Fara í efni

ATKVÆÐASKÝRING Í FULLRI LENGD


Í dag var samþykkt á Alþingi að þeir einstaklingar sem kjörnir voru á stjórnlagaþing sl. haust - en kosningin úrskurðuð ógild af Hæstarétti - skyldi boðið að setjast í stjórnlagaráð sem hefði sama hlutverk og stjórnlagaþinginu var ætlað.
Ekki studdi ég þessa samþykkt og er henni reyndar mjög mótfallinn.
Það breytir því þó að sjálfsögðu ekki að þeim einstaklingum sem kjörnir voru á stjórnlagaþingið og nú í stjórnlagaráð færi ég mínar bestu velfarnaðaróskir. Það er mjög leitt hvernig þessi mál hafa æxlast og bitnað á þessu ágæta fólki algerlega að ósekju.
Ég gerði grein fyrir afstöðu minni við atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag og kom atkvæðaskýring mín víða fram í fjölmiðlum í kjölfarið ekki að fullu heldur hálfu. Ekkert óeðlilegt við það í knöppum fréttatímum. En fyrir bragðið vantaði upp á samhengið.
Ég sagði nefnilega ekki aðeins að ákvörðun Alþingis í dag væri hluti af „hrunpólitík" einsog fram kom í fréttum heldur hefði úrskurður Hæstaréttar að mínu mati svarið sig mjög í ætt hruntímans. Í mínum huga var úrskurður Hæstaréttar um ógildingu þessara lýðræðislegu kosninga á grundvelli formgalla, einhver allra versti atburður sem hent hefur í kjölfar hrunsins.
En leiðin til að bæta réttarkerfið er ekki að hunsa það heldur taka það alvarlega. Við eigum að reisa þá kröfu að úrskurðir og vinnubrögð réttarkerfisins verðskuldi ævinlega virðingu okkar. Alþingi þarf á sama hátt að sýna með sínum verkum að það sé traustsins vert.
Eitthvað ætlar þetta að vefjast fyrir okkur þykir mér. Það er ekki nóg að tala um þrískiptingu valdsins í stjórnarskrá ef valdþættirnir virða ekki hver annan. Ég fjallaði nýlega um mikilvægi þess að dómsvaldið og réttarkerfið sýndi hinum lýðræðislega þætti, þá virðingu sem honum bæri. Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/um-rettarkerfi-og-lydraedi
Allt er þetta tómt mál um að tala ef við byrjum ekki á því að horfa í eigin barm - hvort sem við störfum í réttarkerfi eða stjórnmálum.
Atkvæðaskýring: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?horfa=1&raeda=rad20110324T110924