Fara í efni

ÁKVÖRÐUN ER Í SAMRÆMI VIÐ SAMGÖNGUÁÆTLUN

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 29.05.12
Þriðjudaginn 22. maí birti Morgunblaðið fréttaskýringu um veglínur í Húnavatnssýslu og Skagafirði og þá afstöðu mína að þyngra skuli vega á vogarskálum það sjónarmið sveitarfélaga á svæðinu að hringvegurinn þjóni byggðakjörnum en það að stytta hringveginn. Í fréttaskýringunni var m.a. viðtal við Njál Trausta Friðbertsson, varabæjarfulltrúa á Akureyri, sem var mjög ósáttur við þetta sjónarmið og kvaðst ætla að skrifa mér og óska eftir rökstuðningi. Tíundaði hann að sér þætti þessi afstaða eiga sér engar málsbætur og það sem verra væri; áhöld væru um að hún stæðist lög. Því vil ég svara sérstaklega.

Lögum samkvæmt, með vegalögum nr. 80/2007, er mér sem innanríkisráðherra falin yfirstjórn vegamála á Íslandi. Vegagerðin er undirstofnun innanríkisráðuneytisins og fer stofnunin með framkvæmd vegamála í samræmi við vegalög. Mér er falið samkvæmt lögum um samgönguáætlun nr. 33/2008 að gera áætlun um stefnu, fjáröflun og útgjöld til vegamála. Hvorki í gildandi samgönguáætlun né í þeirri samgönguáætlun sem ég hef lagt fram á Alþingi er gerð tillaga um flutning hringvegarins frá Blönduósi yfir á nýja Svínvetningabraut né um flutning hans til suðurs frá Varmahlíð í gildandi samgönguáætlunum. Ákvörðun um að Vegagerðin skuli ekki vinna áfram að tillögum um flutning hringvegarins á ofangreindum stöðum er því í samræmi við gildandi samgönguáætlanir. Samkvæmt vegalögum eru það sveitarfélögin sem taka ákvörðun um lagningu vega í skipulagi samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar. Tillögur Vegagerðarinnar skv. 28. gr. vegalaga hljóta að taka mið af samgönguáætlun hverju sinni eins og hún er samþykkt af Alþingi en áður hafa samgönguráð og ráðherra samgöngumála komið að málum.

Tvö stjórnsýslustig
Hér kemur skýrt fram hvernig stjórnsýslustigin tvö, annars vegar sveitarfélög og hins vegar ríkisvaldið, þurfa að eiga samtal um verkefni sem tengjast vegagerð og skipulagi. Skipulagsvald er einn af hornsteinum sjálfstjórnarréttar sveitarfélaganna og stefnumótun í samgöngumálum er á ábyrgð samgönguyfirvalda. Stefnumótunin fer fram með víðtæku samráði við fjölmarga aðila og eiga sveitarfélögin ekki síst aðkomu að borðinu.

Sjónarmið um tengingu byggðakjarna annars vegar og styttingu leiða hins vegar geta stangast á og þar togast á ólíkir hagsmunir. Byggðakjarninn vill halda umferðinni og vera í þjóðleið með verslun og viðskipti eins og sveitarfélögin í Húnavatnssýslu hafa fært rök fyrir. Sá sem á ekki beint erindi í þann byggðakjarna vill hins vegar komast leiðar sinnar á sem hagkvæmastan hátt, á sem stystum tíma og eftir skemmstu leið eins og fylgjendur styttingar hafa fært rök fyrir.

Samráðsnefnd
Þessi umræða gefur tilefni til að velta fyrir sér endurskoðun skipulagslaga og vegalaga. Er hugsanlegt að við þurfum að bræða betur saman vinnubrögð þessara tveggja sjálfstæðu stjórnsýslustiga? Ég tel að þetta þurfi að ígrunda og því er í ráði að skipa nefnd fulltrúa innanríkisráðuneytis, Vegagerðarinnar, umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að setjast yfir þessi mál. Hlutverk nefndarinnar væri að fara yfir gildandi lög og taka einnig til skoðunar lögin um samgönguáætlun með það í huga að auðvelda ákvarðanatöku um lagningu vega þannig að öll sjónarmið komi til álita.

Ögmundur Jónasson