Fara í efni

Auglýsingabann í þágu brennivínssala?

 

Í Fréttablaðinu í gær birtist athyglisverð grein eftir Borgar Þór Einarsson um bann við áfengisauglýsingum. Í greininni er m.a. rætt við Friðrik Eysteinsson, formann Samtaka auglýsenda. Hann vitnar í könnun á vegum OECD sem "hafi sýnt fram á að auglýsingabann hefði í raun frekar þau áhrif að auka neyslu og misnotkun áfengis...virtist sem bannið leiddi til aukinnar neyslu...Sama var uppi á teningnum þegar kom að misnotkun áfengis, en þá var miðað við dauðsföll vegna skorpulifrar og umferðarslysa þar sem áfengi kom við sögu." Við þetta vakna ýmsar spurningar. Hvers vegna í ósköpunum ættu brennivínssalar að verja himinháum upphæðum í auglýsingar ef tryggasta leiðin til að örva áfengisneyslu er að banna auglýsingar.
Reyndar er málið ekki alveg svona einfalt því þessar niðurstöður stangast á við aðrar rannsóknir. Borgar Þór vísar í skýrslu Vinnuhóps Ríkislögreglustjóra. Þar segir "að niðurstöður samanburðarrannsókna á milli nokkurra OECD-landa á 8. áratugnum hafi sýnt fram á minni mælanlega áfengisneyslu og lægri tíðni áfengistengdra vandamála í löndum þar sem bannað var að auglýsa áfengi. Bent er á það í skýrslunni að áfengisneysla í löndum þar sem bannað hafi verið að auglýsa sterkt áfengi hafi verið 16 prósentum minni en þar sem slíkar auglýsingar hefðu verið leyfðar. Þá segir að áfengisneysla hafi verið 11 prósentum minni í þeim löndum þar sem alfarið var bannað að auglýsa áfengi en í þeim löndum þar sem einungis var bannað að auglýsa sterkt áfengi." Eitthvað hljómar þetta nú trúlegra en hitt að auglýsingabann örvi söluna!

Auglýsendur vilja fræða neytandann – eða þannig

Víkur nú að málflutningi Samtaka auglýsenda. Friðrik Eysteinsson formaður samtakanna segir síðarnefndu könnunina ekki standast aðferðafræðilegar kröfur: "Hann segir að tilgangur auglýsinga sé fyrst og fremst að sjá neytendum fyrir upplýsingum sem auðvelda þeim að taka neyslutengdar ákvarðanir, hvort kaupa eigi þetta áfengismerki eða hitt..." Þessi var góður Friðrik en með leyfi að spyrja, hvaða upplýsingum er verið að koma á framfæri? Er inntakið ekki fyrst og fremst að staðhæfa að mín vara sé best – og að við getum skálað upp á það? Ekki hef ég komið auga á neinar upplýsingar í þessum auglýsingum.
Undir lok greinar Borgars Þórs er vísað í Einar Pál Tamini, forstöðumann Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík sem furðar sig mjög á því að auglýsingabannið skuli ekki hafa verið kært til Brussel. Telur hann að bannið standist ekki Evrópusambandsreglugerðarverkið.

Vilja geta tjáð sig óhindrað

Í vopnabúri vínkaupmanna er í mestu uppáhaldi hjá mér tilvísun þeirra í 73. grein stjórnarskrárinnar og í Mannréttindasáttmála Evrópu. Hér er að sjálfsögðu verið að vísa í tjáningarfrelsið. Bann við að auglýsa brennivín er nefnilega talið skerða tjáningarfrelsi heildsalanna sem höndla með áfengi. Það sé með öðrum orðum mannréttindabrot!
Það er dapurlegt að hugsa til þess kaupmenn skuli bera eins litla virðingu fyrir landslögum og raun ber vitni. Enn dapurlegra er að þeir skuli reyna að grafa undan samfélagslegum markmiðum með því að fara á bak við auglýsingabannið. Tvo aðila vil ég nefna sérstaklega í þessu samhengi.

Ábyrgðarleysi Reykjavíkurborgar og ÁTVR

Svo virðist sem ÁTVR standi nú fyrir auglýsingaherferð til að örva sölu á frönskum vínum. Þetta er fullkomið stílbrot hjá ÁTVR sem fram til þessa hefur sýnt ábyrgð enda ástæðan fyrir einkarekstrinum m.a. sú að opinbert þjónustufyrirtæki gangi ekki eins hart fram í auglýsingamennsku og einkafyrirtæki í leit að hámarksgróða. Með þessu er ÁTVR að grafa undan eigin tilverurétti.
Hinn aðilinn sem ég vil nefna er Reykjavíkurborg sem lætur bjórfyrirtæki nota strætóskýlin til að auglýsa bjór og fara þanig á bak við landslög. Ég gladdist því mjög þegar ég frétti að Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi hyggist taka málið upp og krefjast endurskoðunar á auglýsingasamningi við viðkomandi aðila. Fyrir þetta á Björk lof skilið.