Eitt er víst að án baráttu hefði ekkert hreyfst úr stað.

Allt þetta þurfum við að skilja og þarna sannar sagnfræðin notagildi sitt. Við þurfum að þekkja hina sögulegu umgjörð. Þar er mikilvæga vegvísa að finna inn í framtíðina, lærdóma af sigrum en jafnframt varúðarblikur. Og fyrst við erum kominn austur til Rússlands á annað borð og heila öld aftur í tímann í þokkabót, til byltingarásins 1917 þá er vert að minna á orð Vladimirs Ilichs Lenins um mikilvægi sögulegs skilnings þótt ekki tækist honum sjálfum að lesa rétt í söguna því sumt af því sem „helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann", eins og sagt var af öðru tilefni á öðrum stað og öðrum tíma eins og við þekkjum.

En svo meðvitaður var Lenin engu að síður um mikilvægi hinnar sögulegu umgjarðar að hann á að hafa sagt um sitt fræga byltingarrit, Hvað gera skal, að ritið  mætti alls ekki þýða á erlend tumgumál án þess að því fylgdi ítarleg söguskýring á því hvers vegna  nauðsyn var á  leynilegum stjórnsellum í landi ofbeldisfullrar keisarastjórnar, sem refsaði grimmilega fyrir allt andóf með því að senda gagnrýnendur sína í fangabúðir í Síberíu. Það sem rétt væri í Rússlandi keisarans á öndverðri 20. öld kynni að vera rangt í öðrum þjóðfélögum. Þessi varnaðarorð Lenins voru hins vegar að engu höfð. Ritið var þýtt formálalaust og sellur stofnaðar þar sem menn lærðu sögulausan boðskapinn utanabókar. Þar með var voðinn vís.

Stóri voðinn var hins vegar sá sem margir anarkistar höfðu séð þegar um miðbik 19. aldar og bent kommúnistum á aftur og ítrekað að þjóðfélagið sem við vildum skapa komi til með að ráðast af þeim aðferðum sem við nýttum við að reisa það. Ólýðræðisleg barátta myndi þannig aldrei skila okkur lýðræðislegu þjóðfélagi. Þetta hygg ég að allar hreyfingar sem vilja lifa af, verði að skilja til fulls, hættuna sem í því er fólgin að fjarlægjast félagsmenn sína og steingervast sem lífvana stofnanir, sem vilja lifa átakalaust sem slíkar, í stað þess að vera af sama holdi og blóði og félagsmennirnir sem fylla raðirnar.  

En það þarf stöðugt að halda okkur við efnið og stöðugt þarf sagan að lifa með okkur. Ég ætla að svindla svolítið, en bara örlítið og víkja í örfáum setningum að fundarefninu þarna fyrir norðan en það geri ég eingöngu til að minna á þýðingu sögunnar og sögulegrar þekkingar. Fundarefnið var innflutningur á hrámeti og lifandi dýrum, að hvaða marki ætti að leyfa hann til Íslands. Málshefjendur voru annars vegar prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, Karl G. Kristinsson og hins vegar veirufræðingur og dýralæknir við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Vilhjálmur Svansson. Báðir vísuðu þeir í erindum sínum til rannsókna í samtímanum og hvert viritst stefna í þeim efnum. En þeir horfðu einnig til sögunnar, hvort það gæti verið að Íslendingar ætluðu ekkert að læra af biturri reynslu sinni. Röktu þeir áfallasögu innflutnings á hrávöru og lifandi dýrum en hömruðu jafnframt á þeim mikla árangri sem barátta Íslendinga fyrir heilnæmum matvælum hefði skilað okkur í sjúkdómslausum bústofnum, í matvöru sem væri auðlind sem bæri að verja með öllum ráðum. Vísað var í fjölmörg dæmi frá fyrri tíð og þá einnig hið afdrifaríkasta þeirra þegar svokallað Karakúl fé var flutt til Íslands á fjórða áratug síðustu aldar. Þá sýktust innlendir fjárstofnar með þeim afleiðingunum að um 750 þúsund fjár féll eða var skorið. „Eru Íslendingar virkilega búnir að gleyma þessari sögu, var spurt eða þekkja þeir hana ekki", og fundarmenn hygg ég að hafi svarað innra með sér að allt sem ekki er lögð rækt við að halda til haga, er gleymt nánast samstundis á öld hraða og yfirborðsmennsku.

Eða hvað með þessa forsíðu í dagblaði í dag: „Glitnir hyggst greiða 2.700 milljóna bónus til lykilmanna." Höfum við ekkert lært af sögu nýliðins tíma? Erum við í álagafjötrum, hvílir yfir okkur galdrahamur?

Hugurinn leitar til Draflastaða þar sem kaupamaður segir við Tryggva Emilsson. „ Þú skalt hata það fólk sem sveltir smælingjana". Og þegar Tryggvi svarar því til að hann treysti sér ekki til að hata nokkurn mann, svarar kaupamaður: „Það er líkt með okkur, ég hef aldrei getað hatað og er því snauður vinnuþræll." Kaupamaður bætti því svo við að hatur væri eins konar galdur og að þeir sem hann kunni verði ríkir af engu. (Fátækt fólk 2011, s. 115).

Ef þetta væri rétt væru margir galdramenn á íslandi.

Við vitum hins vegar að það verður enginn ríkur af engu. En sjónhveringarnar þekkjum við og sannleikann einnig; að það er vinnandi hugur og hönd sem skapa auðinn, ekki hugur handhafa bónusanna, heldur þeirra sem draga fisk úr sjó, kenna í skólum, hlynna að sjúkum, sinna löggæslu g smíða hús, brýr og hafnir. Þetta er fólkið sem skóp velferðarjóðfélag 20. aldarinnar, gerendurnir á mesta framafarskeiði mannskynnsögunnar.  

Ég vil hér undir lokin á mínu máli minnist manns sem ég mat mikils, Guðmundar Bjartarssonar, kvikmyndagerðarnmanns, sem lést fyrir skömmu en frásögn mín er jafnframt dæmisaga.

Guðmundur var þingeyingur að uppruna og kom suður yfir heiðar með fjölskyldu sinni þegar faðir hans, Bjartmar Guðmundsson, settist á þing undir lok 6. áratugarins. Bjartmar var sonur Guðmundar Friðjónssonar skáldbónda á Sandi í Aðaladal.
Eftrimælin um Guðmund heitinn voru einstaklega falleg og get ég borið þess vitni að þau voru verðskulduð. Guðmundur var hæverskur maður og sem ungur drengur var hann feiminn. Þess minnist ég þegar hann kom í bekkinn minn 11 eða 12 ára gamall. Þótti honum augljóslega afleitt að hafa á sér kastljósin þegar kennarinn kynnti hann og átti Guðmundur greinilega þá ósk heitasta að þessari flóðljósasýningu fyrir allra augum lyki hið fyrsta. En ekki tók betra við í frímínúntum því þar safnaðist krakkaskarinn í kringum Guðmund að forvitnast um hann og hans hagi. Og þarna var hann kominn úr sveitinni og á malbikið í Reykjavík. Og á þessu malbiki stóð hann nú við Melaskólann og þurfti að svara ágengum krökkum. Að því kom að spurt var um upprunann. „Hvaðan ertu Guðundur?" Guðmundur kvaðst vera frá Sandi í Aðladal. Hvar er það, var þá aftur spurt. En nú hafði aðkomudrengurinn náð vopnum sínum og gott betur því nú hló hann og alveg niður í maga þar til hann loksins gat stunið upp: „Mikið eruð þið illa að ykkur í landafræði." Þögn sló á hópinn. Allir gerðu sér nú grein fyrir því að þarna væri mikill maður á ferð. Þögul stóðum við nú á malbikinu, okkar malbiki, sveitamenn frammi fyrir  heimsborgaranum frá Sandi í Aðladal.

Og á leiðinni heim úr skóla minnist ég þess að einhver sagði: „Mikið er hann klár þessi frá Sandi."

Sagan, menningin veitir nefnilega styrk og getur orðið okkur hvatning ef rétt er á haldið. Stefán Ögmundsson, prentari og formaður Hins íslenska prentarafélags um árabil, varaforseti ASÍ og síðast en ekki síst stofnandi MFA, Menningar- og fræðslusambands Alþýðu, sagði við mig, ég þá nýorðinn formaður BSRB, mundu bara eitt Ögmundur minn, að á meðan verkalýðnum er tamt hið besta úr menningu okkar, hann kann skil á sögunni, er hluti af henni og hún af honum, þá eru allir vegir færir. Gætið að þessu og standið vörð um hina lægst launuðu. Þá mun ykkar hreyfingu farnast vel.

En sagan skrifar sig ekki sjálf. Það þarf að taka ákvörðun um að skrifa hana og kalla menn til starfa að því verkefni.

Ég tek undir með höfundi þessa verks, Þorleifi Óskarssyni, þegar hann segir í formála bókar sinnar:  „Forysta SFR á þakkir skilið fyrir að vilja sýna liðinni tíð ræktarsemi. Til marks um þá ræktarsemi var sú ákvörðun að láta skrásetja sögu félagsins, bæði til þess að halda minningu um liðna daga til haga og þá einnig til að geta dregið lærdóma af baráttusögu liðins tíma. Slíkt er lifandi hreyfingu nauðsyn. Margt í samtímanum verður skiljanlegra þegar hin sögulega vídd er gerð sýnileg og við þekkjum hvaðan við komum og hvers vegna við erum þar stödd sem við nú stöndum."

En það er ekki bara forysta SFR sem á lof skilið. Það á höfundur bókarinnar svo sannarlega einnig og ekki síður. Svo mikið veit ég um sagnfræði að ég get fullyrt að hér hefur afar vel tekist til enda ekki að undra því Þorleifur Óskarsson er höfundur einstaklega vandarða sagfræðirita, þar á meðal rita sem tilnefnd hafa verið til bókmenntaverðlauna, og nefni ég þar Sögu Reykjavíkur, hið mikla verk, mikið að vöxtum og gæðum. Hann hefur einnig ritað um skólamál, útgerð og einnig um ýmsa þætti verkalýðs- og félagsmálasögu.  

Framlag hans nú er mikilvægt framlag til sögu verkalýðshreyfingarinnar á liðinni öld og varpar mjög skýru og greinargóðu ljósi á baráttusögu opinberra starfsmanna en jafnframt verkalýðsbaráttuna almennt. Sagnfræðilega kemur þessi bók til með að gegna mikilvægu hlutverki  sem grundvallarrit. Á því leikur enginn vafi.

Nú þegar við fögnum útgáfu þessarar bókar er þess vert að láta þetta jafnframt verða tilefni til að minnast þess hverju baráttusaga verkalýðsins hefur skilað launafólki í lífskjörum og betra lífi. Heitið, Saga baráttu og sigra í 70 ár, er metnaðarfullt heiti en við lestur á frásögn höfundar af félagslegu hlutskipti fátækrar verkakonu og hverju barátta SFR skilaði henni í bættum lífskjörum, gerir það að verkum að ég er bærilega sátur við þetta heiti.

Ég gef höfundi bókarinnar, Þorleifi Óskarssyni, sagnfræðingi orðið: (bls. 248) orðið:
„Við hverfum áratugi aftur í tímann og lítum á brot úr lífi alþýðukonu sem gerðist félagi í Starfsmannafélagi ríkisstofnana árið 1943. Hún fæddist 1898 og var af þeirri kynslóð sem lifað hafði mestu breytingatíma Íslandssögunnar.

Sögusviðið er Reykjavík árið 1921 og áfangastaðurinn höfnin. Í bænum er talsverð umferð, margir vegfarendur eru gangandi, sumir hjólandi, aðrir á hestum eða hestvögnum. Og svo voru það bílarnir. Þvílíkur er vélagnýrinn að ætla mætti að allir bílar bæjarins, 130 talsins, séu á skriði um göturnar. Sannkölluð plága að mati margra og Morgunblaðið heldur því fram að Reykjavík sé orðin mesti bílabær í Evrópu. Þar séu flestir bílar að tiltölu og skýringin er m.a. talin sú að engar járnbrautir eru á landinu. Á hafnarbakkanum er þyrping af fólki. Strandferðaskipið er í þann mund að leggjast að. Fjöldi farþega stendur á þilfarinu og þar á meðal Sveina Helgadóttir. Hún er 23 ára og ætlar, eins og svo margir aðrir, að freista gæfunnar í höfuðstaðnum:
Ég er Austfirðingur og kom með skipi til Reykjavíkur 1921. Ég vann við ýmislegt sem verkafólk vinnur við, var í vist, síðan saumaði ég heima fyrir skreðara og hafði þjónustumenn, var á sútaraverkstæði o.fl. Maður þrælaði sér út á unga aldri, eins og galeiðuþræll.
Þannig sagði Sveina frá í viðtali í Ásgarði, tímariti BSRB, árið 1982. En hvernig var umhorfs í Reykjavík um það leyti sem hún kom til bæjarins? Höfuðstaðurinn var í örum vexti og þangað flykktist fólk hvaðanæva af landinu. Árið 1900 höfðu íbúarnir verið nálægt sex þúsund en voru hátt í 18 þúsund um 1920. Og áratug síðar hafði fjölgað um tíu þúsund manns. Húsnæðisskortur var mikill, almenningur bjó þröngt, margir í heilsuspillandi kytrum. Í Alþýðublaðinu 1923 var sagt frá hjónum með sex börn sem bjuggu í einu kjallaraherbergi. Herbergið var um sex fermetrar, lofthæðin 1,90 m. Og meirihluti Reykvíkinga, um 65%, voru leigjendur. Þar á meðal var Sveina sem eignaðist ekki eigið húsnæði fyrr en hún stóð á sjötugu, árið 1968:
Móðir mín flutti til mín 1926, en veiktist fljótt af brjósthimnubólgu og var í 10 ár að berjast við dauðann. Við bjuggum saman oftast í einu herbergi nema þegar við fengum húsnæði í litlu timburhúsi með þeim kvöðum að hafa hjá okkur rúmliggjandi konu og við sváfum þrjár saman í herbergi.
Á fjórða áratugnum grúfði heimskreppan yfir efnahags- og atvinnulífinu. Á tímum samdráttar og atvinnuleysis skipti miklu að hafa fasta og örugga vinnu og að því leytinu var Sveina heppin. Snemma árs 1935 hóf hún störf hjá Áfengisverslun ríkisins, síðar ÁTVR. Þar starfaði hún samfleytt í röska þrjá áratugi." ....
Og Þorleifur heldur áfram ... „Árin 1940‒1980 voru samfellt framfaraskeið í íslensku þjóðfélagi og bylting varð á lífskjörum almennings. Fólk hafði úr miklu meiru að spila en áður og gjörbreyting varð á húsnæðismálum. Launafólk ávann sér fjölmörg félagsleg réttindi, þjónusta opinberra aðila fór vaxandi, og öflugt velferðarkerfi varð að veruleika. Margt stuðlaði að bættum kjörum en samtakamáttur fjöldans, sem birtist í sterkri verkalýðshreyfingu með lifandi hugsjónir um mótun samfélagsins, skipti án efa mestu.
Og hún var sátt við lífið og tilveruna, hún Sveina, þegar tíðindamaður tímarits BSRB heimsótti hana á ári aldraðra, 1982. Þá var hún á níræðisaldri og þakklát fyrir að hafa fengið að lifa og kynnast „svo mörgu góðu og fallegu". Hún hafði verið á eftirlaunum síðan 1968, kjörin máttu svo sem vera rýmri en Sveina mundi tímana tvenna og nægjuseminni, sem var mikilvægur eiginleiki í lífsbaráttu fjöldans fyrr á tíð, hafði hún ekki gleymt:
Ég gæti ósköp vel þegið meiri laun ... en ég get gefið það sem mig langar til að gefa. Ef ég á lítið þá spara ég, maður er vanur öllu, var svo vanur að hafa lítil laun og ég hafði alltaf fleiri en sjálfa mig til að sjá um enda þótt ég giftist aldrei. Til spari var ég alltaf á íslenskum búningi og lét alltaf eftir mér að sauma mér sumarkjól og sloppa notaði maður heima fyrir. Einu sinni saumaði ég mér peysufatafrakka og venti honum, svo hann entist í mörg ár.
Ég hef aldrei verið annað en hversdagsmanneskja og mín saga er saga fjöldans, saga baráttu og sigra."

Ég óska aðstandendum þessarar bókar, Saga baráttu og sigra í 70 ár, til hamingju. Hún er merkilegt framlag til sögulegrar þekkingar, hún er verkalýðshreyfingunni mikilvæg og dýrmæt, samtökum opinberra starfsmanna og SFR að sjálfsögðu sérstaklega. Þá er allur frágangur málfar og framsetning til fyrirmyndar en ekki síst, þá sameinar hún það þrennt sem ég nefndi í upphafi um mikilvæga kosti sem þurfi að prýða gott sagnfræðirit, að vera ánægjulegt aflestrar, með öðrum orðum gleðigjafi, að vera fróðlegt og upplýsandi og í þriðja lagi að vera hvatning til áframhaldandi baráttu þannig að á nýrri tíð megi enn skrifa baráttusögu SFR.

Það er nefnilega enn verk að vinna. Kannski sem aldrei fyrr!