Fara í efni

Alþjóðleg hugmyndasmiðja á Íslandi

Íslenskir hugvísindamenn og fræðimenn sýndu það um helgina svo ekki verður um villst að þeir hafa burði til að gera Ísland að alþjóðlegri hugmyndasmiðju. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef rétt er að málum staðið getur íslenska háskólasamfélagið orðið eftirsóknarverður vettvangur fyrir fræðimenn og stjórnmálamenn víðs vegar að úr heiminum. Allir sem þekkja til ráðstefnuhalds vita að Ísland hefur mikið aðdráttarafl. Og þegar íslensk náttúra og íslenskt hugvit leggja saman er kominn kokteill sem margir munu vilja bergja á.

Það léku frískir vindar um húsakynni Háskóla Íslands um síðustu helgi þegar þar var efnt til alþjóðlegrar ráðstefnu um hnattvæðingu. Erlendir fyrirlesarar, sem standa framarlega á heimsvísu, létu ljós sitt skína og fjöldi Íslendinga sem er við kennslu, fræðastörf eða nám innan lands og utan fluttu erindi eða tóku á annan hátt þátt í málstofum. Ráðstefnan var öllum opin og var undirritaður einn af fulltrúum almennings sem sóttu hana. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Í upphafi ráðstefnunnar fluttu tveir prófessorar erindi og fóru á kostum. Þetta voru þeir Zygmunt Bauman, heimskunnur fræðimaður á sviði félagsvísinda sem nú er í senn heiðursprófessor við Leeds-háskóla í Englandi og háskólann í Varsjá í Póllandi og Elmar Altvater, hagfræðingur og félagsfræðingur, nú  prófessor við Frjálsa háskólann í Berlín.

Bauman flaug hátt í fyrirlestri sínum án efa til þess að fá víða sýn á heiminn. Að fyrirlestrinum loknum blasti við mönnum önnur heimssýn en við eigum að venjast; sýn sem sannast sagna var nokkuð trúverðug og sannfærandi þótt margt væri nú komið á hvolf sem áður virtist standa upprétt. Mér er ekki grunlaust um að farið hafi um margan manninn þegar  landið sem við stöndum á hafði nánast verið tekið undan fótum okkar því samkvæmt skilningi Baumans er mikilvægi lands og landamæra á hverfanda hveli að ekki sé nú minnst á þjóðríkið; allt þetta væri breytingum undirorpið í hnattvæddum heimi nýrra valdakerfa. Og til okkar sem erum áhugasöm um lýðræðið var boðskapurinn ekki beinlínis uppörvandi: Það tjóar lítt að horfa til stjórnmálanna því völd og stjórnmál væru skilin að skiptum. Ég minntist þess að hafa lesið grein eftir Zygmunt Bauman í bók sem ReykjavíkurAkademían gaf út fyrir tveimur árum og nefnist Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar. Þar fjallar Bauman um sama efni og skýrir hvers vegna valdið sé að verða óháðara stjórnmálunum. Í reynd hafi stjórnmálin engan annan farveg en ríkið, segir hann, en ríkið og fullveldi þess sé nú sem fyrr skilgreint með rýmishugtökum. “Nú á dögum er valdið hnattrænt og óstaðbundið: Stjórnmál eru hins vegar svæðis- og átthagabundin.”  (Sjá fyrrnefnt rit bls. 44).

Eru stjórnmálamenn á valdi örlaganna?

Ekki skrifa ég að öllu leyti upp á þessar skilgreiningar Baumans. Ég held hins vegar að margir stjórnmálamenn taki þeim feginsamlega því með þessu móti eru þeir firrtir ábyrgð á eigin verkum. Það er verk stjórnmálamanna að fjölþjóðafjármagninu, auðvaldinu, sem svo var réttilega lýst fyrr á tímum, er að takast að sölsa undir sig almannaeigur um víða veröld þótt þessir sömu stjórnmálamenn vilji margir skáka í því skjóli að þeir komi þar hvergi nærri; þeir séu á valdi örlaganna. Staðreyndin er engu að síður sú, að það eru fulltrúar þjóðríkjanna sem eru að semja á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um markaðsvæðingu þjónustugeirans – hugsanlega einnig almannaþjónustunnar. Og það eru stjórnmálamenn – fulltrúar þjóðríkjanna – sem stýra Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og leggja blessun sína yfir að þessum stofnunum sé beitt í þágu alþjóðafjármagnsins. Fulltrúar Íslands mæta reglulega og samþykkja þessa stefnu. Þeim finnst hins vegar ágætt að þetta fari ekki mjög hátt því þessi stefna nýtur ekki stuðnings almennings. Og það er líka ástæðan fyrir því að samningar á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fara leynt. Þeir þola ekki dagsljósið og stjórnmálamennirnir sem eru ábyrgir fyrir þeim yrðu keyrðir í kaf ef allt færi fram fyrir opnum tjöldum. Sú spurning gerist því áleitin í mínum huga hvort rétt sé að segja að vald og stjórnmál séu skilin að skiptum, hvort ekki væri nær að staðhæfa að lýðræði og stjórnmál væru skilin að skiptum eða öllu heldur hvort stjórnmálamenn séu skildir að skiptum við umbjóðendur sína. Hvað um það, allt eru þetta mannanna verk og þegar allt kemur til alls þá ætti einmitt sú staðreynd að vekja með okkur bjartsýni.

Þegar Margrét Thatcher réðist í að markaðsvæða Bretland var hennar fyrsta verk að reyna að eyðileggja alla farvegi lýðræðisins og var verkalýðshreyfingin fyrsti skotspónn hennar. Alþjóðafjármagnið vill að sjálfsögðu verkalýðshreyfinguna feiga en óskadraumur þess er heimur án almannastjórnar, án sveitarfélaga, án þjóðríkja, heimur þar sem merkustu ákvarðanir hvers og eins eru teknar við búðarborðið. Spurningin sem snýr að okkur verður þá sú hvort við ætlum að láta þetta gerast. Ég hefði haldið ekki. Þvert á móti er verkefnið nú að styrkja hin lýðræðislegu form, hvort sem það er sveitarstjórnin, þjóðríkið, lýðræðislegur fjölþjóðvettvangur, verkalýðshreyfing eða önnur almannasamtök.

Alþjóðlegt brask veldur bankahruni

Hinn meginfyrirlesarinn Elmar Altvater flaug ekki eins hátt enda uppteknari af raunverulegum vandamálum sem heimurinn stendur frammi fyrir. Hann nálgaðist það sem virtist þyrnir í auga Baumans, að ræða nauðsyn þess að finna lausnir. Í málstofu á öðrum degi ráðstefnunnar flutti Altvater stórmerkan fyrirlestur þar sem hann rakti efnahagslegar og félagslegar afleiðingar hnattvæðingarinnar og þá ekki síst þegar hinir ríku fjárfestar í okkar heimshluta hættu að festa auð sinn í framleiðslu en settu traust sitt á að afla gróða með lánveitingabraski og tilheyrandi okurvöxtum. Þegar það hefur lengi gerst sagði Altvater, að arður af slíku fjármagni er langt umfram raunverulega verðmætasköpun, þá þarf eitthvað undan að láta. Það var sláandi þegar Altvater brá upp töflum ættuðum úr talnagögnum Alþjóðabankans sem sýndu efnahagslegar afleiðingar  bankahruns sem orðið hefur víðsvegar um skuldsettan þriðjaheiminn á síðasta áratug, svo sem í Indónesíu, Rússalandi, Tælandi, Argentínu og víðar. Tilkostnaðurinn var samkvæmt þessum tölum á bilinu 20 til 50% af vergri landsframleiðslu þessara þjóða. Þjóðinar urðu fátækari sem þessu nemur við hrunið! Að þessu þarf að hyggja sagði Elmar Altvater.

Reyndar tóku margir fyrirlesarar upp þennan sama þráð svo sem Þorgerður Einarsdóttir félagsfræðingur sem fjallaði á mjög markvissan og áhugavekjandi hátt um afleiðingar hnattvæðingar fyrir konur og mikilvægi þess að koma lagalegum og siðferðilegum böndum á fjölþjóðafyrirtæki. Því miður gafst ekki tóm til að fylgjast með öllu því sem fram fór á ráðstefnunni því málstofurnar fóru margar fram samhliða en ég heyrði þó mörg athyglisverð erindi svo sem Þorvaldar Gylfasonar þar sem fram kom að þegar grannt væri að gáð stæðu smáríki stórum ríkjum ekki að baki í efnahagslegu tilliti.

Þá var skemmtilegt að hlýða á þau Baldur Þórhallsson, Lilju Mósesdóttur og bandaríska stjórnmálafræðinginn Christine Ingebritsen fjalla um sitthvað sem lýtur að Norðurlöndum og Evrópusambandinu. Ekki var ég sammála þeim öllum um allt en umræðan var mikilvæg. Þannig var t.d. áhugavert að heyra útleggingar Christine Ingebritsen á hinni norrænu rödd í heimspólitíkinni, hve jákvæð hún hefði jafnan verið. Í umræðunni sem fylgdi var leitað skýringa á því að minna hefði heyrst í hinni “norrænu rödd” í seinni tíð og var bent á að hún yrði hljóðlátari eftir því sem fleiri Norðurlandanna gengju í Evrópusambandið. Þar á bæ yrðu menn að vera harla eintóna því í Evrópusambandinu er aðeins til ein skoðun, ein rödd þegar utanríkismálin eru annars vegar.

Opin umræða nauðsynleg

Ríkisútvarpið rak endahnút á þessa ráðstefnu með þætti Ævars Kjartanssonar á sunnudag. Sennilega er rangt að nota þetta orðalag því með þættinum var umræðunni ekki lokað. Þvert á móti var hún gædd lífi og fleytt áfram út í þjóðfélagið. Ævar og Ríkisútvarpið eiga þakkir skilið. Ég hafði lúmskt gaman af því í lok þáttarins þegar menn höfðu komist að þeirri niðurstöðu að alþjóðafjármagnið væri að ýta almannavaldi til hliðar um heiminn allan. Þá spurði Ævar Kjartansson hvort það gæti verið að menn ættu að fara dusta rykið af kenningum Karls gamla Marx, hvort það hefði ekki einmitt verið fyrir þessu sem hann spáði. Ekki gáfu menn mikið út á það. En lokaorðin í þættinum voru uppörvandi. Er hnattvæðingin til góðs var spurt. Já var svarið, en þá verða menn líka að vilja láta hana verða til góðs og þá þurfa menn að beita sér í þá veru.

Annars er meginástæða þess að ég sendi þessar línur frá mér sú, að mér finnst ástæða til að þakka fyrir þetta frábæra framtak. Ráðstefnan var aðstandendum hennar og skipuleggjendum til mikils sóma. Fyrir okkur sem komum utan af götunni var það uppörvandi reynsla að hlýða á fræðimenn okkar á sviði hugvísindanna; heimspekinga, bókmenntafræðinga, félagsfræðinga, málfræðinga og sagnfræðinga segja frá rannsóknum sínum og hugleiðingum. Í þessu fólki býr mikill mannauður; auður sem við hljótum að vera þakklát fyrir að fá að njóta góðs af og mín tillaga er sú að við hugum að því í fullri alvöru að styðja miklu betur við bakið á íslensku hugvísindafólki en nú er gert. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur burði til að vinna mikið og gott uppbyggingastarf og ef vel er á málum haldið, gera Ísland að alþjóðlegri hugmyndasmiðju.