Fara í efni

ASÍ Á HÁLUM ÍS

Félagar mínir í ASÍ hafa gert sig seka um sömu afglöp og iðulega henda hagvísindaspekinga svokallaða: Þeir tala í hagfræðilegum alhæfingum þegar þeir hvetja til "aðhalds í ríkisfjármálum". Í yfirlýsingu ASÍ frá 6. þessa mánaðar, segir m.a.: " ASÍ, OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Íslands, SA og aðrir aðilar sem láta sig efnahagsmál varða hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að stórauka aðhald í ríkisfjármálum. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar kalla að auki á viðbótarniðurskurð eigi þær ekki að valda aukinni þenslu." Hér stillir Alþýðusambandið sér upp með aðilum sem leynt og ljóst róa að því að þrengja að opinberri þjónustu og þröngva henni með sveltistefnu út á markaðstorgið. Þegar þangað er komið hefur hins vegar enginn fyrrgreindra aðila lengur áhyggjur af þensluvaldandi eyðslu. Ekki man ég eftir því að heyra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gagnrýna bandaríska heilbrigðiskerfið, sem er það dýrasta í heiminum. Það er hins vegar að uppistöðu til markaðskerfi og má hinn mikla tilkostnað að verulegu leyti rekja til hárrar arðsemiskröfu fjárfesta, að ógleymdum himinháum lögfræðikostnaði en sem kunnugt er hafa bandarískir sjúklingar fjölmenna stétt lögfræðinga á sínu framfæri. Sömu sögu er að segja um íbúðalánakerfið, svo annað dæmi sé tekið. Þær alþjóðastofnanir sem ASÍ vitnar til og segir að láti "sig efnahagsmál varða" eru uppi með stöðugan áróður gegn félagslegum lausnum í húsnæðismálum.

Íbúðalánasjóðurinn íslenski hefur verið skotspónn innlendra og erlendra talsmanna peningafrjálshyggjunnar um nokkurt skeið. Enda þótt oft hafi komið fram í málflutningi Alþýðusambands Íslands að sambandið styðji félagslegar lausnir er hætt við að með málflutningi af þessu tagi  sé verið að auðvelda niðurrifsöflunum róðurinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD gagnrýna ekki bruðlframkvæmdir ríkisstjórnarinnar eða bankanna sem "hafa verið leystir úr læðingi" eins og sjálfsbirgingslegir eigendur þeirra kalla það, heldur fyrst og fremst almennan félagslegan rekstur velferðarþjónustunnar. Enginn þessara aðila gagnrýndi á sínum tíma fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir ríkisstjórnarinnar, stórfelldustu íhlutun ríkisins í atvinnulíf þjóðarinnar fyrr og síðar og er nú þess valdandi að nauðsynlegt er talið að slá á þenslu. Nei, það er ekki Kárahnjúkavirkjun sem er gagnrýnd heldur er það Íbúðalánasjóður og Landspítalinn sem þessir aðilar staðnæmast við. Stóriðjuframkvæmdirnar eru vissulega þensluvaldandi eins og margoft var bent á af gagnrýnendum stóriðjunnar. Þegar hins vegar grípa á til mótvægisaðgerða verða menn að tala skýrt og segja nákvæmlega hvað eigi að gera og hvar eigi að beita niðurskurðarhníf ef því er að skipta. Einföldun í málflutningi getur í besta falli verið einfeldningsleg. Í versta falli er hún vatn á myllu andstæðinga velferðar- og jafnaðarþjóðfélagsins.