Fara í efni

ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN, RÁÐGJÖFIN OG EIN LÍTIL SPURNING

Í dag er það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, í gær var það OECD og á morgun Alþjóðabankinn. Þeir koma reglulega í heimsókn "sérfræðingar" þessara stofnana til þess að setja okkur lífsreglurnar. Það sem þessir aðilar eiga sameiginlegt er að ráðleggja allir á einn veg: Samdrátt í ríkisumsvifum, einkavæðingu og aðhald í kjarasamningum við almennt launafólk.

Í fréttum í dag kom fram að hér hefði verið á ferð fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og viti menn, hann vildi samdrátt í ríkisútgjöldum, leggja Íbúðalánasjóð niður hið bráðasta og láta stíga á bremsurnar gagnvart launafólki. Reyndar brá hann út af venjunni að einu leyti. Fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðisins vildi láta fresta skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Ástæðan var að sjálfsögðu þensluvaldandi stóriðjuframkvæmdir á vegum ríkisstjórnarinnar. Þegar ég heyrði fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dósera á þennan hátt í morgunfréttum vaknaði ein lítil en ágeng spurning í mínum huga: Hvort aldrei skyldi hafa komið til greina að ráðleggja ríkisstjórninni að draga úr stóðriðjuframkvæmdum þannig að ekki yrði nauðsynlegt að ráðleggja niðurskurð í samfélagsþjónustunni til að stuðla að stöðugleika í verðlagi?

En þá mundi ég að "sérfræðingarnir", sem fara um heiminn með nafnspjöld Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans og OECD upp á vasann, eru fyrst og fremst pólitíkusar. Eflaust hafa þeir háskólagráðu í hagfræði. En þeirra sérfræði er pólitík. Við það væri í sjálfu sér ekkert að athuga ef þessir virðulegu erindrekar alþjóðafjármagnsins væru kynntir til sögunnar sem slíkir. Óskandi væri að næst þegar "sérfræðingar" koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ráðleggja Íslendingum um stjórn efnahagsmála verði þeir kynntir í fjölmiðlum undir réttum formerkjum. Þá kunna ráðleggingar þeirra, til dæmis um að leggja niður Íbúðalánasjóð að fá annan hljóm.