Fara í efni

AUÐVITAÐ KJÓSUM VIÐ UM EVRÓPUSAMBANDIÐ


Þegar okkur var þröngvað inn undir EES samninginn á fyrri hluta tíunda áratugarins reis upp mikil hreyfing sem krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu. Því var hafnað. Ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks taldi  verkefnið  svo flókið að þörf væri á afburðafólki til að skilja hvað væri þjóðinni fyrir bestu. Um þetta voru þeir sammála Davíð Oddsson og Þorsteinn Pálsson. Líka Jón Baldvin Hannibalsson og Sighvatur Björgvinsson. Meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir líka. Við vorum hins vegar miklu fleiri sem vildum þjóðaratkvæðagreiðslu. Við vildum lýðræðislega niðurstöðu. Töldum auk þess að þjóðaratkvæðagreiðsla og umræðan sem henni tengdist myndi varpa ljósi á efnisþætti sem ella fengju litla skoðun. En sjálfskipaðir handhafar  skynseminnar í Stjórnarráðinu og á Alþingi höfnuðu lýðræðinu. Þau sögðust vera svo vel að sér í skynsemi að ekki mætti trufla þau að störfum. Svipað og Geir H. Haarde sagði á opnum fundi í Háskólabíói nýlega. Hann sagði að ríkisstjórnin yrði að fá vinnufrið. Í orðunum lá að þjóðin mætti ekki trufla þau Ingibjörgu Sólrúnu.

Þegar lýðræðið truflar valdhafa þá eiga þeir að víkja. Lýðræðisleg niðurstaða á að ráða  - í öllum málum. Líka um Evrópusambandið. Að sjálfsögðu. Einhliða áróður hagsmunaafla um Evrópusambandsaðild er farinn að þvælast fyrir upplýstri umræðu og ákvarðanatöku um framtíðina á Íslandi. Þá er bara ein leið fær. Við kjósum um hana. Hvað sem líður efasemdum mínum um ESB-aðild - sem reyndar fara vaxandi - er ég eindregið á því, að málið þurfi að fá lýðræðislega niðurstöðu. Forræðishyggja þeirra sem ekki treystu þjóðinni til að kjósa um EES-samninginn, og einhliða áróðurinn sem alla tíð hefur fylgt þeim gjörningi eins og öðru, verður að vera liðinn undir lok. Ef það er eitthvað sem þarf að treysta í íslensku samfélagi þá er það lýðræðið á öllum stigum og í öllum málaflokkum.

Kosningar um ESB kalla að sjálfsögðu á viðræður við sambandið til að komast megi að því hvaða kostir séu í boði. Engum treysti ég betur til slíkra viðræðna en Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Það segir sig svo auðvitað sjálft að úrskurði þjóðarinnar á að hlíta í þessu sem öðru.