Fara í efni

ALRÆÐI EÐA LÝÐRÆÐI?

FB logo
FB logo

Birtist í Fréttablaðinu 11.06.09.
Minn gamli félagi á Alþingi, Kristinn H. Gunnarsson, er ekki hrifinn af því að ég vilji breyta lögum um Seðlabanka Íslands og færa hann undir lýðræðislegt almannavald.
Að undanförnu hef ég gagnrýnt Seðlabankann fyrir að halda uppi vaxtastigi sem þrengir hættulega að skuldsettum heimilum og fyrirtækjum. Hef ég sagt að Seðlabankinn eigi að þjóna almannahag, ekki einvörðungu hagsmunum fjármagnseigenda.
Á heimasíðu sinni segir Kristinn að ég sé heldur betur kominn í hring því á sínum tíma hafi ég gagnrýnt Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, fyrir að veitast að stofnunum sem sýndu sjálfstæði; stofnunum á borð viðÞjóðhagsstofnun, sem beinlínis hafi verið lögð niður þegar hún hafi óhlýðnast framkvæmdavaldinu. Er Kristinn búinn að hafa upp á ræðum sem ég flutti á Alþingi þar sem ég gagnrýndi þetta ráðslag.
Kristinn þyrfti að leggjast í meiri rannsóknir ef hann vildi fella sanngjarna dóma um minn málflutning. Oft gagnrýndi ég Þjóðhagsstofnunun fyrir að sýna framkvæmdavaldinu of mikla fylgisspekt, ekki síst þegar telja átti kjarkinn úr launaþjóðinni í aðdraganda kjarasamninga. Ég hafði með öðrum orðum, gagnrýnt Þjóðhagsstofnun fyrir að rísa ekki undir því hlutverki sínu að gefa óhlutdrægar og raunsannar upplýsingar. Þetta var hennar hlutverk.
Seðlabankinn hefur vissulega það hlutverk með höndum að veita upplýsingar en hann er jafnframt framkvæmdaaðili. Að þessu leyti er hann frábrugðinn Þjóðhagsstofnun í grundvallaratriðum. Hann handstýrir vaxtastiginu í landinu! Vextir eru sem kunnugt er beintengdir inn í hagsmuni þeirra sem eiga fjármagn og hinna sem eru skuldsettir. Þegar í ljós kemur að hagsmunir hinna skuldsettu eru fyrir borð bornir að flestra manna dómi þá þurfum við sem samfélag að geta gripið í taumana. Það er kallað lýðræði. Er ekki komið nóg af alræði peningavaldsins?