Fara í efni

BANDARÍKJASTJÓRN, AL QUAEDA OG KJARNORKUSPRENGJAN

Haft var eftir Mohamed ElBaradei, forsvarsmanni Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar (International Atomic Energy Agency), í fréttum að tímaspursmál væri hvenær Al Quaeda hryðjuverkasamtökin kæmust yfir kjarnorkuvopn. Þau leituðu nú dyrum og dyngjum um heim allan að færi til að koma sér upp slíkum vopnum. Ekki veit ég hvaðan forstöðumaðurinn hefur þessar upplýsingar. Ef þetta hins vegar er rétt þá er það hrikaleg tilhugsun; engu síður skelfileg en vitneskjan um að núverandi Bandaríkjastjórn hefur yfirrráð yfir kjarnorkuvopnum. Bandaríkin eru eina ríkið í heiminum sem beitt hefur kjarnorkuvopnum. Það var 6. og 9. ágúst árið 1945 þegar kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Eitt hundrað þúsund manns, að minnsta kosti, féllu í árásunum og í kjölfarið létust miklu fleiri auk þeirra þúsunda sem hlutu varanleg örkuml. Í langan tíma fæddust börn á þessum slóðum, vansköpuð af völdum geislavirkni. Morðingjarnir hafa aldrei verið dregnir fyrir alþjóðaglæpadómstól eins og tíðkast með þá sem tapa stríðum. Sigurvegarar eru sem kunnugt er aldrei látnir svara til saka.

Það er ekki einu sinni svo gott að menn iðrist gjörða sinna. Talsmenn þess ríkis sem ábyrgt er fyrir þessum hryllilegu glæpum segja enn þann dag í dag að þetta hafi verið gott og rétt. Því er með öðrum orðum blákalt haldið fram að fjöldamorðin í Hiroshima og Nagasaki hafi átt rétt á sér. Þau hafi verið nauðsynleg stríðsaðgerð. Menn þurfa ekki annað en fara upp í bandaríska sendiráðið við Laufásveginn í Reykjavík til að fá staðfestingu á því að Bandaríkjastjórn réttlætir enn þann dag í dag fjöldamorðin í Hiroshima og Nagasaki.

Auðvitað á að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að Al Quaeda komi sér upp kjarnorkuvopnum. Barátta Bandaríkjastjórnar, bresku ríkisstjórnarinnar og allra hinna kjarnorkuveldanna gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna verður hins vegar aldrei sannfærandi fyrr en þessi ríki sjálf ákveða að afvopnast. Það eiga þau að gera og safna liði fyrir algeru banni við kjarnorkuvopnum.

Tilhugsunin um að Al Queda komist yfir kjarnorkuvopn er slæm. Engu betri er þó vitneskjan um að Bandaríkjastjórn ræður yfir slíkum vopnum; eina ríkisstjórnin á jarðkringlunni sem réttlætir kjarnorkusprengjuna og segir að fjöldamorð framin með henni hafi verið gagnleg og nauðsynleg. Er hægt að taka svona mannskap alvarlega sem friðarboðendur og talsmenn afvopnunar? Viljum við vera í hernaðarbandalagi með slíku ríki?

Barátta Bandaríkjanna gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna verður ekki sannfærandi fyrr en Bandaríkin sjálf afvopnast kjarnorkuvopnum. Fyrsta skref Bandaríkjastjórnar til að sannfæra okkur um trúverðugleika í málflutningi væri að viðurkenna að kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki hafi verið rangar.