Fara í efni

BAKSTUR ORKUMÁLASTJÓRA

Birtist í Morgunblaðinu 25.08.07.
Hinn 1. ágúst sl. var viðtal við Þorkel Helgason orkumálastjóra í Spegli Ríkisútvarpsins. Spurt var út í markaðsvæðingu orkugeirans og afleiðingar hér innanlands og erlendis. Margoft hefur komið fram að orkumálastjóri er þessari þróun afar hliðhollur.

Í Spegilsviðtalinu við hann koma mjög við sögu hugtök á borð við mistúlkun, misskilningur og hugtakaruglingur. Við sem erum gagnrýnin á markaðsvæðingu orkugeirans erum jafnan sögð á villigötum þegar við færum rök fyrir máli okkar og tilgreinum dæmi úr raunveruleikanum.

Um afleiðingar markaðsvæðingarinnar segir Þorkell í fyrrgreindu viðtali: "Holt og bolt held ég að menn séu samt sammála um það að þetta hefur leitt til hagræðingar og einhverrar lækkunar á orkuverði. Það hefur kannski einkum komið fram hjá stærri neytendum, kannski í minna mæli hjá almenningi. Hér á landi hefur verið vísir að samkeppni, t.d. einstaka fyrirtæki eða fyrirtækjahópar hafa gert góð kaup á raforkumarkaðinum. Ég held t.d. að bakarar hafi samið við einn orkusalann um verð sem þeir eru vonandi ánægðir með. En ég hygg að hvort sem samkeppni verður mikil eða ekki – og vonandi verður hún mikil...".

Vandinn er hins vegar sá að stöðugt berast okkur fréttir, ekki síst frá Evrópusambandinu, af fákeppni, samráði og öðrum tilheyrandi einokunartilburðum, nú síðast í Financial Times 31. júlí sl. um stórfyrirtæki í orkugeiranum (gasi), Eon og Gaz de France, sem sökuð eru um að hafa skipt með sér stórum markaðssvæðum og sammælst um verðlag. Fréttir af þessu tagi hafa verið tíðar og koma vonbrigði manna einnig fram í hverri svörtu skýrslunni á fætur annarri frá Evrópusambandinu. Í rannsóknarskýrslum um þróun raforkumarkaðarins hefur margoft komið fram að framleiðni hefur aukist í orkugeiranum á undanförnum áratugum óháð markaðsvæðingunni. Spurningin snýst hins vegar um hvað markaðsvæðingin hefur leitt af sér. Ég hef margoft vitnað í tölur frá aðskiljanlegum ríkjum, þar á meðal Norðurlöndunum, sem sýnt hafa fram á hve óhagstæð neytendum markaðsvæðingin hefur verið.

Í tímaritinu Verktækni sem samtök íslenskra verkfræðinga gefa út er að finna afar athyglisverða umfjöllun um danska skýrslu sem segir markaðsvæðingu raforkugeirans hafa verið "fíaskó" fyrir notendur. Verð hafi hækkað um þriðjung, fyrirtækjum á markaði hafi fækkað með tilheyrandi fákeppni. Rakið er hvernig skýrsluhöfundarnir dönsku sýna fram á að raforkuverð hafi hækkað, miðað við fast verðlag, um 25% árin 2000-2005 til iðnfyrirtækja og um 33% til almennings. "Fullyrðingar um ávinning af frjálsum raforkumarkaði standist einfaldlega ekki. Þeir leggja til að Danir beiti sér fyrir því [...] að ESB semji ný raforkulög frá grunni."

Í fyrrnefndri grein í Verktækni, sem ég hef áður vísað til hér í Morgunblaðinu, kemur einnig fram að samkeppnisyfirvöld innan Evrópusambandsins taki undir þessa gagnrýni og má minna á að forsvarsmenn íslenskra raforkutækja höfðu uppi varnaðarorð um aukinn kostnað vegna markaðsvæðingarinnar sem hafa gengið eftir. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri OR, lét t.d. þau orð falla áður en haldið var út á þessa braut að tilkostnaður við "samkeppnina sjálfa" myndi nema um einum milljarði króna sem þá var einn tíundi hluti af heildarkostnaði raforkukerfisins!

Nú er það gott mál ef íslenskir bakarar hafa fengið hagstæðan raforkusamning svo vikið sé aftur að yfirlýsingum orkumálastjóa. En væri ekki ráð að láta fleiri íslensk iðnfyrirtæki fá raforku á góðum kjörum í stað þess að hygla erlendri stóriðju? Þetta geta eigendur íslenska raforkugeirans gert, nefnilega íslenska þjóðin. Til þess þarf hins vegar vilja hjá þeim sem þjóðin hefur kosið yfir sig til að gæta hagsmuna sinna. Ég skora á íslenska fjölmiðla að kafa ofan í þessi mál. Það hafa menn vissulega gert en í undantekningartilfellum. Það er helst í fréttaskýringarþætti Ríkisútvarpsins á laugardögum og í Útvarpi Sögu sem slíkir tilburðir hafa verið uppi nú í sumar. Með fullri virðingu fyrir íslenskum fjölmiðlum og Þorkeli Helgasyni: Ekki láta hlutdræg yfirvöldin baka ofan í okkur einhvern veruleika sem byggist á óskhyggju en ekki staðreyndum. Staðreyndirnar upp á borðið!