Fara í efni

ÁKALL UM NÁTTÚRUVERND ÚR KRÝSUVÍKURKIRKJU


Á sunnudag fyrir réttri viku predikaði séra Gunnþór Ingason, prestur í Hafnarfirði, í Krýsuvíkurkirkju. Kirkjan er agnarsmá, byggð um miðja 19. öld. Stærð kirkjunnar er hins vegar í engu samræmi við þá uppljómun sem menn verða þar fyrir innandyra. Altaristaflan er eftir Svein Björnsson listmálara heitinn, en "hús málarans" er einmitt ekki langt undan.
Þeir sem koma í þessa sérstöku kirkju verða fyrir afar sterkum hughrifum. Um það get ég sjálfur borið vitni auk þess sem ég hef orðið þessa áskynja þegar ég hef komið í Krýsuvíkurkirkju með öðru fólki, hvort sem er innlendu eða erlendu.
Í predikun sinni sl. sunnudag vitnar séra Gunnþór í skrif gestkomandi manns frá Þýskalandi  í gestabók Krýsuvíkurkirkju þar sem segir m.a.:,,Mikið er þetta falleg kirkja í landslagi þar sem vindur gnauðar, friður ríkir og íhugun veitist. Til hvers allar þessar skartprúðu kirkjur heimsins?” 

Hverfull er mammonsgróðinn

Síðan heldur séra Gunnþór áfram: "En fleiri en ferðamenn laðast nú að Krýsuvík og aðkoma þeirra er allt önnur. Þeir koma ekki til að dást og undrast og skynja Guð á helgum stað og í náttúrumyndum. Þar eru einbeittir fjáraflamenn á ferð, sem greina hér mikla gróðavon. Þeir sjá fyrir sér virkjun gufuafls og hveralinda til að knýja spúandi álver og mengandi verksmiðjur. Þeir beita miklum þrýstingi á vettvangi stjórnmála og athafnalífs og láta í veðri vaka að nýting jarðvarmans sé nauðsynleg til að tryggja framfarir í framtíð, velferð og hagvöxt þjóðarinnar. Og þeir skirrast ekki við að ætla að breyta friðuðu landi í iðnaðarsvæði. 
Gegn þessari gróðahyggju rís annars konar lífskennd og allt annað gildismat, sem greinir varanlegri verðmæti í óbeisluðum orkulindum og lítt snortinni náttúru og kynjamyndum hennar.
Þeim sem gagntakast henni óar við yfirvofandi eyðileggingu náttúru og lífsverðmæta í Krýsuvík og vilja fremur stofna fólkvang og eldfjallagarð á Reykjanesi þar sem náttúruundrin fái áfram notið sín og nært lífið, og aukið það verðmætum sem varanlegri eru en hverfull mammonsgróðinn. 
,,Moldhlý er jörðin, mosgrænn blær af fjalli,
mjúkhentur dagur við vatnsins öldunið,
eilífðin þagnar, þögn við dauðans klið.”
Svo byrjar Matthías (Jóhannesen) lokerindi Krýsuvíkurljóðs síns. Augljóst er hvar hann lítur verðmætin. Þau felast ekki í áfergju og umhverfisröskun heldur í því að eiga hér áfram í Krýsuvík fagra og gefandi mynd sköpunarundra þar sem jarðneskur dagur í sólarrisi og himneskur snertast og glæða Guðsvitund og trú."

Látum ekki breyta friðuðu svæði í peninganámu

Þetta eru umhugsunarverð orð frá séra Gunnþóri Ingasyni. Nýlega birtist hér á síðunni tilvitnun í áhrifaríka grein sem hinn kunni kvikmyndagerðarmaður Erendur Sveinsson ritaði í Fjarðarpóstinn ekki alls fyrir löngu. Hann varaði þar við því að Krýsuvíkursvæðið yrði stóriðju og gróðahyggju að bráð. Erlendur spyr hvort menn ætli að láta "svipta okkur Hafnfirðinga útivistarparadís okkar og raunverulega leggja í rúst eina helstu náttúruperlu landsmanna allra, Krýsuvík, og stóran hluta þess svæðis á Reykjanesi sem búið var fyrir löngu að ákveða að skyldi vera fólkvangur.  Valdsmennirnir, fulltrúar okkar, íbúanna, hafa uppi óskir við stjórn Reykjanessfólkvangs að breyta friðlýstu svæði í iðnaðarsvæði til að hægt verði að umbreyta því í peninganámu." Þetta segir Erlendur að megi aldrei verða."  Grein Erlendar má nálgast HÉR.
HÉR
er síðan predikun séra Gunnþórs í heild sinni.