Fara í efni

BANKARNIR VILJA LOKA AÐ SÉR

Fram er komið svar – eða fremur svarleysi – við fyrirspurn minni til bankamálaráðherra þar sem óskað var upplýsinga um afskipti banka og fjármálstofnana af fasteignamarkaði. Í opinberri umræðu hefur því verið haldið fram að bankarnir keyptu lóðir og fasteignir, hefðu jafnvel byggingaverktaka á sínum snærum - eða í sínum greipum - og væru þannig óbeint orðnir áhrifavaldar í eignaverðsprengingunni. Inn í þessa umræðu fléttuðust einnig starsfkjör erlendra verkamanna sem vinna í byggingabransanum langt utan við lög og rétt; hart væri þrengt að verktökunum sem beittu sér fyrir vikið harðar gegn verkamönnum. 

Í lögum er kveðið á um að bankar skuli ekki sinna atvinnustarfsemi nema hún tengist starfsemi þeirra að öðru leyti, sbr. 20. og 21. greinum laga um fjármálafyrirtæki : "… er viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum heimilt að stunda hliðarstarfsemi, enda sé hún í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins."  (sjá nánar hér) .

Til að grennslast fyrir um þetta vildi ég fá eftirfarandi upplýsingar:   Hversu margar fasteignir, þ.e. íbúðir annars vegar og lóðir hins vegar, eru skráðar í veðmálabækur sem eign viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem starfa eftir lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sundurliðað eftir fyrirtækjum og þeim embættum sem annast slíkar skráningar?

Viðskiptaráðuneytið segist ekki hafa aðgang að þessum upplýsingum og hafi því snúið sér til Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Þar á bæ sögðu menn svo aftur að hér væri spurt um einkamál og ekkert meira um það að segja sjá (sjá hér feril málsins).

Ástæða er til að spyrja hvort það sé virkilega svo að upplýsingar um þessi efni séu einkamál. Eins og hér hefur komið fram er ekki krafist nafngreindra upplýsinga heldur aðeins almenns eðlis og einvörðungu í því augnamiði að fá úr því skorið hvort farið sé að lögum í landinu. Í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir fáeinum vikum kom fram að Fjármálaeftirlitið væri að skoða þessi mál.

Nú verður gengið eftir því á Alþingi við bankamálaráðherra hvort viðskiptaráðuneytið hafi leitað upplýsinga hjá Fjármálaeftirlitinu um athuganir á þess vegum. Það er ráðuneytis og að sjálfsögðu Alþingis að fylgjast með því að eftirlitsstofnanir sinni eftirlitsskyldu sinni og að landslögum sé framfylgt.