Fara í efni

ÁVARP Í HÓLA- OG FELLAKIRKJU Á AÐVENTU: HVER VORUM VIÐ ÞÁ OG HVER ERUM VIÐ NÚ?


Við minnumst þess að eitt hundrað ár eru liðin frá því Íslendingar endurheimtu fullveldi sitt eða öllu heldur Danir viðurkenndu fullveldi Íslands.

Þess vegna höldum við hátíð, og er það vel, og einnig hitt að láta afmælishátíðina verða tilefni til íhugunar, horfa inná við og spyrja út í okkur sjálf.

Hver erum við?

Hver erum við árið 2018?

Og þá hver vorum við árið 1918, fyrir eitt hundrað árum?

Kannski er ekki hægt að ætlast til svars því spurt er um alhæfingar. Og við alhæfingum ber alltaf að gjalda varhug. Við erum mörg og ólík og eins og við oft erum minnt á, þá hrærast innra með sérhverju okkar ýmsir þankar, góðir og slæmir, sumir til eftirbreytni aðrir síður, sumir aðdáunarverðir, aðrir alls ekki. Og þótt varla höfum við öll innra með okkur allt það litróf sem er að finna í mannlegri hugsun og hegðan þá er þarna engu að síður strengur, hinn sammannlegi strengur sem gerir það að verkum að hægt er að tala til okkar allra í húsi sem þessu og hræra strengi mennskunnar til góðs. Þetta hafa siðfræðingar, heimspekingar og listamenn einnig gert í tímans rás til að hreyfa við okkur og þoka okkur áleiðis til þroska og samkenndar. Vegna hins sammannlega þráðar fundum við öll til með Sölku Völku og það mikið ættum við að hafa lært að galdrabrennur heyri til liðinni tíð.  

En þetta er varnagli og fyrirvari áður en ég sný mér að alhæfingunum. Og fyrirvararnir eru fleiri.

Ég hef stundum áður vitnað í samtal við unga frænku konu minnar sem við hittum vestur í Bandaríkjunum í aðdraganda bankahrunsins. Ég spurði hana hvað hana langaði til að taka sér fyrir hendur í lífinu. Hún hugsaði sig um og sagði svo á þessa leið: Ég hef fylgst með unglingum sem eru að fóta sig í lífinu. Þeir þurfa að kunna að lesa og skynja og skilja stærðir og samhengi stærðanna, að tvisvar sinnum tveir eru fjórir. Ef þeir öðlast ekki þessa kunnáttu koma þeir til með að standa höllum fæti í lífsbaráttunni. Mér lætur vel að kenna og þá sérstaklega reikning. Þarna held ég að ég kæmi að góðu gagni og þess vegna er svar mitt að ég vilji gerast barna- og unglingakennari í stærðfræði.

Ég hlustaði hugfanginn en varð jafnframt orðlaus. Ég varð orðvana vegna þess að lengi hafði ég ekki heyrt unga manneskju tala á þennan veg, hvar hún gæti komið að gagni fyrir samfélag sitt!

Í mörg ár hafði ungt fólk spurt, þegar framtíðaratvinnan var annars vegar, hvaða nám veitti aðgang að þeirri atvinnugrein sem gæfi best af sér, með öðrum orðum, “hvar verður MÉR best borgið, á hvaða hillu í lífinu er mest að hafa?”

Þetta er það sem kalla má tíðaranda og þarna hafði ég hitt unga stúlku sem hafði gert mér tíðarandann sýnilegan með því að ganga gegn honum. Hún var undantekningin sem sannaði regluna.

Jóhannes úr Kötlum var skáld hins unga Íslands. Fullur eldmóðs og drauma kallaði hann landa sína til verka, skáldin til að blása fólki kapp í kinn og alþýðu Íslands að taka til hendinni í uppbyggingu réttláts þjóðfélags:

Hvort sem ég æskuóð
yrki af sannri hvöt,
eða ég yrki vel
ógróinn moldarflöt,
fossar í funheitt blóð
fagnaðarkenndin sterk.
Göfgasta gleði í sál
gefur mér - unnið verk.

Það er umhugsunarvert hve ríkan þátt skáld 19. aldarinnar og á öndverðri öldinni sem leið, tengdu saman í eitt baráttu fyrir frjálsri fullvalda þjóð annars vegar og félagslegu réttlæti hins vegar:
Hvað er frelsi þitt byggð?
spyr Jónas Hallgrímsson og svarar sjálfum sér að bragði,
Það er drengslund og dyggð,
það er dáðin í siðferði þjóða;
það er menning þín sjálfs,
unz þú fúslega og frjáls
setur fjör þitt í veð hinu góða.

Og þannig hafði það verið. Skáldin og baráttufólkið hafði kappkostað að efla samkennd með þjóðinni og í kjölfarið samvinnu, þar sem menn efldu hver með öðrum kjark og bjarsýni. Á endanum varð það og þannig að hið ógerlega varð gerlegt og hið óyfirstíganlega varð yfirstigið.

Allt þetta er að sjálfsögðu sígilt og á við enn þann dag í dag. Með sameiginlegu átaki má koma bátnum úr vör og skútunni á skrið. En forsendan er að sjálfsögðu sú að þjóðin sé á sama báti, tilheyri sama samfélagi, búi við svipuð kjör; að skiptin séu réttlát.

Að mínum dómi er það til marks um siðferði þjóðanna hvernig tekjuskiptingu er háttáð, hvernig þær skipta með sér sameiginlegum verðmætum. Sú þjóð sem ekki býr við jöfnuð byggir ekki á traustum siðferðilegum grunni.
Ekki nóg með það, ranglátt þjóðfélag er veikt þjóðfélag, þjóðfélag sem engin afrek vinnur. Og veitum því athygli hvernig baráttufólk fyrri tíðar - þær kynslóðir sem lyftu þjóðinni úr sárri örbirgð og gerðu okkur að sjálfstæðri þjóð - verður tíðrætt um mikilvægi þess að leggja rækt við landið og okkur sem manneskjur. Hlustum enn:


Hvað er fresli þitt byggð?
Það er drengslund og dyggð,
það er dáðin í siðferði þjóða;
það er menning þín sjálfs,
unz þú fúslega og frjáls
setur fjör þitt í veð hinu góða.

Og…
fossar í funheitt blóð
fagnaðarkenndin sterk.
Göfgasta gleði í sál
gefur mér - unnið verk.

Hér eru gerendur á ferð sem hamra á því aftur og ítrekað að þeir hafi skyldur við sjálfa sig og þann skilning á sögulegri framvindu að ekkert gerist af sjálfu sér.

Þessi hugsun má aldrei glatast. Hinar værukæru kynslóðir sem á eftir komu ornuðu sér við orðtæki sem fyrir einhvern misskilning hafa ratað inn í spakmælasafn þjóðarinnar – og sennilega margra þjóða: “Maður kemur í manns stað”og síðan brandarinn mikli um að kirkjugarðarnir séu fullir af ómissandi fólki. Að þessu hlæja margir og láta þá fylgja að slíkt sé náttúrlega firra enda komi maður í manns stað eins og allir viti.

Í mínum huga, og um þetta hef ég stundum áður fjallað, þá er þessu ekki þannig farið. Kirkjugarðarnir eru nefnilega fullir af ómissandi fólki. Það skiljum við þegar við minnumst hins besta frá liðnum tíma.

Í mínum huga leikur enginn vafi á að gæðastuðull kynslóðanna er mismunandi og að hann taki breytingum frá einum tíma til annars. Einu sinni komu nær allir heimspekingar, sem eitthvað kvað að á Vesturlöndum, frá Grikklandi. Löngum voru Akurnesingar betri í knattspyrnu en aðrir landsmenn.  Skáklistin hefur risið og hnigið í bylgum á Íslandi.  Bókmenntirnar líka. Og  menningin?  Ég er ekki í vafa um að tíðarandinn hefur verið mis-rismikill og þar með menningin einnig.

Hvað veldur? Hvers vegna sköruðu Grikkir fram úr í heimspeki frá sjöttu öld fyrir Krist og þar til Rómverjar tóku að undiroka þjóðina fjórum öldum síðar? Frelsið eða frelsisvitundin?

Ég held það hafi verið jarðvegurinn. Þetta var nefnilega rétt hjá þeim Jóhannesi úr Kötlum og Jónasi Hallgrímssyni að menning er ræktunarstarf. Það sem við leggjum rækt við ber ávöxt. Til góðs og einnig til ills. Það er hægt að leggja rækt við lágkúru ekkert síður en við það sem vandað er og gott. "Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.", segir í guðspjalli.

Dæmi um öfluga menningarvitund var Snæfjallaströndin á öndverðri öldinni sem leið. Þá var þar læknir, með búsetu í Ármúla, Sigvaldi Kaldalóns. Það er til marks um menningarbrag og stórhug sveitunga hans þegar þeir gáfu honum flygil til að geta iðkað list sína. Efnin voru lítil en andinn reis hátt. Í sveitinni bjó einnig Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir, Halla á Laugabóli. Hún orti mörg ljóð sem Sigvaldi gerði sönglög við, Ég lít í anda liðna tíð og Svanurinn minn syngur eru dæmi þar um, sem seint munu gleymast. Og Ave María, Sigvalda gefur Ave Maríum fremstu tónskálda Evrópu ekkert eftir, ef hún þá ekki er best!
Með öðrum orðum, Snæfjallaströndin var menningarsetur í fremstu röð á heimsvísu; hafði á að skipa framúrskarandi hæfileikafólki og jafnframt - og það er lykilatriði - samfélagi sem hafði skilninginn og veitti stuðninginn. Á Snæfjallaströnd kunnu menn að rækta garðinn sinn!

Og nú fer ég að nálgast hin eiginlegu skilaboð sem mig langar til að koma á framfæri hér í kvöld og þau snúa að okkur sjálfum, okkar ábyrgð. Okkar ræktunarstarfi.

Mín kynslóð hefur að sumu leyti verið værukær kynslóð. Hún trúði því að allt stefndi til betri vegar, þrátt fyrir áföll, stríð og hungur þá trúðum við á framfarir; að framfaramælistika mannskynnsögunnar vísaði alltaf fram á við.

Þar til nú að fram á sjónarsviðið koma nýjar kynslóðir sem búa ekki yfir þessari vissu. Mín kynslóð óttaðist kjarnorkusprengjuna en nú er okkur sagt að allar götur frá iðnbyltingunni fyrir rúmum tvö hundruð árum hafi í reynd verið tifandi slík sprengja mitt á meðal okkar, koltvísýringssprengjan.

Bandaríski umhverfissinninn og guðfræðingurinn, Jim Antal, segir í bók sinni Climate Church, Climate world, að í tíu þúsund ár hafi maðurinn notað jörðina sem ruslahaug. Það hafi gengið áfallalaust fyrstu níu þúsund og átta hundruð árin en síðan hafi farið á verri veg svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Fyrir nýjar kynslóðir er framtíðin nú orðin ótrygg, mengun, stríð, hungur, fólk rekið á flótta frá heimahögum milljónum saman og víðast hvar illa tekið.

Framtíðin ber ekki lengur í skauti sér skilyrðislausar framfarir. Af framtíðinni stafar nú meira að segja ógn. Þess vegna eiga nú fylgi að fagna stjórnmálaöfl sem lofa því að afnema og útrýma þessari ógn og þar með öllu sem ógnar. Trump lofaði Bandaríkjamönnum í síðustu viku góðu veðri til framtíðar og öruggum skógum. Skógareldar muni heyra liðinni tíð. Og nú er honum spáð endurvali.

En hver er þá okkar skylda, hvar er okkar garður, hvar er hinn ógróni moldarflötur? Stundum höfum við komið auga á hann, tekið til hendinni og skilað uppskeru.

Ég ætla að taka dæmi. Undir síðustu aldamót varð það gegnumgangandi á meðal ungmenna á höfðuborgarvæðinu, allt frá barnungum krökkum og fram undir tvítugt, að safnast saman um kvöld og nætur á helgum í miðborg Reykjaíkur og fylgdi þessu mikill drykkjuskapur enda kom á daginn samkvæmt mælingum að hvers kyns óregla færðist í vöxt hjá ungu fólki. Þó var ástandið ekki verra hér en gerðist í samanburðarlöndum okkar. En slæmt var það.

Þetta þótti foreldrum mörgum miður en réðu ekki við neitt lengi vel eða þart til framtakssamt fólk tók frumkvæði og blés til gagnsóknar undir hvatningunni, Tölum saman. Og einmitt það var gert. Efnt var til vitundarvakningar og með þrautseigju tókst að kalla að borði foreldrasamtök, æskulýðssamtök, bæjarfélög, kirkjuna, skólana, lögregluna og fleiri og fleiri og fleiri. Á meðal þess sem hvatt var að foreldrar kappkostuðu að gera var einfaldlega að vera samvistum við börn sín um helgar. Og viti menn. Þetta tókst! Samkvæmt mælingum sem þykja áreiðanlegar fjölgaði þeim sem voru samvistum við 16 ára börn sín um helgar úr 36 af hundraði í 63% á þeim tíma sem átakið stóð yfir.

Og kemur þá rúsínan í pylsuendanum. Í nákvæmlega sama hlutfalli við rísandi samveruás kynslóðanna dró úr drykkju og reykingum í markhópunum, aldursflokknum fram undir tvítugt, drykkjan fór úr 36 prósent í 6 og reykimgar úr 32 í 8%. Einnig kannabisneyslan gekk lítillega niður, í öllum tilvikum var árangurinn hér á landi langt umfram það sem gerðist alls staðar í samanburðarríkjum okkar. Að sönnu kemur í ljós núna að minnihlutahópur er illa haldinn af óreglu og jafnvel ver staddur en fyrir fáeinum árum. Á því þarf að sjálfsögðu að taka. En þrátt fyrir það má hitt ekki gleymast að með fyrirbyggjandi starfi tókst að bjarga miklum meirihluta unglinga og barna, altént fresta vanda þeirra ef ekki forða þeim frá honum.

Mér var nýlega boðið á fund erlendis þar sem ég var með framlag sem laut að þessu átaki. Á þessari ráðstefnu var greint frá því sem var á döfinni í áfengis- og vímuefnaálum vítt og breitt um lönd. Á daginn kom að víða var verið að rýmka löggjöf út frá meintum þörfum minnihlutahópa og vel að merkja vegna þrýstings frá vímefna-marksöflunum. Í þeim ríkjum Bandaríkjanna og Kanada þar sem kannabisefni hafa nú verið gefin frjáls berast fréttir af kannabis-súkkulaði í búðarhillum. Nema hvað? Við hverju býst fólk?

Þetta eru skilaboð mín, að draga lærdóma af starfi foreldranna í Tölum saman hópnum. Þeim tókst ætlunarverk sitt, að rækta sinn ógróna moldarflöt. Þeir eru margir slíkir fletirnir sem horfa þarf til. Og á fullveldisári er vert að leiða hugann að því að fullveldi og sjálfstæði þjóðar er ógnað með ýmsum hætti.

En Sigríðarnar frá Brattholti eru einnig ennþá til sem betur fer. Suður í Hafnarfirði býr kona að nafni Jóna Imsland. Hún hefur sett fram undirskriftalista undir heitinu, Seljum ekki Ísland! Á meðan auðkýfingar kaupa upp landið okkar og færa eignarhaldið á því út fyrir landsteinana rís upp og reynist stærri en ríkisstjónin öll samanlögð, kona sem hvetur til samstöðu um þjóðarhag. Á meðan sefur Alþingi.

Ég ætla að kjósa Jónu Imsland sem mann ársins um áramótin og er ég sannfærður um að hennar verður minnst á afmælishátíðum fullvalda Íslands í framtíðinni. Látum það verða svo! Hún safnar nú liði. Verðum við ákalli hennar, Seljum ekki Ísland!

Og enn um ógnirnar. Okkur er sagt að nú sé um að gera að tengjast evrópskum orkumarkaði og komast þannig í kompaní við þau sem líta á orku sem hverja aðra vöru sem selja megi dýrt eða ódýrt aftir atvikum og aðstæðum. Í Evrópu er prísinn á þessari vöru dýrari en hér gerist. Það þýðir að íslenskur kaupandi yrði að greiða meira á sameiginlegu markaðstorgi raforkunnar en seljandinn gæti hins vegar fengið meira fyrir sinn snúð. Þar með yrði kominn enn einn hvatinn inn í orkuframleiðslukerfið, því meira sem virkjað er þeim mun betra. Svo er að heyra að Landsvirkjun og Landsnet telji þennan kost álitlegan. Gullfossi og Dynjanda mun hins vegar lítið um hann gefið.

Á þetta tal heima í kirkju í upphafi aðventunnar? Að sjálfsögðu, á sama hátt og höfuðbiskupar Norðurlandanna stigu á stokk á Arctic circle ráðstefnunni á dögunum að ræða meðal annars mengun og mannrréttindi.

Staðreyndin er sú að við þurfum að vakna af doðanum engu síður en þörf var á fyrir rúmri öld. Hefðbundin stjórnmál eru komin í hrikalegar ógöngur. Auðvald ógnar lýðræðinu. Um það má hafa langt mál og þarf að hafa langt mál. Það þarf að gera utan þings og innan þings en þar eru stjórnmálin því miður á undanhaldi. Það telst nánast til tíðinda þegar yfirleitt er rætt þar um stjórnmál!

Fyrir fáeinum dögum var sýnd fréttamynd í sjónvarpi um hvernig virðulegir bankar - að því er við héldum - hafa stolið með samanteknum ráðum hundruðum milljarða úr ríkissjóðum og hér á landi höfum við fylgst með óprúttnum hagsmunaaðilum leggja til atlögu gegn samfélaginu.   

Ef við viljum ekki missa trú á framtíðina - og það megum við ekki gera -  þá þurfum við á margan hátt að byrja upp á nýtt.

Ekkert síður en fyrir einni öld er mikið verk að vinna. Ef eitthvað er þá er meiri arfi að reita en áður var og síðan þarf að taka til við að plægja og yrkja jörðina á nýjan leik. Ávöxturinn af þeirri jarðræktarvinnu verður ekki á borðum þessi jól. En að því mun koma.

Nú kveikjum við á kertum og fögnum aðventunni. Kórarnir syngja okkur senn inn í jólin, það er yndislegt. Þökk sé hljómlistarfólkinu í kvöld. Hjá mér byrja jólin iðulega í þessari kirkju, Hóla- og Fellakirkju þegar Breiðfirðingakórinn hefur upp raust sína á aðventu og syngur okkur inn í hátíðarnar.

Þegar allt kemur til alls er svo margt gott í tilverunni. Jólin eru tilefni til að hjálpast að við að koma auga á það.
Gleðileg jól.