Fara í efni

ALLT EINS OG ÁÐUR: HERMANG Í BOÐI RÍKISSTJÓRNAR

Áform Pentagon og NATÓ um hernaðaruppbyggingu á Íslandi voru ekki orðin tóm. Allt á fullri ferð segir Mogginn. Eina hryggðarfréttin er sú að vegna Kóróna veirunnar þurfti að fresta fyrirhugaðri heræfingu NATÓ á Íslandi í sumar. Ekki vegna þess að efasemdir væru uppi á Alþingi, hvað þá í ríkisstjórn, heldur aðeins vegna veikinda og smithættu!

Morgunblaðið greinir frá gangsetningu fyrsta verkefnisins í hermanginu, þar sem verktakinn er Rizzani De Eccher Ísland ehf. En honum er ætlað að framkvæma “upp á 13.750.000 Bandaríkjadali, í dag jafnvirði tæpra tveggja milljarða króna. Þessar framkvæmdir eru hluti af enn stærra verkefni á vegum bandarískra stjórnvalda á Keflavíkurflugvelli, sem eru þær fyrstu síðan varnarliðið hætti starfsemi árið 2006.”

Og áfram segir í frásögn Morgunblaðsins: “Annars vegar er um að ræða verkefni á vegum bandaríska sjóhersins og hins vegar verkefni bandaríska flughersins. Hófust framkvæmdir á vegum bandaríska flughersins við fyrsta áfanga viðhalds og endurbóta á flughlöðum og akstursbrautum á Keflavíkurflugvelli í fyrra en verktaki við þær framkvæmdir er ÍAV.”

Allt er sem sagt að gerast og meira segja eins og í gamla daga. Þarna eru Íslenskir aðalverktakar mættir! Fyrir yngri lesendur þá er ÍAV skammstöfun á heiti Íslenskra aðalverktaka en það fyrirtæki á glæstan feril í áranna rás sem fulltrúi Íslands í verkefnum á vegum Pentagon.

Ég neita því ekki að einhvern tímann hefði ég ekki trúað þessu með ríkisstjórn með VG innanborðs. En því miður er svo komið að mér kemur þetta ekki lengur á óvart.