Allir hafi gistingu
Birtist í Mbl
Þegar fjárlagafrumvarpið kom til afgreiðslu á Alþingi rak flesta í rogastans. Fjármagn til félagslegs leiguhúsnæðis var ekki að finna nema fimmtíu milljónir króna. Að vísu var dágóðum upphæðum ætlað til lánveitinga. Lánin eiga hins vegar að vera á markaðsvöxtum og allir sem til þekkja vita að slíkt gengur ekki upp.
Ástandið í húsnæðismálum er vægast sagt hörmulegt eftir að félagslega húsnæðiskerfið var eyðilagt með breyttum húsnæðislögum árið 1998. Þeim sem kaupa húsnæði er öllum gert að greiða markaðsvexti en húsbréfalán munu nú vera á 5,1% vöxtum auk verðbóta sem eru önnur 5%. Síðan koma afföllin sem eru um 10% en eins og menn muna frá síðastliðnu sumri hafa þau oft verði talsvert hærri. Afföllin hafa þrýst verðlaginu upp á við og aukið enn á klyfjarnar. En þar með er ekki öll sagan sögð - því enginn fær full lán samkvæmt hinu nýja kerfi og fyrir þá sem ekki hafa traust veð er ekki um annað að ræða en taka víxillán sem nú bera um 20% vexti. Það þýðir að lántakandanum ber að greiða hvorki meira né minna en 200 þúsund krónur til bankans á ári fyrir hverja milljón tekna að láni, fjögur hundruð þúsund krónur fyrir hverja tvær milljónir. Að vísu koma vaxtabætur til sögunnar og hjálpa þær upp á sakirnar. Eftir stendur þó sú staðreynd að efnaminni hluta þjóðarinnar er gert með öllu ókleift að eignast húsnæði. Fyrir það fólk er ekki um annað að ræða en halda út á leigumarkað. Þar fæst ekki húsnæði undir eitt þúsund krónum á hvern fermetra, 60 þúsund krónur að lágmarki fyrir litla tveggja herbergja íbúð. Þetta veldur því að fólk leitar á náðir félagsþjónustunnar, þar á meðal í Reykjavík. Þar eru nú 571 á biðlista, bæði einstaklingar og fjölskyldur, sumar barnmargar. Hópurinn sem um er að ræða er því miklu stærri.
Hjá öðrum aðilum sem veita félagsleg úrræði eru ámóta biðraðir. Þetta fólk býr margt inni á ættingjum, í saggakjöllurum og óíbúðarhæfu húsnæði. Vakin var á þessu athygli í umræðu utan dagskrár fyrir fáeinum dögum. Sá ráðherra sem fer með þennan málaflokk fyrir hönd ríkisstjórnarinnar var krafinn svara og spurður um fyrirhuguð úrræði. Þau voru engin enda kvaðst ráðherra ekki vita betur en allir hefðu gistingu.
Þykir mönnum það boðleg stefna í húsnæðismálum „að allir hafi gistingu“?