Fara í efni

ÁSMUNDUR EINAR OG MEINTAR BROTALAMIR

ÁSmundur Einar
ÁSmundur Einar
Ásmundur Einar Daðason er sagður vera drykkjumaður og lyginn í ofanálag. Þetta hefur verið fullyrt í fjölmiðlum.

Hann er hvorugt.

Tilefni þessara vangaveltna á opinberum vettvangi eru staðhæfingar um að Ásmundur Einar hafi kastað upp vegna ölvunar um borð í flugvél á leið til Bandaríkjanna. Nokkrir fjölmiðlar hafa útmálað þetta á dramafenginn hátt. Það mun vissulega vera rétt að Ásmundur hafi orðið illa veikur. Það mun líka vera rétt að hann hafi fengið sér vín.

En veikur var hann alla ferðina og kastaði upp á leiðinni út og á leiðinni heim og kom áfengi þar hvergi nærri.  Heimkominn leitaði hann læknis sem setti hann á lyfjakúr og ráðlagði honum að vera frá vinnu um sinn. Engu að síður brást hann við kalli um að mæta á nefndarfund og í atkvæðagreiðslu þótt veikur væri. Sagt er að hann hafi brosað í þingsal, veikur maðurinn!

Vitnisburður velviljaðra ferðafélaga kemur heim og saman við kynni mín af Ásmundi Einari. Ég hef kynnst honum vel á undanförnum árum, fyrst sem félaga mínum í VG síðan sem samstarfsmanni á Alþingi.

Margoft hef ég tekið þátt í gleðskap með Ásmundi Einari og í ljósi þeirrar reynslu fullyrði ég þetta: Hann er hófsemdarmaður og stendur hann mörgum okkar framar að  því leyti.

Hjá flestum er að finna einhverjar brotalamir. Sjálfur kannast ég við ýmsar. En ég bý þó ekki við þá brotalöm að láta ljúga upp á félaga minn og vin án þess að segja orð honum til varnar.