Fara í efni

ALLT ILLT SEM HENDIR MIG ER ÖÐRUM AÐ KENNA


Birtist i helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.01.20.
Eða hvað? Lögfræðingum er tamt að segja okkur að ef eitthvað bjátar á í lífinu eða ef eitthvað illt hendir, þá séu meiri líkur en minni á að finna megi sök hjá einhverjum öðrum en okkur sjálfum á því hve illa fór. Þeir skuli aðstoða við að finna sökudólginn og krefja hann um skaðabætur – að sjálfsögðu gegn vægri þóknun eða ekki mjög vægri þóknun ef “hinn seki” er sæmilega loðinn um lófana.

Svona er þetta nánast eðli máls samkvæmt ef starfið gengur út á að hala inn bætur fyrir fólk – og sjálfan sig í leiðinni. Eflaust telja einhverjir að þetta færi samfélagið í átt til réttlætis. Og eflaust er það oft svo. En er það einhlítt?

Ég veit ekki hvað honum fannst sjálfum, manninum sem rann til í hundaskít á sögufrægum stað í Færeyjum fyrir nokkrum árum og fór með þessar ófarir sínar fyrir dómstóla. Lögfræðingurinn sem nálgaðist viðkomandi mann hafði ekki velkst í minnsta vafa um að hann væri fórnarlamb, eigandi hundsins sem skitið hafði á stéttina þar sem hann hafði misst fótanna hlyti að vera ábyrgur nema ef vera skyldi staðarhaldarinn eða þá verkamaðurinn sem átti að hreinsa stéttina. Hafði kannski gleymst að setja það í verklýsingu hans eða skjóta inn ákvæði í reglugerð um að svo skyldi gert; lá ábyrgðin ef til vill hjá reglugerðasmiðum stjórnsýslunnar? Það gefur auga leið að það kostar vinnu – faglega að sjálfsögðu með gleraugum lögfræðings – að finna hvar ábyrgðin liggur hverju sinni. En einhvers staðar liggur hún – annars staðar en hjá sjálfum mér. Svo er mér alla vega sagt.

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég eindregið á því að stundum sé þannig gert á hlut fólks að réttlætiskennd okkar flestra segi okkur að til þurfi að koma skaðabætur. Dæmi um það eru sanngirnisbætur og miskabætur vegna ranglátrar og illrar meðferðar eða þegar mistök verða vegna vanrækslu í heilbrigðiskerfi eða fjármálakerfi sem valda ótvíræðum skaða. Þá þarf að gera viðkomandi fyrirtæki eða stofnun ábyrg og þá hugsanlega með skaðabótum. Önnur dæmi um réttlætanlegar skaðabætur mætti nefna.

Ég leyfi mér hins vegar að vara við því að peningalöngun lögfræðinga verði hér vegvísir okkar í leit að réttlæti.

Aldraður maður fær hjartastopp í köfun eða í fjallgöngu, sem hann sjállfur ákvað að takast á hendur, eða einstaklingur fýkur um koll í vindhviðu á fjöllum, þá vandast málið. Það liggur heldur ekki í augum uppi að mínu mati hvar ábyrgðin liggur þegar ferðafyrirtæki sem verður fyrir þeirri ógæfu að tímaáætlanir standast ekki vegna þess að hið ótrúlega gerist að nánast allur hinn fullkomni tækjabúnaður sem fyrirtækið býr yfir og þar með varabúnaður bregst nær samtímis og fyrir vikið tekst ekki að forða fólki (viðskiptavinum) frá hremmingum af völdum veðurguðanna.

Hér er að sjálfsögðu vísað til nýlegs slyss á Langjökli. Betur fór en á horfðist, alla vega héldu allir lífi, og ber þar að þakka starfi okkar frábæru björgunarsveita, löggæslu og hjúkrunarfólks – og starfsmönnum ferðafyrirtækisins sem gerðu sitt besta við gríðarlega erfiðar aðstæður.

Þungbærasta stund þeirra síðastnefndu var án efa á milli vonarinnar og óttans um afdrif hópsins sem var á þeirra vegum og þá sú nagandi spurning hvort þeir hafi ekki gætt tilætlaðrar varfærni, sem þá væri óafsakanlegt. En ég get mér jafnframt til að ekki síður erfitt hafi reynst að mæta fordæmingu og fordómum í samfélaginu í kjölfarið. Fordómar er ágætt orð um dóma sem felldir eru áður en öll kurl eru komin til grafar.

Svo komu fréttirnar um skaðabótakröfur, að fagfólkið væri mætt til leiks.

Gott og vel, hver og einn ákveður farveginn sem hann vill leita í. En mín tillaga er sú að við reynum eins og kostur er að styðjast við eigin dómgreind og útvista henni ekki í hendur löglærðra kröfugerðarmanna.
Á dómgreindinni hvílir nefnilega réttlætiskenndin.
Og hana eigum við að smíða sjálf.