Fara í efni

ÁTVR EINKAVÆTT BAKDYRAMEGIN

Birtist í Morgunblaðinu 1. apríl 2006
Á Íslandi hefur verið nánast þverpólitísk sátt um stefnu í áfengismálum. Hún hefur gengið út á að hafa hemil á markaðsöflum við sölu og dreifingu á áfengi. Þess vegna er ÁTVR – Áfengis og tóbaksverslun ríkisins til. Annað veifið hafa ungir frjálshyggjumenn, einkum innan Sjálfstæðisflokksins en þó einnig innan annarra flokka, tekið upp baráttu fyrir afnámi ÁTVR. Þegar það hefur ekki tekist, m.a vegna andstöðu innan eigin flokka þessa fólks, hefur verið reynt að stíga smærri skref og koma léttvíni og bjór inn í almennar matvöruverslanir. Einnig þetta hefur mætt mikilli andstöðu. Til hvaða bragðs er þá gripið? Þá er einfaldlega farið bakdyramegin að málinu. Fram hefur komið að Árni Mathiesen fjármálaráðherra hafi nú kynnt, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, í báðum stjórnarflokkunum, frumvarp um að gera ÁTVR að hlutafélagi! Samkvæmt formúlunni verður þá fyrst sagt að ekki standi til að selja hlutaféð en það þó síðan gert að nokkrum tíma liðnum. Þetta er aðferðin. Hún er lúaleg.

Síðan er náttúrulega hitt sem að þessu máli snýr, að fyrir fjármálaráðherra og ríkisstjórn vakir að hafa réttindi af starfsfólki, ráðningarkjör og lífeyrisrétt. Það vefst ekki fyrir stjórnarmeirihlutanum á Alþingi að hygla sjálfum sér í lífeyrisréttindum. En þegar kemur að starfsmönnum ríkisins almennt þá er annað uppi á teningnum. Menn setur hljóða.