Fara í efni

ALÞJÓÐAHEILBRIGÐISÞINGIÐ Í GENF

Fyrri hluta vikunnar sótti ég ársþing Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, World Health Organization (WHO), í Genf í Sviss. Þetta var 62. þing WHO. Að mörgu leyti var lærdómsríkt að sitja þingið. Það yljaði að heyra vel talað um Íslendinga sem hafa látið að sér kveða á vettvangi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, þá Davíð Á. Gunnarson, sem um skeið var formaður framkvæmdastjórnar WHO og Guðjón Magnússon, sem um árabil var einn af framkvæmdastjórum Evrópuskrifstofu WHO. Fleiri hafa látið að sér kveða, þar á meðal ýmsir núverandi starfsmenn Heilbrigðisráðneytisins.

Kröftugir landar

Einn þeirra, Sveinn Magnússon, yfirlæknir ráðuneytisins, var með mér í för ásamt Berglindi Ásgeirsdóttur, ráðuneytissstjóra, en hún er vel sjóuð í alþjóðasamstarfi, fyrrum sendiherra og framkvæmdastjóri OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar.
Í undirbúningi fyrir þingið naut ég aðstoðar sérfræðings ráðuneytisins, Ásthildar Knútsdóttir, sem um skeið starfaði hjá íslensku sendinefndinni í Genf og sá þá sérstaklega um málefni WHO. Ég naut þess að vera búinn til fararinnar af fagfólki!

Á almennum nótum og sértækari

Ég flutti ræðu fyrir Íslands hönd sem var blanda af almennum áherslum Íslands og svo  sjónarmiðum nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi (sbr.http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/3049 )
Ég var síðan ræðumaður á umræðufundi sem Public Services International og Oxfam stóðu sameiginlega að. Þar voru ræðumenn tveir auk mín, annars vegar frá Oxfam og hins vegar frá Braslíu. Við fjölluðm öll um heilbrigðiskerfi á tímum efnahagsþrenginga. Ég hafði úr nógu að moða og hélt ræðu þar sem ég meðal annars kom inn á áhrif nýfrjálshyggjunnar á Ísland og heiminn almennt undanfarna þrjá áratugi. Ræðuna hafði ég ekki skrifaða þannig að hún mun aldrei birtast hér á síðunni né annars staðar.

Helmingi meira í áróður og kynningu en rannsóknir

Á meðal þess sem ég vék að í mínu máli var mikilvægi þess að ná lyfjakostnaði niður. Lyfjarisranir héldu því iðulega fram að rannsóknarkostnaður við gerð lyfja væri svo mikill að þeir væru nauðbeygðir að selja dýrt. Eflaust er rannsóknarkostnaður mikill. Ekki ætla ég að gera lítið úr því. Hitt þykir mér ekki síður merkilegt sem haldið er fram í grein í Wall Street Journal nýverið að lyfjarisarnir verðu 60 milljörðum Bandaríkjadala í áróður og kynningu eða tvöfalt meira en þeir verja í rannsóknir ("...$ 60 billion a year marketing their products, twice what they spend on research and development according to a study published in PLoS, a journal of the Public Library of Science.")  Vísaði ég m.a. í þetta í erindi mínu.
Á þessum umræðufundi voru ýmsir forkólfar alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar, þar á meðal bandarískir sem ég átti góðar samræður við eftir fundinn. Þeir eru nátengdir Obama stjórninni í Washington og ekki síðri áhugamenn um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en ég. Ákváðum við að hafa framhald á okkar samskiptum.

Meira frá Trump en Bandaríkjastjórn

Ekki er ég maðurinn til að dæma hverju þetta þing skilaði. Ætli það hafi ekki verið áfangi í seigfljótandi straumi alþjóðlegra samskipta. Menn koma saman skiptast á upplýsingum, kynni takast með fólki. Hið jákvæða er að vitundin um að eina leiðin fyrir mannkynið út úr þrengingum og erfiðleikum, sem stór hluti heimsbyggðarinnar á óneitanlega við að stríða, er að fólk vinni saman. Þegar dómarar í Old Baily fangelsinu í London hrundu niður einhvern tímann um miðbik 19. aldarinnar er taugaveiki geisaði innan múranna, rann það upp fyrir bresku yfirstéttinni að heilbrigðismál hinna snauðu kæmu einnig henni við. Hvort það er af sjálfsupphafningu eða einskærri góðmennsku og vorkunsemi að Bill og Melinda Gates eiga margfalt stærri hlut í frjálsum framlögum til WHO en sjálf Bandaríkjastjórn veit ég ekki. Sjálfur gæti ég vel hugsað mér að heldur minna væri gefið úr vösum milljarðamæringa og ríkra iðnríkja ef dregið væri úr arðráni hinna ríku. Margoft hefur verið á það bent, m.a. í skrifum á þessari síðu (sjá t.d. https://www.ogmundur.is/is/greinar/thridji-heimurinn-og-vid ) að ef hinir ríku stælu minna af hinum fátæku væri heimsvandinn viðráðanlegri.