Fara í efni

ÁSKORUN TIL FJÖLMIÐLA

Birtist í Morgunblaðinu 23.08.05
Hér á landi eru nú starfandi álver með 270 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Ef draumar Framsóknarflokksins verða að veruleika stefnir í að álframleiðslan verði 13-1400 þúsund tonn á ári. Með öðrum orðum, fari úr tvö hundruð og sjötíu þúsund tonnum í eina milljón og fjögur hundruð þúsund tonn. Ég tvítek tölurnar til þess að leggja áherslu á þá aukningu sem um er að tefla. Þótt ríkisstjórnin sé andvaralaus og fjölmilðar sýni þessu furðu mikið fálæti, þá verður ekki sagt að þau sofi á Greiningardeild KB-banka. Í ágústbréfi deildarinnar, sem nálgast má á heimasíðu bankans, er fjallað um hvað þessi áform þýða og er okkur sagt að fari fram sem horfir, stefni í að Ísland verði í hópi helstu álríkja heimsins með um 5% af heimsframleiðslu!

KB-banki beinir sjónum aðeins að efnahagsþættinum

Allt væri þetta gott og blessað ef ekki væri verið að fórna dýrmætum náttúruperlum og ef efnahagslegur ávinningur væri ótvíræður. Greiningardeild KB-banka verður þó ekki "sökuð" um að láta stjórnast af umhverfisssjónarmiðum því á slíkt er ekki minnst einu aukateknu orði í álitsgerð deildarinnar. Það eru hinir efnahagslegu þættir sem deildin beinir einvörðungu  sjónum að.
Í greiningu á efnahagslegum forsendum um áliðjustefnuna fæ ég ekki skilið annað en að felist alvarleg varnaðarorð. Þar segir m.a.: "Þjóðhagslegur ábati stóriðjunnar er því einkum fólginn í því yfirverði sem álver greiða til íslenskra framleiðsluþátta, einkum vinnuafls og orku. Þar skiptir arður af sölu raforku mestu máli. Sú stefna virðist hafa verið ríkjandi hérlendis að selja raforku nærri kostnaðarverði sem endurspeglast bæði í fremur lágri arðsemi Landsvirkjunar og fremur lágrar ávöxtunarkröfu sem fyrirtækið gerir til virkjanaframkvæmda."

Þriðjaheimsríkið Ísland - viljum við það?

Það sem hér er verið að segja okkur, eftir því sem ég fæ best skilið, er að Íslendingar eru með ærnum tilkostnaði (að því er einnig vikið í álitsgerð bankans) að búa sig undir framtíðina að hætti fárækra þriðjaheimsríkja sem selja fjölþjóðarisum aðgang að dýrmætum auðlindum fyrir lítinn fjárhagslegan ávinning.
Fyrr á tíð byggðist virkjunar- og stóriðjustefnan hér á landi á þeirri hugsun, að vegna sölu á raforku til stóriðju gætum við virkjað stærra og meira en ella og það myndi gagnast samfélaginu öllu að selja stóriðjufyrirtækjum hluta af rafmagninu frá þeim virkjunum sem á annað borð væri ráðist í. Rétt er að halda því til haga að alla tíð var það gagnrýnt að stóriðjufyrirtækin fengju raforkuna á nánast kostnaðarverði, eða minna, á meðan almenningur og íslensk fyrirtæki greiddu mun hærra verð. En á þennan hátt var þetta réttlætt. Öðru máli hlýtur að gegna þegar ráðist er í virkjanir sem eingöngu eiga að þjóna stóriðjufyrirtækjum einsog reyndin er með Kárahnjúkavirkjun. Þá hljóta að gilda önnur rök. Þá hlýtur að vera spurt um arðsemi virkjanaframkvæmdanna og raforkusölunnar með tilliti til þess hvað stóriðjufyrirtækin greiða fyrir rafmagnið, þar sem þau eru eini kaupandinn.

Framkvæmdir með lága arðsemiskröfu

Og það er hér sem Greiningardeild KB-banka talar um "lága arðsemi" og "lága arðsemiskröfu". Vissulega skapast störf en það eru dýrkeyptustu störf sem orðið hafa til í landinu og vert er að vekja sérstaka athygli á því sem fram kemur hjá KB-banka að rangt sé að gera mikið úr ávinningi stóriðjustefnunnar með tilliti til svokallaðra "afleiddra" starfa því þau hefðu orðið til einnig þótt atvinnuuppbyggingunni hefði verið beint inn í annan farveg.
Ég skora á fjölmiðla að fara í saumana á þessum málum. Það stefnir í að álframleiðsla verði uppistaðan í efnahagsframleiðslu hér á landi, tæplega fimm sinnum meiri en nú er, án þess að Íslendingar fái nokkuð fyrir sinn snúð – og látum við náttúruspjöllin þá liggja á milli hluta, rétt  á meðan þessi þáttur er ræddur. En þarf ekki að ræða hann? Þarf ekki að stöðva fólk sem framkvæmir gegndarlaust  á kostnað skattborgarans án þess að hafa snefil af bisnissviti?