Fara í efni

ALCAN OG SAMFYLKINGIN UM ÁSTINA Á ÁLVERUM OG LÝÐRÆÐI


Ekki veit ég hver á metið í ótrúlegum yfirlýsingum þessa dagana Michel Jacques, forstjóri Alcans, sem belgdi sig út í fjölmiðlum og talaði niður til Íslendinga um áform auðhringsins hér á landi, bæjarstjórinn í Hafnarfirði Lúðvík Geirsson, sem Michel þessi segir hafa hvatt Alcan til að stækka álverið á landfyllingu og komast þannig framhjá lýðræðislegri niðurstöðu Hafnfirðinga eða þá forseti bæjarstjórnar og flokksbróðir Lúðvíks í Samfylkingunni, alþingismaðurinn Gunnar Svavarsson. Ég þykist geta fullyrt að almennt hafi fólk staðið agndofa frammi fyrir yfirlýsingum og framgöngu þessara aðila í fjölmiðlum í dag.

Fagra Íslandi til framdráttar?

Samkvæmt staðhæfingum forstjóra Alcans, Michel Jacques hafði bæjarstjórinn í Hafnarfirði sumsé frumkvæði að því að bjóða Alcan að stækka álverið í Straumsvík með því að byggja á landfyllingu utan við gamla verið! Þetta er réttlætt á þá lund að bæjarbúar hafi í reynd verið að kjósa um deiliskipulag en ekki stækkun álversins!
Af þessu tilefni ályktuðu fulltrúar VG í Hafnarfirði að sorglegt væri að "líta til þess virðingarleysis sem vilja Hafnfirðinga er sýndur með þessari framgöngu. Hún er Samfylkingunni og Fagra Íslandi...ekki til framdráttar..." (Fyrir þá sem ekki þekkja til gaf Samfylkingin stefnu sinni í umhverfis- og stóriðjumálum heitið Fagra Ísland).
Við þennan málflutning vildu Gunnar Svavarsson og félagar ekki sætta sig og bókuðu í bæjarráði Hafnarfjarðar m.a.eftirfarandi: "Beinum aðdróttunum á hendur bæjarstjóra og Samfylkingunni í þessum efnum er vísað til föðurhúsanna og eru greinilega aðferð Vinstri grænna til að færa umræðuna frá stefnuvandamálum innan síns flokks. Vinstri grænir vilja ekki að íbúarnir hafi möguleika á því að geta gengið að kjörborðinu á hvaða tíma sem er til að geta haft áhrif á þróun samfélagsins, nema um sé að ræða mál sem Vinstri grænum þykja þóknanleg. Lýðræðisleg málefnaleg umræða á alltaf rétt á sér og ef það leiðir til þess að beinar íbúakosningar eða skoðanakannanir séu viðhafðar, þá er það mat okkar að slíkt sé til að tryggja enn frekara lýðræðislegt samráð innan samfélagsins”.

Öfugmælabókanir Samfylkingarinnar

Þetta taldi Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti VG í Hafnarfirði einmitt vera merg málsins. En hina lýðræðislegu niðurstöðu ætti að virða, nokkuð sem fulltrúar Samfylkingarinnar virtust ekki ætla að gera. Allavega virtust þeir vera reiðubúnir að hafa hana að engu. Hún minnti á það í bókun sinni hvernig kjörseðillinn í atkvæðagreiðslunni hafði verið orðaður: " Fyrir liggur tillaga að deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Tillagan hefur verið kynnt íbúum Hafnarfjarðar. Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) stækkun álversins samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu"? Guðrún Ágústa sagði ennfremur í bókun sinni: "Inngangsorð og spurning kjörseðilsins var þannig að ljóst er að Hafnfirðingar voru að greiða atkvæði um stækkun fyrirtækisins, ekki aðeins um afmarkaða deiliskipulagstillögu eins og bæjarstjóri hefur haldið fram í fjölmiðlum eftir 31. mars 2007. Samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að niðurstöður íbúakosningarinnar skyldi vera bindandi fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Það er því furðulegt að bæjarstjóri skuli ítrekað leita leiða fyrir Hafnarfjarðarbæ og Alcan að komast hjá lýðræðislegri niðurstöðu íbúakosningar. Er það það íbúalýðræði sem Samfylkingin stendur fyrir?..."

Samfylkingin bókar um þróun lýðræðis

Við þetta fór að þykkna í Gunnari Svavarssyni og öðrum handhöfum stefnu Samfylkingarinnar um lýðræði og umhverfisvernd (Fagra Ísland) sem nú bókuðu: ”Lesa má það út úr bókun áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna að ekki eigi að virða samþykktir Hafnarfjarðarkaupstaðar um íbúalýðræði. Íbúar hafa allan rétt, ef sá vilji er fyrir hendi, að óska eftir í samræmi við samþykktir að vinna málið með þeim hætti sem þar er lýst. Að öðru leiti liggur stefnumörkun Samfylkingarinnar fyrir í þessu tiltekna máli, sem Vinstri grænir í Hafnarfirði vilja stöðugt fjalla um. Það er einnig með ólíkindum að Vinstri grænir í Hafnarfirði vilji kljúfa sig frá þeim grundvallaratriðum sem lúta að lýðræðisþróun hér á landi og forystumenn allra stjórnmálaflokka, forseti Íslands og stærstu fjölmiðlar landsins hafa í kjölfar íbúakosninganna tekið heilshugar undir. Þróun lýðræðismála í Evrópu og Bandaríkjunum er öll á þann vega að tryggja gott samráð innan upplýsts samfélags og horfa til framtíðar á þann veg eins og gert er með íbúakosningum eða skoðanakönnunum”.
Þetta er viturlega mælt. Eða þannig.

Sjá nánar:

14. 0706327 - Fyrirspurn Vinstri grænna, lögð fram í bæjarráði 21.júní 2007

Fyrirspurn vegna mögulegrar stækkunar Alcan í Straumsvík á landfyllingu

Vegna fréttaflutnings af athugunum ráðafólks Alcan Primary Metal Group á mögulegri stækkun Alcan í Straumsvík á landfyllingu óskar áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna eftir greinargerð þar sem fram komi upplýsingar um samskipti bæjarstjóra Hafnarfjarðar, annarra kjörinna fulltrúa Hafnarfjarðar og starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar við Alcan í Straumsvík vegna þessa máls.

Óskað er eftir að eftirfarandi atriði komi sérstaklega fram:

1) Hafa fulltrúar af hálfu Hafnarfjarðarbæjar komið að athugunum á mögulegri stækkun Alcan í Straumsvík eftir 31. mars 2007? Ef svo er, með hvaða hætti hefur sú aðkoma verið?

2) Hafa fulltrúar af hálfu Hafnarfjarðarbæjar fundað með fulltrúum ríkisstjórnarinnar vegna fyrirætlana Alcan um stækkun fyrirtækisins eftir 31. mars 2007? Ef svo er hvaða niðurstöður voru af slíkum fundum?

3) Hefur verið leitað eftir stefnu eða afstöðu ríkisstjórnarinnar hvað mögulega stækkun á landfyllingu varðar?

4) Hver er stefna meirihluta Hafnarfjarðar gagnvart mögulegri stækkun Alcan í Straumsvík á landfyllingu við núverandi lóð fyrirtækisins?

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)



Bókun

Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á framgöngu bæjarstjóra hvað varðar þreifingar Alcan í Straumsvík um möguleika á stækkun fyrirtækisins á landfyllingu út frá núverandi lóð fyrirtækisins.

Hafnfirðingar og fyrirtækið tóku þátt í íbúakosningu um stækkun fyrirtækisins. Kjörseðillinn hljóðaði svo:

Fyrir liggur tillaga að deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Tillagan hefur verið kynnt íbúum Hafnarfjarðar.

Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) stækkun álversins samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu?

Inngangsorð og spurning kjörseðilsins var þannig að ljóst er að Hafnfirðingar voru að greiða atkvæði um stækkun fyrirtækisins, ekki aðeins um afmarkaða deiliskipulagstillögu eins og bæjarstjóri hefur haldið fram í fjölmiðlum eftir 31. mars 2007.

Samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að niðurstöður íbúakosningarinnar skyldi vera bindandi fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Það er því furðulegt að bæjarstjóri skuli ítrekað leita leiða fyrir Hafnarfjarðarbæ og Alcan að komast hjá lýðræðislegri niðurstöðu íbúakosningar. Er það það íbúalýðræði sem Samfylkingin stendur fyrir? Eiga Hafnfirðingar að undirbúa sig undir það að fara aftur og aftur að kjörborðinu vegna þessa máls þar til niðurstaðan verður þóknanleg Samfylkinginni í Hafnarfirði?

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)


Bæjarstjóri óskar bókað:

Í tilefni af framkominni bókun bæjarfulltrúa Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur tel ég fulla ástæðu til að endurbirta og ítreka þá bókun sem ég lagi fram í bæjarráði þann 12. maí sl. svohljóðandi:


Niðurstaða íbúakosninganna þann 31. mars sl. um deiliskipulagstillögu Alcan vegna fyrirhugaðrar stækkunar Álversins í Straumsvík var bindandi og hefur sú niðurstaða þegar verið staðfest í bæjarstjórn.

Rétt er að hafa í hug að samkvæmt skipulagslögum hafa fyrirtæki fullan rétt til að kynna og leggja fram sínar tillögur að breytingum á skipulagi og enginn getur tekið þann rétt frá þeim. Það liggur ljóst fyrir að bæjarstjórn mun ekki á þessu kjörtímabili hafa forgöngu um að taka til afgreiðslu nýja deiliskipulagstillögu vegna stækkunaráforma Alcan í Straumsvík. Í samþykktum Hafnarfjaðarbæjar varðandi íbúalýðræði er það annars vegar í höndum bæjastjórnar að vísa tilteknum málum í dóm kjósenda eins og gert var þann 31. mars, og hins vegar er það beinn réttur íbúa að kalla eftir slíkum kosningum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Lúðvík Geirsson (sign).


Bæjarráðsmenn Samfylkingarinnar óska bókað:

”Í bókun bæjarfulltrúa Vinstri grænna er lagt mat á það á hvaða forsendum íbúar bæjarins greiddu atkvæði í fjölmennestu íbúakosningum sem fram hafa farið hér á landi um tiltekið mál. Það er huglægt mat Vinstri grænna einna og verða þeir að eiga það við sig sjálfa hvernig þeir tjá sig um forsendur íbúa í Hafnarfirði.

Það er vissulega dapurlegt að VG hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig lýðræðisleg umræða getur farið fram og hvernig beri að nýta sér þann rétt sem allir íbúar hafa gagnvart 33. gr. samþykkta Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Beinum aðdróttunum á hendur bæjarstjóra og Samfylkingunni í þessum efnum er vísað til föðurhúsanna og eru greinilega aðferð Vinstri grænna til að færa umræðuna frá stefnuvandamálum innan síns flokks. Vinstri grænir vilja ekki að íbúarnir hafi möguleika á því að geta gengið að kjörborðinu á hvaða tíma sem er til að geta haft áhrif á þróun samfélagsins, nema um sé að ræða mál sem Vinstri grænum þykja þóknanleg.

Lýðræðisleg málefnaleg umræða á alltaf rétt á sér og ef það leiðir til þess beinar íbúakosningar eða skoðanakannanir séu viðhafðar, þá er það mat okkar að slíkt sé til að tryggja enn frekara lýðræðislegt samráð innan samfélagsins”.

Ellý Erlingsdóttir

Guðmundur Rúnar Árnason

Gunnar Svavarsson



Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir að bóka eftirfarandi

Það er sorglegt að Samfylkingin í Hafnarfirði skuli ekki standa með niðurstöðu íbúakosningar 31. mars 2007.

Fyrst gátu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar ekki gefið upp afstöðu sína til stækkunar Alcan í Straumsvík vegna þess, að sögn Samfylkingarinnar, að ekki lágu allar upplýsingar fyrir.

Þegar nær dróg að íbúakosningunni 31. mars 2007 fundu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar önnur rök fyrir afstöðuleysi sínu gagnvart bæjarbúum. Þau rök voru þau að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar mættu ekki gefa upp afstöðu sína því þá gætu þeir haft áhrif á afstöðu bæjarbúa.

Nú, að afstöðnum kosningum leitar Alcan allra leiða til að geta stækkað fyrirtækið þrátt fyrir bindandi niðurstöðu íbúakosningar um mögulega stækkun. Kosningu sem endaði með því að stækkun Alcan í Straumsvík var hafnað. Enn er Samfylkingin við sama heygarðshornið og neitar að taka afstöðu í málinu. Einu svör bæjarstjóra, fyrir hönd Samfylkingarinnar í Hafnarfirði eru að vísa málinu til íbúa.

Það er alveg ljóst að ef niðurstaða kosningarinnar hefði verið með öðrum hætti væri vinna við stækkun Alcan þegar hafin og ekki stöðug umræða um að endurtaka kosningu um málið.

Hvar er ábyrgð bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar? Hvert nær Fagra Ísland? Styðja kannski allir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar stækkun álbræðslunnar í Straumsvík?

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (Sign)


Bæjarráðsmenn Samfylkingarinnar óska bókað:
”Lesa má það út úr bókun áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna að ekki eigi að virða samþykktir Hafnarfjarðarkaupstaðar um íbúalýðræði. Íbúar hafa allan rétt, ef sá vilji er fyrir hendi, að óska eftir í samræmi við samþykktir að vinna málið með þeim hætti sem þar er lýst. Að öðru leiti liggur stefnumörkun Samfylkingarinnar fyrir í þessu tiltekna máli, sem Vinstri grænir í Hafnarfirði vilja stöðugt fjalla um. Það er einnig með ólíkindum að Vinstri grænir í Hafnarfirði vilji kljúfa sig frá þeim grundvallaratriðum sem lúta að lýðræðisþróun hér á landi og forystumenn allra stjórnmálaflokka, forseti Íslands og stærstu fjölmiðlar landsins hafa í kjölfar íbúakosninganna tekið heilshugar undir. Þróun lýðræðismála í Evrópu og Bandaríkjunum er öll á þann vega að tryggja gott samráð innan upplýsts samfélags og horfa til framtíðar á þann veg eins og gert er með íbúakosningum eða skoðanakönnunum”.

Ellý Erlingsdóttir

Guðmundur Rúnar Árnason

Gunnar Svavarsson