Fara í efni

AUÐMENN ÍSLANDS OG ÁHERSLUR VERKALÝÐSHREYFINGAR


Í Morgunblaðinu hafa að undanförnu birst greinar eftir forsvarsfólk úr röðum BSRB sem hafa varað við vaxandi misskiptingu í íslensku samfélagi. Stundum hefur verið talað um að tvær eða fleiri þjóðir í landinu. Um helgina birstust tvær skýrar birtingarmyndir þessa. Annars vegar mátti finna hve gjörsamlega jarðsambandslaust þotuliðið úr auðkýfingastétt Íslands er orðið. Hins vegar birtist athyglisverð úttekt í Hjálmi, málgagni verkalýðsfélagsins Hlífar um launaþróun fiskverkafólks og alþingismanna sem er vísbending um vaxandi kjaragliðnun í þjóðfélaginu.

Nánar að þessu tvennu.
Þotuliðið. Hannes Smárason, fráfarandi forstjóri FL group telur sig hafa verið hófsaman hvað eigin kjör snertir - bara með fjórar milljónir í mánaðarlaun, þotu til ferðalaga og að sjálfsögðu ríflegar arðgreiðslur - hann hafi aðeins verið hálfdrættingur á við aðra forstjóra stórfyrirtækja.

Þetta kom fram í viðtali við hann sunnudagsblaði Morgunblaðsins: „Ef þú horfir á fyrrverandi forstjóra FL Group, sem situr hérna við borðið, og svo forstjóra X, þú mátt velja þér nafn í það box, svo framarlega sem það er eitt af fimm stærstu fyrirtækjum á landinu, í hvers hópi við erum. Ef þú horfir á laun strípuð var forstjóri FL Group með 4 milljónir á mánuði. En X myndi vera með í laun í kringum 80 til 90 milljónir á ári. Ef þú horfir á bónusa er forstjóri FL Group með núll, en forstjóri X með aðrar 80 til 90 milljónir. Þannig að forstjórar stærstu félaganna hér á landi leggja sig á 160 til 180 miljónir króna á ári en ekki tæpar 50 milljónir eins og ég gerði. Ef þú horfir síðan á kauprétti var forstjóri FL Group með núll, forstjóri X með...köllum það einhverja milljarða. Síðan ef þú heldur áfram og talar um risnu og ferðakostnað, þá get ég upplýst að ég hef aldrei rukkað félagið um einn einasta hótelreikning eða útlagðan kostnað við gistingu eða uppihald eða neitt sem tengist slíkum hlutum," segir hann og bætir við um ferðakostnað: „Þar hefur forstjóri FL Group haft nákvæmlega sama háttinn á og X. Félagið hefur staðið undir þeim kostnaði, stundum með einkaþotu og stundum með öðrum hætti."  

Hannes segir lesendum Morgunblaðsins að hann hafi að sjálfsögðu fengið arðgreiðslur ofan á þetta frá félaginu: „Og það ...góðan arð, ég get ekki kvartað undan því að hafa ekki haft úr miklu að moða enda þótt ég hafi ekki verið hálfdrættingur á við forstjóra stærstu félaga landsins..."

Alþingi og fiskverkun. Í Hjálmi, málgagni Hlífar í Hafnarfirði er að finna samantekt sem sýnir þróun kauptaxta fiskvinnslufólks í dagvinnu annars vegar og mánaðarlauna þingmanna hins vegar frá árinu 1997 og fram á þennan dag. Árið 1997 hafi dagvinnukaup fiskvinnslufólks verið 63 þúsund krónur en þingfararkaup 212 þúsund. Nú væri fiskvinnslufólkið með 126 þúsund en þingmenn með 531 þúsund. Kaup fiskvinnslufólksins hefði hækkað um 100%. Kaup þingmanna hefði hækkað um 150%.

Hvað er til ráða? Á launafólk að horfa til lífskjara Hannesar Smárasonar og félaga í þotuveröldinni eða á að halda sig nær jörðinni?
Að mínum dómi eigum við að gera tvennt:
Í fyrsta lagi: Til Hannesar og banka- og  verslunarkeðjuvesíra eigum við að gera kröfur um lækkað verð á þeirri vöru og þjónustu sem þeir hagnast á. Fremur kysi ég minni margauglýstar góðgerðir af þeirra hálfu í þágu lista og bágstaddra en þeim mun lægra verðlag á nauðsynjavöru og lægri vexti og þjónustugjöld. Þá ættu auðmennirnir að sjá sóma sinn í því að leggja okkur lið sem viljum hækka fjármagnstekjuskattinn svo þeir teygi sig í átt til okkar sem borgum meira en þrisvar sinnum hærri skattprósentu af okkar launum en þeir borga af tekjum sínum af fjármagni. Þar með gætu fjármunir úr þeirra vasa runnið til lista og velferðarmála en á réttum og lýðræðislegum forsendum.
Í öðru lagi verður að rétta af misréttið innan launakerfanna á Íslandi. Annars vegar er ljóst að stórlega hefur dregið í sundur á milli hinna hæstu og hinna lægstu. Til þessa verður að horfa í kjarasamningum. Þá þarf einnig að taka mið af því að kjarakannanir sýna á ótvíræðan hátt að launabil á milli stórra geira á almennum launamarkaði annars vegar og starfsfólks í almannaþjónustunni hins vegar hefur farið vaxandi - almannaþjónustunni í óhag. Þetta verður að lagfæra ella verður ekki hægt að manna sjúkrahúsin, dvalarheimili fyrir aldraða, stofnanir fyrir fatlaða, löggæsluna, slökkviliði...

Í fyrrnefndum Morgunblaðsgreinum sem vitnað var til að framan ( sjá HÉR, HÉR og HÉR) er höfðað til sanngirni og skilnings í þjóðfélaginu og samstöðu um að koma á réttlátara kjaraumhverfi. Samfélag sem byggir á réttlæti  og sanngirni er miklu betri og skemmtilegri íverustaður en það þjóðfélag sem nærir græðgina.

Eflaust gætu ýmsir þeirra sem mest hafa, klórað eitthvað meira til sín ef hugurinn stefnir óskiptur í þá átt. En hversu eftirsóknarverð er sú tilvera? Í stórgóðum formála Sigurðar Nordals að Andvökum Stephans G. Stephanssonar, sem Mál og menning gaf út 1939, vitnar Sigurður í bréf Stephans frá árinu 1908 þar sem Klettafjallaskáldið gefur lítið fyrir græðgisvæðingu síns samtíma: „Að ég er ekki ríkur Eggert minn, kenni ég engu nema sjálfskaparvítum. Hefði ég beitt því litla viti sem ég hef til fjárdráttar, eins í öllu, sem lög leyfa, þá trúi ég ekki öðru en ég hefði getað staðið hverjum öðrum meðalmauraþegn jafnfætis."