Fara í efni

ALÞJÓÐASAMTÖK LAUNAFÓLKS VILJA ALÞJÓÐAVÆÐINGU Á RÉTTLÁTUM FORSENDUM

 

Í Fréttablaðinu í gær furða menn sig á áherslum BSRB varðandi Doha-viðræðurnar svokölluðu, sem fram fara á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Þykir blaðamanni þessar áherslur vera vinstri sinnaðar og er gefið í skyn að hér sé um að kenna stjórnmálaskoðunum mínum sem formanns BSRB. Hér er hins vegar á það að líta að BSRB er samstiga samtökum starfsfólks í almannaþjónustu um heim allan. Yfirlýsingar BSRB að undanförnu eru samhljóða samþykktum PSI, Alþjóðasambands starfsfólks í almannaþjónustu og settar fram að áeggjan þessara samtaka.

Út á hvað ganga þessar ályktanir samtaka launafólks? Tvennt er gagnrýnt. Í fyrsta lagi sú leynd sem hvílt hefur yfir samningaviðræðunum og ólýðræðsileg vinnubrögð. Almenningur hefur ekki fengið upplýsingar um tilboð og gagntilboð sem aðildarríki WTO hafa verið að skiptast á sín í milli. BSRB hefur af alefli beitt sér fyrir því að opna þessa umræðu og færa hana út á lýðræðislegan og upplýstan vettvang. Ég gef mér að þeir starfsmenn utanríkisþjónustunnar sem hafa með þessi mál að gera myndu staðfesta málefnalega og vel ígrundaða aðkomu BSRB að þessum málum.

Í öðru lagi eru samningsforsendurnar gagnrýndar. Heildarsamtök launafólks í almannaþjónustu telja að kröfur þróaðra iðnríkja á hendur fátækustu ríkjum heimsins um að þau opni hagkerfi sín fyrir einkavæðingu ósanngjarnar og  óraunhæfar ef menn vilja hafa hagsmuni hinna snauðu að leiðarljós. Markaðsvæðingin hefur haft í för með sér að fjölþjóðlegir auðhringar hafa náð á sitt vald mikilvægri starfsemi í þessum ríkjum en áhugi þessara fjölþjóðlegu risa beinist að sjálfsögðu einvörðungu að því sem gefur eitthvað í aðra hönd. Það eru þessi skilyrði alþjóðlegra stofnana á borð við WTO sem fara fyrir brjóstið á fulltrúum fátækra þróunarríkja. 

 Fréttablaðið gerir að sínum orð Ýmis Arnar Finnbogasonar, eins af pistlahöfundum deiglunnar.com, sem er vefrit frjálshyggjumanna þar sem hann beinir gagnrýni að BSRB. Ýmir Örn telur BSRB fara villur vegar í málflutningi sínum: Alþjóðavæðingin hafi verið til góðs og að vöxtur í fátækum ríkjum sé minnstur þar sem þátttaka í alþjóðaviðskiptum vaxi hvað minnst. Hann tekur í grein sinni, sem er ágætlega málefnaleg, samanburð á Suður-Kóreu og Ghana sem hafi verið með svipaðar þjóðartekjur á mann 1970 en nú skilji himinn og haf þau að: Suður-Kórea sem hafi opnað hagkerfi sitt blómstri en lokunarsinnar í Ghana hafi valdið því að þar sé allt á vonarvöl. Auðvitað mætti leggjast í samanburðarfræðin hvað þetta snertir. Það mætti til dæmis fara í saumana á fyrirmyndarnemanda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, Argentínu sem einkavæddi og seldi allt sem hugsast gat samkvæmt forskrift þessara stofnana en vaknaði síðan við vondan draum nokkrum árum síðar þegar efnahags- og fjármálakerfi landsins hrundi.

Hér á síðunni hefur mikið verið fjallað um þetta málefni og tíndur til fjöldi dæma um afleiðingar markaðs- og einkavæðingar á heimsvísu. Verkalýðssamtök víðs vegar um heiminn hafa kappkostað að rannsaka afleiðingar þessarar stefnu og komist að annarri niðurstöðu en þeirri sem Ýmir Örn Finnbogason er talsmaður fyrir. Auðvitað er verið að takast á um hagsmuni. Verkalýðshreyfingin vill ekki veikja undirstöður sem velferðarsamfélög 20. aldarinnar voru reist á og minnir jafnframt á að þeim samfélögum sem byggja á jöfnuði hefur, þegar allt kemur til alls, vegnað best í efnahagslegu tilliti. Iðnríki okkar heimshluta beittu öll niðurgreiðslum og verndartollum þegar þau voru að greiða götu ungra atvinnugreina. Þróunarríkjunum finnst skjóta skökku við sú óbilgirni sem þeim er sýnd hvað varðar skilyrði fyrir aðgangi að mörkuðum iðnríkjanna.

Það er hins vegar ljóst að ágreiningurinn stendur ekki aðeins um hagsmuni heldur um hverjar eru staðreyndir þessara mála. PSI og þar með einnig BSRB leggja til að Doha viðræðuferlið verði stöðvað, rætt verði um breyttar samningsforsendur, samningarnir gerðir opnari og þar með lýðræðislegri og síðast en ekki síst að aðiljar kanni  með skipulegum og markvissum hætti hver reynslan hefur verið af samningum á vegum WTO þau tíu ár sem stofnunin hefur verið við lýði. Þetta þykja mér vera eðlilegar og sanngjarnar kröfur. Skyldu pennarnir á deiglunni.com geta fallist á að rannsókn á samningunum og afleiðingum þeirra sé forsenda þess að menn ræðist við málefnalega?

Ég tók reyndar þátt í mjög skemmtilegri umræðu um þetta efni með ágætum deiglupenna, Halldóri Benjamín Þorbergssyni, í síðustu viku á fundi sem Samband ungra sjálfstæðismanna, SUS, boðaði til. Umræðuefnið var einmitt Ísland og alþjóðavæðingin. Halldór Benjamín hefur nýlega sent frá sér skýrslu sem ber heitið Ísland og alþjóðaviðskipti sem hann gerði ásamt Tryggva Þór Herbertssyni og Rósu Björk Sveinsdóttur. Skýrslan hefur verið talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Hún er pólitísk í eðli sínu, „skrifuð til að tíunda kosti alþjóðaviðskipta...“, svo vitnað sé beint í skýrsluhöfunda. Ég mun víkja nánar að þessari skýrslu og aðstandendum hennar í pistli hér á síðunni á morgun.

Þótt skýrslan sé að mörgu leyti gölluð vegna þess hve þröngt sjónarhornið er þá breytir það ekki því að fyrrnefndur SUS fundur var prýðilegur í hvívetna, vel og málefnalega að honum staðið og viðmælandi minn Halldór Benjamín var allt í senn skemmtilegur, málefnalegur og rökfastur. Það eina sem á skorti var góður málstaður að verja. En það er önnur saga.

HÉR er grein með tilvísun til BSRB
HÉR er slóð á grein um tengt efni
HÉR er grein Ýmis Arnar