Fara í efni

ÁRNI Á HÁLUM ÍS – OG KOMINN Á HVOLF

Árni Mathiesen fjármálaráðherra tjáði sig á Alþingi í gær um láglaunafólk á hjúkrunarstofnunum. Hann sagði að það væri við þær að sakast að halda fólki á lágu kaupi. Hvaða stofnanir skyldi Árni fjármálaráðherra vera að tala um? Jú, hann er að tala um Hrafnistu, Sunnuhlíð, Grund, Skógarbæ og aðrar sjálfseignarstofnanir sem sinna sjúkum og öldruðum. Þær borgi lægst launaða fólki smánarleg laun, væntanlega af forpokuðum nánasarskap og nirfilshætti. En hvaðan skyldu þessar stofnanir fá sitt rekstrarfé? Það fá þær frá hinu opinbera. Hver skyldi nú vera fjárgæslustjóri hins opinbera og jafnframt sá sem féð skammtar? Það er fjármálaráðherra landsins, Árni nokkur Mathiesen.
Skyldu umræddar stofnanir ekki hugsa fjármálaráðherranum þegjandi þörfina? Þær eru að reyna að gera sitt besta en eru málaðar sem skratti á vegg og það af sjálfum skömmtunarstjóranum, Árna Mathiesen, sem telur sig vera lausan allra mála. Hann telur sig greinilega hafa allt sitt á hreinu, það skipti engu hvað hann segi, kjósendur Sjálfstæðisflokksins komi alltaf til með að skila honum inná þing.

En það er ekki nóg með að ráðherra sem svona talar sé á hálum ís. Fætur hans eru löngu undan honum runnar og hann á hausinn kominn. En hvað skyldu kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, og þar með ábyrgðarmenn ríkisstjórnarinnar, ætla lengi að bjóða okkur hinum upp á þennan mannskap í Stjórnarráðið. Skyldi meirihluti kjósenda áfram ætla að bjóða okkur upp á stjórnmálamenn sem misbjóða þjóðinni með hroka og yfirgangi einsog við nú höfum orðið vitni að í fjármálaráðuneytinu eina ferðina enn?