Fara í efni

ALMA REIKNAR, STEFÁN SKRIFAR OG EGILL SPYR


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 13/14.02.21.
Samtök áhugafólks um spilafíkn eiga óskipta aðdáun mína. Þau standa nú fyrir gríðarlega öflugri vitundarvakningu um skaðsemi spilafíknar, hvernig hún hafi rústað lífi fjömargra einstaklinga, sundrað fjölskyldum og valdið langvarandi vanlíðan og ógæfu.
Og varla að undra. Alma Hafsteins, formaður samtakanna, hefur kynnt þjóðinni útreikninga sem sýna að á hverjum klukkutíma tapa spilafíklar 434.063 krónum í spilakössum, það er að frádregnum vinningum. Og þegar þetta er margfaldað með klukkustundunum í heilu ári nemur þessi upphæð 3.721.000.000 krónum, þremur milljörðum, sjö hundruð tuttugu og einni milljón króna. Það eru miklir peningar þegar haft er í huga hve agnarsmátt hlutfall þjóðarinnar stundar þessar vélar, en samkvæmt ítarlegri könnun Gallup síðastliðið vor fara fáir í kassana. Af aðspurðum fóru aðeins 0.3% oftar en 11 sinnum á ári. En þeir fóru líka oft og töpuðu miklu.

Rekstaraðliar spilakassanna höfðu hins vegar allt sitt á þurru, töpuðu engu nema ef vera skyldi ærunni.
Ekki kom æran þó til tals í spjalli Egils Helgasonar í bókaþætti hans, Kiljunni, í Sjónvapinu í vikunni þegar hann rakti garnirnar úr Stefáni Pálssyni, sagnfræðingi, sem kynnti nýja bók sína um sögu Happdrættis Háskóla Íslands.
Þar var vissulega, og réttilega, vísað til happdrættisins í árdaga þegar þjóðin sameinaðist um að kaupa miða til að styrkja uppbyggingu þjóðarháskólans. Sjálfur minnist ég þessa vel og er svo um marga enn að keyptir er happdrættismiðar gagngert til að stykja gott málefni, hvort sem er Haskóla Íslands, SÍBS, Sjálfsbjörg eða önnur þjóðþrifasamtök.

Inn í spilasali stígur hins vegar ENGINN til að styrkja gott málefni. Sumir rata þangað inn af rælni, aðrir forvitni en flestir vegna fíknar sinnar, sem hjá allt of mörgum gerist fyrr en varir sjúkleg í hæsta máta.
Á þessa fíkn kunna framleiðendur kassanna að spila. Af vísindalegri nákvæmni – já vísindalegri, því að baki liggja miklar rannsóknir – eru hannaðir kassar sem tala til spilarans og æsa upp í honum langanir þar til hann missir stjórn á gjörðum sínum. Heitin á svæsnustu búllunum, sem Happdrætti Háskóla Íslands rekur, eru Gullnáman og Háspenna. Nafngiftirnar segja sitt. “Nú eru 13 milljónir í pottinum”, er sagt undir blikkandi auglýsingu um “slot machines” Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands!
Að líkja þessari ósiðlegu starfsemi við gamla Happdrætti Háskóla Íslands, er varla góð sagnfræði og undarlegt að fjölmiðlamaður horfi í þögn fram hjá þessum staðreyndum sem augljósar mega vera.

Hugaður einstkalingar, Guðlaugur Karlsson, reyndi að fara með mál sitt fyrir íslenska dómstóla, eftir að hann tapaði eignum sínum og heilsu, og síðan til Mannréttindadómstóls Evrópu, en var vísað frá. Það hygg ég að sé tímabundin afstaða dómstóla. Ásetningur rekstrarðaila spilakassa er nefnilega svo augljóslega til ills, að hafa fé af fólki, sem ekki er sjálfrátt gerða sinna, að varla getur verið að standist grundvallarlög.
“Einhvers staðar er réttur minn”, sagði við mig magnaður maður, verktaki sem tapað hafði aleigunni, áður en hann vissi af, sökum spilafíknar maka síns. Hann vann með sín jarðvinnslutæki dag og nótt en hún sá um bókhaldið þar til hún missti stjórnina. Aldrei heyrði ég þennan vin minn hallmæla konu sinni. Hann gerði sér grein fyrir því að hún hafði ekki stjórn á gjörðum sínum. En þungt var í honum gagnvart Rauða krossinum og öðrum stofnunum og samtökum sem hagnast höfðu á fíkn hennar.

SÁÁ á heiður skilinn fyrir að hafa stigið út úr þessum rekstri. Við, sem viljum Rauða krossinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Háskóla Íslands allt hið besta, bíðum þess að hið sama gerist á þeim bæjum.

Og í dagblöðunum er nú spurt hvernig alþingismenn ætli að axla sína ábyrgð. Spilavítin eru sannarlega starfrækt á ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis.
Beðið er svars.