Fara í efni

ÁKÆRAN GEGN GEIR

Alþingi-landsdomur
Alþingi-landsdomur

Margir líta á réttarhöldin yfir Geir sem uppgjör við hrunpólitík frjálshyggjunnar. Því fer fjarri. Málshöfðunin gengur einvörðungu út á meint brot - að uppistöðu til andvaraleysi - í átta mánuði árið 2008. Eftirfarandi eru ákæruefnin að viðurlagðri fjársekt og tveggja ára fangelsi. Fyrstu og annarri málsgrein undir I. hefur verið vísað frá.

„ A. Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

I.

( Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.
    Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.)
    Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.
    Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
    Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.
    Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

II.

    Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.
    Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga."

Að mínum dómi er mikilvægt að við látum samráðsleysi fyrri ára ekki fylgja okkur inn í framtíðina. En að verja hundruðum milljóna til að finna út hvernig samráði var háttað milli þeirra Geirs  H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar, Davíðs Oddsonar og Björgvins G. Sigurðssonar, Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna Matthíesen á síðustu metrunum í aðdraganda hrunsins, -  er peningum illa varið. Sérstaklega er þetta illa gert gagnvart öllu því fólki sem telur að það sé verið að „gera upp hrunið" og tilbúið í góðri trú að verja miklum fjármunum til að það megi gera sem allra best.

Bankana úr landi!

Innra með mér hlægir mig ein ákæran: Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi."
Þegar ég árið 2007 vakti athygli á þeirri hættu að bankarnir kynnu að vera orðnir of stórir og að ef til vill væri ráð að þeir flyttu úr landi, ætlaði allt að rifna úr hlátri. Það var ekki Geir H. Haarde sem hló - alla vega ekki einn. Það gerðu fjölmiðlarnir og nær gervallur stjórnmálaheimurinn. Ég minnist þess að koma á kosningafundi vorið 2007 þar sem þetta var aðalbrandarinn, mikið hlegið. En nú á að dæma Geir Haarde einan fyrir þennan aulahlátur! Hvort skyldi nú skipta meira máli að kveða upp fangelsisdóm yfir Geir H. Haarde vegna þessa vanmats á stöðu bankanna sem hann átti sammerkt með flestum íslenskum stjórnmálamönnum, fjölmiðlafólki og álitsgjöfum eða horfa til þess veruleika sem nú er að teiknast upp á Íslandi og reyna að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig?

Alþingi hefur rétt til að afturkalla

Þess misskilnings gætir að málið sé úr höndum Alþingis og að þingið hafi ekki rétt til að afturkalla málshöfðunina á hendur Geir H. Haarde. Málið er þá gjarnan borið saman við önnur mál, t.d. mál níumenninganna sem ákærðir voru vegna stympinga í Alþingishúsi. Alþingi kærði níumenningana illu heilli. En það var ríkissaksóknari sem ákvað að höfða mál á hendur þeim. Af slíku máli getur hvorki löggjafarvald né framkvæmdavald haft afskipti. Um Landsdóm gegnir allt öðru máli. Þar er Alþingi ákæruvaldið. Þess vegna er íhlutun þess fullkomlega lögleg og ekkert óeðlilegt við hana svo fremi sem meirihlutavilji á Alþingi búi þar að baki.