Fara í efni

AUGLÝSINGASTOFA HEFÐI EKKI GERT BETUR


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 08/09.06.19.
Nú er ljóst að ríkisstjórnin ætlar að samþykkja matarinnflutningspakkann. Um er að ræða mál sem varðar stefnu Evrópusambandsins þannig að Samfylking og Viðreisn verða með stjórnarflokkunum og í ljósi sögunnar Píratar að líkindum líka.

Saga málsins er sú að fyrir um áratug samþykktu Íslendingar matvælapakkann svokallaða sem opnar fyrir innflutning á hráu kjöti. Málið var umdeilt innan þings og utan. Niðurstaðan varð sú að til að friða andstæðinga þessa “pakka” Evrópusambandsins voru settir fyrirvarar í íslensk lög sem áttu að tryggja forræði íslenskra stjórnvalda yfir því hvernig þessum innflutningi yrði háttað og hann takmarkaður eftir atvikum.

Þessum fyrirvörum sem Alþingi setti með lögum hnekkti ESA-dómstóllinn hins vegar og voru íslenskir skattgreiðendur í refsiskyni þvingaðir til að greiða innflutningsfyrirtækjum skaðabætur upp á þrjú þúsund milljónir. Enginn fjölmiðill – að því er ég best veit – hefur séð ástæðu til að fylgja þessum peningum eftir niður í þá vasa þar sem þeir höfnuðu.

Við svo búið var bent á að samkvæmt EES-samningnum sé heimilt að láta mál er varða heilbrigði vega þyngra en viðskiptahagsmuni. Vísindamenn sem vel þekkja til bentu á að einmitt það væri rétt að gera í þessu tilviki. Var nú hvatt til þess að Íslendingar óskuðu eftir því á grundvelli lýðheilsusjónarmiða að pakkinn yrði opnaður á nýjum forsendum. Þessar nýju forsendur hefðu verið að skýrast undanfarin ár og þá með svo ógnvænlegum hætti að heita mætti að menn væru að vakna upp við vondan draum.

Þannig væri sýklalyfjaónæmi að breiðast út, og mætti meðal annars rekja þetta til gríðarlegrar aukningar á notkun lyfja fyrir búfé. Hraðvaxandi verksmiðjubúskapur væri ein skýringin.

Hér stæðu Íslendingar hins vegar vel að vígi í samanburði við aðrar þjóðir því notkun sýklalyfja væri miklu minni í landbúnaði hér en gerðist annars staðar enda sjúkdómar fátíðari. Þessa sérstöðu ættum við að vernda.

Nú voru góð ráð dýr í herbúðum þeirra sem telja öllu máli skipta að hvika hvergi frá ítrustu tilskipunum Evrópusambandsins. Bent var á - og það réttilega - að útlendingar kæmu hingað til lands í vaxandi mæli og Íslendingar færu utan. Í báðum tilvikum skapaðist hætta á að sýklalyfjaónæmi bærist hingað til lands. Einhver taldi að fuglar sem hér lentu eða millilentu gætu borið einhverja óværu og svo mætti vissulega grípa til mótvægisaðgerða, leita og skima!

Nokkrir vísindamenn fóru að taka undir þessar raddir en aðrir héldu áfram að vara við og bentu á að jafnvel þótt allt það sem nefnt væri að skapað gæti hættu kynni að vera rökrétt þá væri engu að síður fráleitt að veikja þá sterku stöðu sem við óneitanlega höfum með tiltölulega sjúkdómafría matvælaframleiðslu og okkur bæri að gera allt sem í okkar valdi stæði til að lágmarka alla hættu. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að láta stjórnast af viðskiptahagsmunum þegar heilbrigði dýra (gleymum þeim ekki) og lýðheilsa væru í húfi?

Sú stofnun sem mest hefur rannsakað dýrasjúkdóma á Íslandi um áratugaskeið er Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum. Þaðan hafa og borist trúverðug varúðarorð, ekki bara að undanförnu heldur allar götur frá því hún var sett á laggirnar um miðja síðustu öld. Þá hefur sýkladeild Landspítalans hvergi dregið af sér í varnaðarorðum enda sú deild sjúkrahússins sem hefur þurft að glíma við sýklalyfjaónæmi og getur því talað af þekkingu og reynslu.

Í ljósi alls þessa má spyrja hversu vel til fundið og smekklegt það hafi verið hjá ríkisstjórninni að halda fréttamannafund um undanhald sitt á hlaðinu á Keldum, og þá kannski einnig hjá Sjónvarpinu að sniðganga þá sérfræðinga sem helst hafa varað við innflutningi á hráu kjöti en bjóða hins vegar í beina útsendingu til að botna fyrrnefndan fréttamannafund sérfræðingi sem talað hefur máli “mótvægis” í kjölfar undanhalds.

Auglýsingastofa hefði ekki getað hannað þessa sviðsetningu betur.