Fara í efni

ALÞJÓÐLEGT SAMSTARF SAMTAKA LAUNAFÓLKS


Í dag hófst í Vínarborg 28. þing Alþjóðasamtaka starfsmanna í almannaþjónustu, Public Services International, sem um þessar mundir fagna 100 ára afmæli sínu. Þingið mun standa til 28. september nk. Þar eru komnir saman 1500 fulltrúar frá öllum heimshornum;  þar á meðal eru fulltrúar BSRB.

Undanfarna daga hefur verið lögð lokahönd á mikla undirbúningsvinnu  fyrir þingið. Ánægjulegt hefur verið að taka þátt í því starfi og verða vitni að þeim krafti og samheldni sem ríkir á meðal þess fólks sem þarna er mætt fyrir hönd 650 samtaka er hafa á að skipa 20 milljónum félagsmanna í um 150 löndum. Enn og aftur erum við minnt á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og samstöðu sem verkalýðshreyfingin á heimsvísu hefur löngum sótt  kraft og næringu til.

Helstu málefnin

Fjölmörg mál eru á dagskrá þingsins sem PSI mun væntanlega leggja til grundvallar starfi sínu næstu fimm árin. Búist er við að þingið ítreki andstöðu sína gegn einkavæðingu sem er knúin áfram af blindri hugmyndafræði eingöngu en tekur ekkert mið af reynslunni , og er þá sama hvort horft er til heilbrigðisþjónustu, orkumála eða málefna veitustofnana, svo nokkrar meginstoðir í grunnþjónustu samfélagsins séu nefndar. Herferð PSI í þágu öflugrar almannaþjónustu fyrir alla verður áfram haldið. Þá er afar mikilvægt að vinna markvisst að aukinni virðingu fyrir réttindum launafólks og samtökum þess. Einnig hvetur PSI samtök launafólks í hinum ríkari löndum til að sýna áþreifanlegri samstöðu með verkalýðshreyfingunni í þróunarlöndunum með því að styrkja menntun, starfsemi og verkefni til eflingar veikburða samtökum þar. Þetta er verkefni sem PSI hefur þegar lagt talsverða fjármuni til og hvetur nú einstök samtök til að leggjast á árarnar. Hér er því kallað eftir auknu alþjóðlegu samstarfi, öflugra samstarfi til gagnkvæms ávinnings – einsog reyndar alþjóðahyggja verkalýðshreyfingarinnar hefur jafnan verið reist á - þar sem hver lærir af öðrum með því að deila hugmyndum og reynslu í daglegu starfi. Nánar má sjá um helstu mál þingsins HÉR og HÉR.

Sameiginleg barátta

Sem fyrr segir eiga Alþjóðasamtök starfsmanna í almannaþjómustu, PSI, að baki hundrað ára sögu. Aldarafmælið nú minnir okkur á að starfsemi samtaka launafólks hefur frá upphafi byggst á alþjóðlegum grunni samvinnu og samstöðu. Sá grunnur er jafn mikilvægur nú sem fyrr. Verkalýðshreyfingin um heim allan byggir á sameiginlegum grunngildum jafnréttis, friðar og bræðralags. Hún hefur frá öndverðu sótt fram í þágu réttlætis og  mannréttinda. Vissulega hafa samfélög heimsins víðast hvar tekið miklum breytingum síðustu öldina og þar var verkalýðshreyfingin mikið mótunarafl, svo fremi hún væri frjáls og sterk. Og enn eru grundvallarhugsjónir samtaka launafólks hinar sömu – þær eru í þágu fjöldans, og svo mun verða um ókomna tíð. Baráttunni fyrir auknum jöfnuði, réttlæti, virðingu fyrir sérhverjum einstaklingi og grundvallarmannréttindum lýkur aldrei.