Fara í efni

AUGLÝST EFTIR ÚLFI Í SAUÐAGÆRU

Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið reynir mikið til að rísa undir nafni, í það minnsta síðasta hluta langrar nafngiftar. Vandinn er sá að nýsköpunin er lágreistari en flestir hefðu vonast til.

Ekki er langt síðan að ráðuneytið tók það sérstaklega fram í auglýsingu eftir sérfræðingi sem til stóð að ráða að hann þyrfti ekki að kunna íslensku, aðeins að “elska árangursmælikvarða.” Þessu var mótmælt enda á skjön við lög. Verri er nýjasta auglýsingin því hún kann að standast lög þótt hún hljóti að brjóta gegn kröfum flestra um lágmarksskynsemi í Stjórnarráði Íslands:
auglýsingatexti.png

Harvey Specter og Ally McBeal munu vera persónur í amerískum hetjusjónvarpsþáttum um afreks lögfræðinga. Ráðuneyti íslenskra háskóla tekur sérstaklega fram að vel geti verið að aðrar sjónvarpsstjörnur en þessar hafi orðið til þess að óskaumsækjandinn hafi ákveðið að leggja fyrir sig lögfræði en þarna er engu að síður skilgreininguna að finna á manngerðinni sem óskast.

En svo er það líka hitt að til þess að eiga möguleika á að hljóta starfið þarf umsækjandinn að vera mjúkmáll en þó harður sem stál: “stálhnefi í silkihanska.”

Á íslensku hefði mátt orða þetta skýrar: Úlfur í sauðagæru óskast til starfa.

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/laus-storf-a-starfatorgi/auglysing/?id=30036