Fara í efni

ALDRAÐIR Á RAUÐU LJÓSI

Birtist í Málefnum aldraðra 1.tlbl.14.árg. 2005
Íslendingar eiga afar erfitt með að sætta sig við langar biðraðir. Ef það hendir menn í umferðinni á leið í eða úr vinnu að þeir þurfi að bíða lengur en 20 til 30 sekúndur á götuljósi rís samstundis mikil alda mótmæla og er þess krafist að tafarlaust verði ráðist í að gera mislæg gatnamót eða einhverjar þær ráðstafanir sem duga til að tryggja umferð án nokkurra tafa og stoppa. Kemur mönnum þá lítið við þótt framkvæmdirnar kosti himinháar upphæðir, jafnvel milljarða króna. Menn mega ekki hugsa smátt er þá sagt, bið kostar peninga.
Eflaust væri þetta allt góðra gjalda vert ef við hefðum úr ótakmörkuðum fjármunum að spila og þyrftum aldrei að horfa í peninginn. Þannig er því hins vegar ekki varið. Fjármunir í sameiginlegum almannasjóðum eru af skornum skammti og skiptir miklu máli hvernig þeim er forgangsraðað og hvernig með þá er farið.
Þetta kom mér í hug nýlega við umræðu á Alþingi um málefni geðsjúkra. Þar eru mörg hundruð einstaklingar á biðlista eftir aðstoð, eftir því einu að fá viðtal við lækni þurfa menn iðulega að bíða mánuðum saman.

 Á rauðu ljósi í kjaramálum

En skyldi þetta ekki einnig eiga við um aldraða? Hér þurfum við að varast að gerast alhæfingarsöm. Í fyrsta lagi er það mjög mismunandi hver kjör eldri borgarar búa við. Sumir búa við afbragðs góð kjör, búa í skuldlausu eigin húsnæði, lifa af fjárfestingum eða góðum lífeyrisréttindum. Hjá öðrum fer því fjarri að svo sé. Sannast sagna held ég að mörgum hafi brugðið í brún þegar forsvarsmenn Landssambands eldri borgara upplýstu að þriðjungur þeirra sem teljast til eldri borgara, eða yfir tíu þúsund manns, voru með minna en 110 þúsund krónur á mánuði þegar allt var talið um síðustu áramót. Upplýst var að mánaðartekjur samsvarandi hóps efst í tekjuskalanum, 10 til 11 þúsund þjóðfélagsþegna í öllum aldursflokkum, væru með 870 þúsund krónur eða meira í mánaðartekjur. Enginn vafi leikur á því að bilið á milli þessara hópa fer ört breikkandi. Lágtekjuhópurinn er að sjálfsögðu mun fjölmennari en þetta því ótalið er allt láglaunafólkið á vinnumarkaði og fólk án atvinnu. Þessir hópar hafa þurft að bíða á rauðu ljósi á  meðan hátekjufólkinu er hyglað af stjórnvöldum.

Kjarabarátta Landssambands eldri borgara mun skila árangri

Enda þótt Landssamband eldri borgara hafi þurft að bíða á rauðu ljósi með úrlausn sinna mála verður því ekki á móti mælt að samtökin hafa unnið mikið þrekvirki í að vekja þjóðina til vitundar um stöðu mála. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að þessi barátta mun skila árangri. Þá hafa samtökin sett fram skýrar tillögur til úrbóta. Í bréfi sem Benedikt Davíðsson, formaður Landssambands eldri borgara, ritaði mér sem svar við fyrirspurn minni til samtakanna um áherslur í kjarabaráttunni segir m.a.: „Vegna fyrirspurnar þinnar um megin áherslur LEB í dag varðandi kjaramál eldri borgara vil ég upplýsa eftirfarandi: Samanburður á staðtölum almannatrygginga og statistik kjararannsóknarnefndar leiðir í ljós að upphæðir grunnlífeyris almannatrygginga og tekjutryggingar sem eru aðaltryggingabætur almannatrygginga hafa á undanförnum tíu árum lækkað verulega sem hlutfall af launum. Er þá sama hvort miðað er við lágmarkslaun, meðallaun verkafólks eða launavísitölu Hagstofu. Það er grundvallarkrafa samtakanna nú að þessir tveir flokkar tryggingagreiðslna verði hækkaðir verulega þannig að þeir nái a.m.k. sama hlutfalli af meðaldagvinnulaunum verkamanna í fyrsta áfanga breytinga, eins og þeir höfðu árið 1991 þegar skerðingarnar verulega hófust. Til þess að það megi nást þarf grunnlífeyrinn að hækka úr kr. 21.993.- í kr. 26.699.- á mánuði og tekjutryggingin með eingreiðslum úr kr .44.909.- á mánuði í kr. 52.195.- á mánuði. Samkvæmt þessu þarf hækkun þessara tryggingabóta að nema kr. 11.990.- á mánuði til þess að halda hlutfalli frá árinu 1991. Hefðu lögin sem numin voru úr gildi 1995 sem tengdu breytingu bótanna við lágmarkslaun hinsvegar gilt er munurinn enn meiri því þá þyrfti grunnlífeyrir og tekjutrygging að hækka um nær 17.000 kr á mánuði. Á sama tíma hefur skattbyrði lægri tekna aukist verulega vegna raunlækkunar skattleysismarka.”
Landssamband eldri borgara hefur hamrað á því að í  fyrsta áfanga leiðréttinga tryggingagreiðslna til samræmis við launaþróun í landinu verði ofangreindar lagfæringar gerðar á grunnlífeyri og tekjutryggingu, einnig að skerðingarhlutföll þessara greiðslna vegna annarra tekna verði verulega lækkað frá því sem nú er svo fólki sé ekki haldið eilíflega rígföstu í sömu fátæktargildrunni. Á þeim vettvangi sem ég starfa bæði í BSRB og á hinum pólitíska vettvangi í Vinstrihreyfingunni grænu framboði er mikill stuðningur við kjarabaráttu eldri borgara og þær áherslur sem hér eru nefndar.

Á rauðu ljósi í húsnæðismálum

Varðandi húsnæðismálin ber einnig að forðast alhæfingar. Í fyrsta lagi eru aðstæður eldri borgara afar mismunandi í efnalegu tilliti og í öðru lagi skapar aldur og heilsa mismunandi þarfir. Einstaklingur á áttræðisaldri og níræðisaldri er líklegri til að hafa forsendur til að búa í eigin húsnæði en sá sem kominn er vel á tíræðisaldurinn. Hins vegar er ekkert einhlítt í þessu efni. Sumir eru vel sjálfbjarga fram á mjög háan aldur, aðrir eru það síður eða alls ekki. Þetta þýðir að kerfið má ekki vera of rígbundið í aldurstengingu. Lykillinn er að sjálfsögðu fjölbreytileiki. Ein ágæt viðmiðunarformúla er til í þessu efni sem ýmsum öðrum: Það sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Ef ég heimfæri þessa hugsun upp á sjálfan mig þá held ég að minn vilji myndi standa til þess að búa á mínu eigin heimili eins lengi og unnt er. Þess vegna er ég mjög fylgjandi aðstoð við heimilshald eldri borgara og tel ég Íslendinga standa mörgum, ef ekki flestum þjóðum, framar að þessu leyti. Þetta kerfi þurfum við að efla og til þess að svo megi verða þurfum við að stórbæta kjör þess fólks sem þessum verkefnum sinnir. Í tengslum við samninga Landssambands eldri borgara árið 2002 var ákveðið að efna til sérstaks átaks til að efla heimahjúkrun og heimilisaðstoð. Þetta var gert en ekki að því marki sem hagsmunasamtökin fóru fram á. Hér þarf að gera enn betur – meira að segja talsvert betur.
En það er ekki nóg að bæta þjónustu við aldraða heima fyrir. Ef fólk lifir fram á háan aldur gerist annað tveggja að óskir viðkomandi einstaklinga breytast eða einfaldlega heilsan krefst þess að leitað sé inn á öldrunarstofnanir. Þar eru nú langir biðlistar. Um 400 einstaklingar eru nú á biðlistum eftir rými á hjúkrunarheimli. Finnst okkur forsvaranlegt að láta þetta fólk bíða, iðulega mánuðum, jafnvel árum saman eftir húsnæði, suma í bráðri nauð? Þessi bið á rauðu ljósi er að sjálfsögðu ekki forsvaranleg.
Það ætti að vera forgangsúrræði númer eitt í þjóðfélaginu að útrýma þessum biðlistum. Í rauninni ætti krafan að vera sú að ekki yrðu gerð ein einustu mislæg gatnamót í landinu, engar Sundabrautir og engin jarðgöng fyrr en öllum biðlistum aldraðra eftir húsnæði hefði verið útrýmt með öllu!
Auðvitað snýst þetta fyrst og síðast um réttindi aldraðra einstaklinga. Þetta snertir hins vegar nánast allt samfélagið. Ekki aðeins í þeim skilningi að það á fyrir okkur öllum að liggja að eldast heldur vegna hins að hinir öldruðu eiga fjölskyldu sem þarf að liðsinna þeim ef þeir ekki fá nauðsynlega aðhlynningu í velferðarkerfinu. Þetta er því spurning um sparnað og félagslegt hagræði í samfélaginu.

Aldraðir eiga mikið undir velferðarkerfinu komið

Öll eigum við mikið undir því  komið að öryggisnet velferðarsamfélagsins sé þétt riðið og að það haldi. Eldri borgarar eiga hér ekki síst hagsmuna að gæta. Þegar kjörin í samfélaginu eru metin nægir ekki að horfa á kjarataxtana með tilliti til almennrar verðlagsþróunar. Það nægir ekki heldur að skoða samspil kjarataxta og skatta í þessu tilliti. Þetta kann vissulega að duga til að meta almenna kaupmáttarþróun.  Hins vegar þarf að gefa gaum að sérþörfum einstakra hópa til að fá raunsanna mynd af því hvernig kjör þeirra hafi þróast. Hvað aldraða áhrærir verður að horfa sérstaklega til lyfjakostnaðar og gjalda innan velferðarþjónustunnar. Þessi kostnaður bitnar mjög harkalega á á þeim hópi aldraðra sem býr við heilsubrest. Tilkostnaðurinn á þessu svið  hefur hækkað langt umfram almenna verðlagsþróun. Það þýðir að kaupmáttarþróun aldraðs fólks sem þarf á lyfjum að halda og þarf að leita læknis er mun óhagstæðari en hinna sem búa við gott heilsufar. Finnst fólki þetta vera sæmandi? Finnst okkur í lagi að teppaleggja tilveruna fyrir milljarðamæringa á sama tíma og sjúkir og aldraðir eru rúnir inn að skyrtunni? Að sjálfsögðu finnst okkur þetta ekki vera rétt.

Gefum grænt ljós á kjarabætur fyrir aldraða

Þess vegna ber okkur öllum sem þannig eru þenkjandi að styðja af alefli kjarabaráttu eldri borgara og hagsmunabaráttu þeirra. Hve margir skyldu gera sér grein fyrir því að skattabreytingar ríkisstjórnarinnar færa tekjulægsta fólkinu litlar sem engar kjarabætur en milljónkróna manninum – þeim sem hefur rúma milljón á mánuði í tekjur - er færð á silfurfati milljón á ári! Fátæki maðurinn fjármagnar síðan  þessa skattagjöf með þjónustugjöldum á heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum og hærri lyfjakostnaði.
Það þarf að breyta áherslum og forgangsröðun í þessu þjóðfélagi.  Þjóðfélagið þarf allt að sameinast um að gefa grænt ljós á kjarabætur fyrir aldraða.