Fara í efni

Bandarísk yfirráð

Hálf milljón manns mótmælti yfirvofandi herför Bandaríkjaforseta gegn Írökum í Flórens á Ítalíu fyrir fáeinum dögum. Þetta eru jafn gleðileg tíðindi og fjöldamótmælin í hverri stórborginni á fætur annarri. Fólk er að vakna og rísa upp gegn stríðsæsingi bandarískra ráðamanna. Einnig í Bandaríkjunum. En það er umhugsunarefni hve mjög flokkshagsmunir samfylkingar demokrata og repúblikana í því landi setja svip sinn á viðhorf og afstöðu manna sem eru á allt öðrum stað í heiminum. Á sama hátt er það einkennilegt að alþjóðlegir fjölmiðlar í eigu bandarískra fyrirtækja skuli með áherslum sínum í fréttum geta haft eins  mikil áhrif og raun ber vitni á það sem fjölmiðlar í öðrum löndum fjalla um. Sjónarhorn bandarísku fjölmiðlanna er þröngt og nátengt hagsmunum Bandaríkjanna eins og valdakerfið þar skilgreinir þá. Þess vegna eru mótmælin í Flórens mikilvæg. Þess vegna er líka mikilvægt að rifja upp textana hans Cornelíusar Vreeswijks. Þeir eru sögulegir en hárbeittir. Þetta eru nokkrar línur úr kvæðinu um tindátann (Telegram för en tennsoldat):

Hans hjärna är massiv,
hans hjärna är massiv.
Att ge sig ut i kriget
är hans enda tidsfördriv
Och ger man honom order,
ja då offrar han sitt liv.

Ljóðið Till Jack eftir Cornelíus á líka erindi til okkar sem horfðum mánuðum saman á hvít þotustrik sprengjuflugvéla Bandaríkjamanna á heiðbláum himninum yfir Afganistan og eigum eftir að horfa á sömu myndirnar af himninum yfir Írak ef okkur mistekst að stöðva stríðsæsingamenn:

Nu faller natten
nu faller bomberna
nu brinner barnen
i hekatomberna.
Vad ropar barnen? Vad glor de på?
B femtitvå. B femtitvå.

Nu kommer dagen
den kalla, mordiska
nu brinner barnen
de underjordiska
Men andra leker, förmodar jag
I USA. I USA.

Það verður að berjast gegn því að menn grípi til hryðjuverka eins og framin voru í Bandaríkjunum í fyrra, á Balí á dögunum eða hryðjuverkunum sem unnin eru í Mið-Austurlöndum nær daglega, en við getum ekki og megum ekki láta stjórnast af mönnum sem víla ekki fyrir sér að nota sömu aðferðir og þeir sem skipuleggja það sem við þekkjum sem hryðjuverk.